Tækifæri til náms í Evrópu
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um stúdentaskipti á vegum Erasmus+. Frestur til að sækja um skiptinám innan Evrópu skólaárið 2015-2016 er til 2. mars næstkomandi. Háskóli Íslands er í samstarfi við á fimmta hundrað háskóla í Evrópu. Í því felast einstök tækifæri fyrir nemendur til að stunda hluta af námi sínu við evrópska háskóla.
Nemendur geta fengið skiptinámið metið inn í námsferil sinn við Háskóla Íslands svo dvölin hafi ekki áhrif á lengd námsins. Skiptinám getur einnig gert nemendum kleift að stunda nám við fremstu háskóla heims þar sem annars gæti verið afar erfitt að fá inngöngu og veitir tækifæri á fjölbreyttara námsframboði, ekki síst á framhaldsstigi. Auk þess getur skiptinám opnað dyr fyrir nemendur sem hafa áhuga á að fara síðar í áframhaldandi nám við sama skóla eða í sama landi. Þá sýna niðurstöður rannsókna fram á jákvæð áhrif skiptináms á atvinnumöguleika ungs fólks.
Nánari upplýsingar og umsóknarform
Um þessar mundir standa yfir kynningar á skiptinámi innan Evrópu. Áhugasamir geta kynnt sér málið á kynningarfundum sem haldnir verða í janúar og febrúar.