Skip to main content

Útgáfuhóf vegna bókarinnar „Ástarkraftur: Undirstöður ástarfræða“

Útgáfuhóf vegna bókarinnar „Ástarkraftur: Undirstöður ástarfræða“ - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. janúar 2026 16:00 til 18:00
Hvar 

Saga - jarðhæð

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Útgáfu bókarinnar „Ástarkraftur: Undirstöður ástarfræða“ verður fagnað í Sögu miðvikudaginn 21. janúar kl. 16 með stuttum kynningum, samveru, gleði og léttum veitingum!

Í bókinni er lagður grunnur að ástarrannsóknum í íslensku samhengi. Í doktorsritgerð sinni frá árinu 1991 kynnti Anna Guðrún Jónasdóttir, prófessor emerita við Örebro-háskóla, hugtakið ástarkraft en með erótík og umhyggju eflir hann sköpunarkraft og sjálfa tilvistina. Í kjölfarið hafa ástarrannsóknir orðið til sem rannsóknarsvið og hér er fjallað um þær í íslensku samhengi.

Kaflar í bókinni spanna vítt svið, snerta á rómantískum para- og fleirsamböndum, fjölskyldu og hjónaböndum, landamærum og stjórnmálum, kvikmyndum og skólastofum og er hér fjallað um ólík ástartengsl, allt frá kynferðislegri ást til alheimsástar. Byggt er á femínískum og öðrum gagnrýnum fræðum til þess að greina hvernig ástin, sem grundvöllur mannlegra tengsla, virkar sem valdakerfi í samfélaginu.

Bókin ögrar hefðbundnum skilum milli hins persónulega og pólitíska og er í henni sett fram ný sýn á hlutverk tilfinningavinnu, umönnunar og tilfinningalegrar fjárfestingar sem grundvöll íslenskrar samfélagsgerðar.

Fræðafólk á sviði félags-, hug- og menntavísinda stígur hér skref í átt til þess að móta nýjan skilning á íslensku samfélagi. Ritstjórar eru Berglind Rós Magnúsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir. Aðrir höfundar eru Aðalbjörg Eva Aðalsteinsdóttir, Anna Guðrún Jónasdóttir, Birta B. Kjerúlf, Davíð G. Kristinsson, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir, Inga Dóra Björnsdóttir, Jón Ingvar Kjaran, Kristín Björnsdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Ólafur Páll Jónsson, Ólöf Júlíusdóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir og Unnur Edda Garðarsdóttir.

Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni í samstarfi við Hið íslenzka ástarrannsóknafélag. Hún á erindi til allra sem hafa áhuga á þeim umbreytandi áhrifum sem ástin getur haft á nútímasamfélag.

Viðburðurinn er haldinn á jarðhæð Sögu, húss Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, og er öllum opinn.

Útgáfu bókarinnar „Ástarkraftur: Undirstöður ástarfræða“ verður fagnað í Sögu miðvikudaginn 21. janúar kl. 16 með stuttum kynningum, samveru, gleði og léttum veitingum!

Útgáfuhóf vegna bókarinnar „Ástarkraftur: Undirstöður ástarfræða“