Doktorsvörn í dönsku: Sigrún Alba Sigurðardóttir

Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 26. febrúar 2026 fer fram doktorsvörn við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Sigrún Alba Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í dönsku, Poetiske fortællinger i traumatiske tider: Om jordiske relationer, resonans, bearbejdelse og alternative levemåder i dansk samtidslitteratur og samtidskunst. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Vörnin fer fram á dönsku.
Andmælendur við vörnina verða Elisabeth Friis, dósent við Háskólann í Lundi í Svíþjóð, og Rune Gade, dósent við Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Gísla Magnússonar, prófessors í dönsku við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Ann-Sofie N. Gremaud, dósent við Háskóla Íslands, og Mette Sandbye, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.
Þórhallur Eyþórsson, varadeildarforseti Mála- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Í doktorsritgerð sinni fjallar Sigrún Alba um jarðnesk tengsl, samsveiflu, trámaúrvinnslu og hugmyndir um annars konar lifnaðarhætti í dönskum samtímabókmenntum og samtímamyndlist. Í ritgerðinni er því haldið fram loftslagsbreytingar, og þær loftslagshamfarir sem nú eiga sér stað, hafi orsakað trámatískt rof í ríkjandi hugmyndaheimi og þekkingarrými á Vesturlöndum. Færð eru rök fyrir því að sú breyting á hugarfari sem hið trámatíska rof hefur valdið endurspeglist á markverðan hátt í dönskum samtímabókmenntum og samtímalist. Áhersla er lögð á hvernig sköpunarkraftur listarinnar getur mótað hugarfar, haft áhrif á tengingu okkar við önnur jarðnesk fyrirbæri og í gegnum ljóðrænar frásagnir gert okkur mögulegt að vinna úr trámanu og ímynda okkur annars konar lifnaðarhætti en við búum við í dag. Rannsóknin er þverfræðileg og einkum er stuðst við kenningar sem sóttar eru til fyrirbærafræði, sálgreiningar og pósthúmanískra fræða.
Um doktorsefnið
Sigrún Alba Sigurðardóttir er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og lauk cand.mag. gráðu í nútímamenningu- og menningarmiðlun (moderne kultur og kulturformidling) frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2004. Síðan þá hefur hún starfað sem fræðimaður, rithöfundur og sýningarstjóri auk þess sem hún var lektor og dósent við Listaháskóla Íslands um árabil.
Sigrún Alba Sigurðardóttir.
