Hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum hefur Jón Jónsson unnið að rannsóknarverkefni sem snýst um förufólk fyrri alda á Íslandi. Sjónarhornið er að skoða förumennskuna og gamla sveitasamfélagið í gegnum þjóðsögur og sagnir sem sagðar voru um förufólkið, en þær sýna glögglega viðhorfin til þessa hóps. Jaðarsetning fólksins í sögnum er í brennidepli, en aðferðin er einnig nýtt til að benda á samfélagslegar reglur og kerfi, skráð og óskráð, í kringum flakk og betl og gestakomur á Íslandi fyrr á öldum.
Útgáfustyrkur að upphæð 400 þús fékkst á árinu 2017 frá Miðstöð íslenskra bókmennta, til að gefa út bók um efnið í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Jón Jónsson vann í framhaldi af því að ritun bókarinnar sem var gefin út haustið 2018 af Háskólaútgáfunni. Titill bókarinnar er: Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi. Bókin er enn fáanleg í bókabúðum, en uppseld hjá útgefanda og Rannsóknasetrinu.
Jón Jónsson hefur lengi unnið að rannsóknum á förumennsku og haldið fyrirlestra, birt greinar og skrifað meistaraprófsritgerð um efnið. Einnig gert útvarpsþætti um förufólkið með Rósu Þorsteinsdóttur þjóðfræðingi hjá Stofnun Árna Magnússonar sem voru endurfluttir sumarið 2018 á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu, en voru áður á dagskrá árin 2000 og 2003. Fyrir og eftir útgáfu bókarinnar hefur Jón einnig flutt fjölmörg erindi og fyrirlestra um efnið.
Sumarið 2021 settu Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson síðan upp sögusýningu um förufólk fyrri alda á Sauðfjársetri á Ströndum og er hún enn uppi.