,,Heldurðu þræði”
Fjarfundur
,,Heldurðu þræði” - Nýsköpunarnámskeið fyrir frumkvöðla í textíl Háskóli Íslands í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands býður í haust upp á nýsköpunarnámskeið sem tengist textílvinnslu hér á landi. Námskeiðið nefnist „Heldurðu þræði“ og er hugsað fyrir þau sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og hefja eigin rekstur með áherslu á textíl eða eru í atvinnurekstri og vilja auka rekstrarþekkingu sína.
Námskeiðið er haldið í tengslum við evrópska rannsókna- og þróunarverkefnið CENTRINNO sem starfsfólk Háskólans og Textílmiðstöðvar Íslands taka þátt í. Námskeiðið er endurgjaldslaust. Þátttakendur fá margháttaðan stuðning og fræðslu á námskeiðinu, m.a. við að búa til heildstæða viðskiptaáætlun í kringum hugmyndir sínar. Þar verður einnig farið yfir stefnumótun, stjórnun og starfsmannamál, markaðssetningu og hagnýtingu samfélagsmiðla til að koma vörum sínum á framfæri en jafnframt er boðið upp á fræðslu um hringrásarhagkerfið, jafnréttisáherslur og umhverfismál.
Námskeiðið hefst 20. september og stendur í níu vikur. Kennt verður í fjarnámi og einni staðlotu. Kynningarfundur fyrir námskeiðið verður miðvikudaginn 12. september kl. 12-12.30 og verður honum streymt á netinu. Skráning hefst föstudaginn 26. ágúst. Nánari upplýsingar veitir Hulda Birna Baldursdóttir, netfang: centrinno@hi.is, hbkb@hi.is
Nýsköpunarnámskeiðið tengist Evrópuverkefninu CENTRINNO (New CENTRalities in INdustrial areas and engines for inNOvation and urban transformation) sem Háskóli Íslands og Textílmiðstöð Íslands taka þátt í ásamt stofnunum og fyrirtækjum í 9 löndum.
Hjá Háskóla Íslands koma þær Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði, Laufey Axelsdóttir, nýdoktor í sömu grein, og Hulda Birna Baldursdóttir verkefnastjóri í verkefninu.
Markmið CENTRINNO er að endurvekja hnignandi en menningarsögulega mikilvæg iðnaðarsvæði í Evrópu þar sem störfum hefur fækkað og umhverfi er á fallanda fæti. Áhersla er m.a. lögð á textíl í verkefninu og í tengslum við það er unnið að því að koma nýsköpunar- og þekkingarmiðstöðvum á fót í Amsterdam, Barcelona, Genf, Kaupmannahöfn, Mílanó, París, Tallinn, Zagreb og á Blönduósi. Þar verður menningararfur nýttur sem hvati fyrir nýsköpun og félagslega þátttöku í anda hringrásarhagkerfis og sjálfbærni.
,Heldurðu þræði” - Nýsköpunarnámskeið fyrir frumkvöðla í textíl Háskóli Íslands í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands býður í haust upp á nýsköpunarnámskeið sem tengist textílvinnslu hér á landi.