Skip to main content
22. júní 2015

Viðurkenning úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar

Í dag fór fram afhending viðurkenningar úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar.  Ævar Aðalsteinsson hlaut viðurkenningu að þessu sinni fyrir verkefnið Þróun ferða og útivistar í frístundum og skólastarfi sem var lokaverkefni hans til BA-prófs við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Leiðbeinandi hans var Stefán Bergmann.

Stutt lýsing á verkefni Ævars Aðalsteinssonar:

Verkefnið er heimildaritgerð og dregur upp mynd af þróun ferða og útivistar á Íslandi fram á miðja 20.öld í samanburði við þróun erlendis. Stuðst er við hugmyndir fræðimanna um þrjár grænar bylgjur sem markað hafa félagslegar aðstæðu á ákveðnum tímum  og haft áhrif á tilurð frítímans.

Lýst er hugmyndum og skilningi erlendra og innlendra náttúruvísindamanna, heimspekinga, listamanna, sálfræðinga, uppeldisfræðinga og ferðafrömuða hvers tíma um náttúru og umhverfi og uppeldi og kennslu. Verkefnið er skipulega upp byggt og vel afmarkað. Hugtakanotkun er vel kynnt og rædd. Dregin eru fram einkenni hvers tíma, áhrifaþættir og atburðir. Samspil hugmynda, kenninga og breyttra viðhorfa er rætt, niðurstöður kynntar og spurningum sem verkið vekur er varpað fram.

Höfundur gerir grein fyrir áhuga sínum á efninu og tengslum við útivistarsviðið. Hann sýnir vakandi áhuga og útsjónarsemi við öflun heimilda á breiðu sviði verkefnisins og verður margs vísari. Honum tekst að varpa skýrara ljósi á forsögu ferða, útilífs og útivistar á Íslandi og tengsl hennar við alþjóðlega þróun. Höfundur dregur fram atburði og verk sem legið hafa í þagnargildi og gerir það athyglisverða að taka mikilvægar hugmyndir um uppeldi og kennslu sem fram komu á ákveðnum tímabilum með skoðun sinni á þróun ferða og útilífs á fyrri tímum. Verkefnið hefur því umtalsvert fræðilegt og hagnýtt gildi fyrir þau ungu tómstunda- og útivistarfræði sem stunduð eru á Íslandi, einkum tengsl hugmynda, áhrifavalda og atburða.

Gildi verkefnisins liggur ekki síst í vandaðri vinnu, heimildaöflun, fjölþættri yfirsýn og framlagi til forsögu tómstunda- og útivistarfræða hér á landi sem til þessa hefur lítt verið könnuð.

Önnur tilnefnd lokaverkefni vorið 2015:

Díana Ólafsdóttir. Líkamsímynd unglinga. Uppeldis- og menntunarfræðideild. 57 síður. (Sigurlína Davíðsdóttir)

Ragnheiður Dóra Brynjólfsdóttir. Makaval eða örlög? Uppeldis- og menntunarfræðideild. 43 síður. (Eyrún María Rúnarsdóttir)

Steinunn Guðmundsdóttir. Snjallir notendur í námi og kennslu. Kennaradeild. 46 síður með verkefnum og myndefni. (Þórunn Blöndal)

Stefán Bergmann, Ævar Aðalsteinsson og Jóhanna Einarsdóttir