Þekking til sölu? - Eru háskólar reknir eins og smjörlíkisverksmiðjur?
Íslensk erfðagreining
Er þekking söluvara? Eru háskólar reknir eins og smjörlíkisverksmiðjur? Er menntun einkahagsmunir eða almannahagsmunir? Eru nemendur neytendur á markaði?
Þessum spurningum og fleirum verður velt upp í fundaröðinni Þekking til sölu? Markaðsvæðing akademíunnar.
11. október kl. 12-13 í sal Íslenskrar erfðagreiningar
Arnar Pálsson, prófessor í lífupplýsingafræði heldur fyrirlestur.
Hvaða hlutverki gegna háskólar á Íslandi og heim allan? Háskólar hafa þríþætt hlutverk, að mennta fólk, vera vettvangur rannsókna og bæta samfélögin sem þeir tilheyra.
Afrakstur háskólastarfs er fjölbreyttur, áhrifin koma fram eftir mislangan langan tíma og erfitt er að mæla þau.
Afurðir smjörlíkisgerða eru einhæfar, skammlífar og mælanlegar. Í smjörlíkisverksmiðjum þarf staðla, slípaðar vinnslulínur og mat á einsleitni afurða.
Í íslensku menntakerfi og við íslenska háskóla, eru notuð margvísleg kerfi til að dreifa fé og gæðum, sem mörg hver vinna beint gegn markmiðum menntastefnu og háskóla.
Á vissan hátt eru íslenskir háskólar reknir eins og smjörlíkisgerðir, með ofuráherslu á kerfi eins og „þreyttar einingar“, „rannsóknarstig“, „aflstig“, „húsnæðislíkön“, „mannaflalíkön“ og „deililíkön“. Til að mynda er notað við Háskóla Íslands kerfi til að meta árangur í rannsóknum, sem byggir á talningu á vísindagreinum og öðrum „skilgreinanlegum“ afurðum.
Kerfið telur birtar greinar en metur ekki gæði rannsókna. Afleiðingin er sú kerfið mismunar fræðasviðum og vísindamönnum, því það er notað til að útdeila stuðningi við rannsóknir innan skólans.
Margir samhangandi þættir orsökuðu þessar breytingar á undangengnum áratugum, en ferlinu verður ekki snúið við nema með samstilltu átaki kennara.
Ofurtrú á mælistikur og reiknilíkön færa háskóla frá sínum grunngildum í átt að smjörlíkisgerð.
Næstu fyrirlestrar í fundaröðinni verða haldnir í sal Íslenskrar erfðagreiningar:
- 8. nóvember kl. 12: Hvernig kerfin breyta okkur og hvernig við breytum kerfunum. Ásgeir Brynjar Torfason, gestafræðimaður við Rannsóknastofnun Gautaborgarháskóla.
- 6. desember kl. 12: Háskólar í fremstu röð – markaðsvæðing sem ýtir undir kynjamisrétti? Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræðum.
Að fundaröðinni standa MARK, miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna, RannMennt, rannsóknastofa um menntastefnu, alþjóðavæðingu og félagslegt réttlæti og ReykjavíkurAkademían. Fyrirlestraröðin er styrkt af rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, Félagsvísindasviði og Menntavísindasviði.
Arnar Pálsson, prófessor í lífupplýsingafræði, heldur fyrirlestur 11. október kl. 12-13 í sal Íslenskrar erfðagreiningar.