Nærri 480 kandídatar brautskráðir frá HÍ á morgun
Hátt í 480 kandídatar verða brautskráðir úr grunn- og framhaldsnámi frá Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Háskólabíói á morgun, laugardaginn 21. febrúar, kl. 13.
Nemendur af öllum fimm fræðasviðunum skólans, Félagsvísindasviði, Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði, Menntavísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði, fá afhent prófskírteini á hátíðinni. Samanlagður fjöldi brautskráðra er 476 með 477 próf, 244 sem hafa lokið grunnnámi og 233 sem hafa lokið framhaldsnámi.
Í hópi brautskráðra er fyrsti nemandinn sem útskrifast með BS-gráðu í verklegri eðlisfræði frá Raunvísindadeild skólans og þá mun fyrsti nemandinn sem útskrifast með MA-próf í evrópskum tungumálum, sögu og menningu frá Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda taka við brautskráningarskírteini sínu.
Við athöfnina munu Ísak Einar Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, ávarpa kandídata.
Kandídötum er ætlað afmarkað svæði í Háskólabíói og eru þeir beðnir um að mæta ekki síðar en kl. 12.00. Hver kandídat verður með númerað sæti sem kemur fram á nafnalista sem afhentur verður með dagskrá við innganginn og er sætaskipan í samræmi við afhendingu prófskírteina. Umsjónarfólk verður á staðnum til að leiðbeina um sætaskipan.