Skip to main content
29. janúar 2026

Dánartíðni lífshættulegra sýkinga ekkert breyst yfir áratugina

Dánartíðni lífshættulegra sýkinga ekkert breyst yfir áratugina - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrátt fyrir að nýgengi ífarandi pneumókokkasýkinga hafi lækkað verulega frá því að bólusetningar voru teknar upp árið 2011 hefur dánartíðni sjúklinga sem fá slíkar sýkingar ekki lækkað yfir áratugina, samkvæmt nýrri langtímarannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala. 

Niðurstöðurnar eru birtar í hinu virta alþjóðlega vísindatímariti Clinical Infectious Diseases og byggja á greiningu allra staðfestra tilfella ífarandi pneumókokkasýkinga á Íslandi á árunum 1975 til 2020, sem ná alls til hartnær 1.500 einstaklinga. Þetta eru alvarlegustu sýkingar af völdum pneumókokka sem greindar eru, oftast tengdar blóðeitrun, lungnabólgu eða heilahimnubólgu, og hafa í för með sér háa dánartíðni. Greinin birtist fyrst á netinu og mun koma út í endanlegu prentuðu formi síðar á árinu.

„Pneumókokkar eru algengasta orsök lungnabólgu á heimsvísu en sýkingar af þeirra völdum eru oft meðal þeirra alvarlegustu sem við sjáum. Gögnin sýna að dánartíðni þeirra sem sýkjast, bæði til skemmri og lengri tíma, hefur lítið sem ekkert breyst yfir áratugina. Samhliða miklum  framförum á nær öllum sviðum læknisfræðinnar hefðum við búist við því að þessum sjúklingum farnaðist betur yfir árin,“ segir Hörður Tryggvi Bragason sem er aðalhöfundur greinarinnar en hann vann verkefnið að hluta sem læknanemi við HÍ undir handleiðslu Magnúsar Gottfreðssonar, prófessors í læknisfræði við HÍ og yfirlæknis í smitsjúkdómum á Landspítala. 

Hordur

Hörður Tryggvi Bragason. MYND/Þorkell Þorkelsson

Hörður Tryggvi er nú útskrifaður og starfar sem sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala en hann hefur áður vakið athygli fyrir afburðanámsárangur. Þannig lauk Hörður Tryggvi læknanámi með ágætiseinkunn og var dúx í MR árið 2018. Magnús Gottfreðsson leiðbeinandi hans er síðasti höfundur greinarinnar. 

Ein viðamesta langtímarannsókn sinnar tegundar

Rannsóknin er einstök að umfangi og lengd. Hún nær yfir 45 ára tímabil og byggir á landsbundnum gögnum um öll tilfelli þar sem pneumókokkar ræktast úr blóði eða mænuvökva, sem tryggir mjög mikla nákvæmni í greiningu og skráningu. Slík heildræn nálgun er fátíð á alþjóðavísu og gerir mögulegt að greina langtímabreytingar í tíðni sjúkdóms, útbreiðslu mismunandi hjúpgerða og þróun dánartíðni.

„Svo ég viti til hefur enginn rannsakað þetta viðfangsefni yfir svona langan tíma. Gögnin okkar ná yfir allt landið og spanna 45 ár en við sáum því einstakt tækifæri til þess að skoða eitthvað sem hafði ekki verið almennilega rannsakað áður,“ segir Hörður.

Lækkandi nýgengi með tilkomu bólusetninga

Rannsóknin sýnir einnig skýrt að tíðni sýkinganna á Íslandi hefur lækkað verulega frá því að bólusetningar barna fyrir pneumókokkum hófust árið 2011. Bóluefnin hafa haft afgerandi áhrif á útbreiðslu alvarlegra sýkinga í samfélaginu, bæði meðal barna og fullorðinna, meðal annars með svokallaðri hjarðvernd. Tíðni sýkinganna náði hámarki á árunum 1995–2004 en lækkaði síðan hratt og marktækt eftir 2011. Fækkunin var mest meðal barna, en einnig sást veruleg lækkun meðal fullorðinna, sem undirstrikar mikilvægi óbeinna áhrifa bólusetninga á samfélagið í heild.

Aukin dánartíðni út lífið meðal þeirra sem lifa af 

Til lengri tíma litið kemur einnig í ljós að einstaklingar sem lifa af ífarandi pneumókokkasýkingu búa við verulega aukna dánarhættu samanborið við almenning. Jafnvel þegar þeir sem látast vegna hinnar bráðu sýkingar eru ekki taldir með kemur í ljós að langtímadánartíðni þeirra sem lifa af er um 2,6 sinnum hærri en í almennu þýði. Þetta bendir til þess að sjúkdómurinn hafi varanleg áhrif á heilsu auk þess sem margir sjúklingar glíma við undirliggjandi langvinna sjúkdóma.

Magnus

Magnús Gottfreðsson, prófessor í læknisfræði við HÍ og yfirlæknir í smitsjúkdómum á Landspítala.  MYND/Kristinn Ingvarsson

„Á undanförnum árum hefur komið æ betur í ljós að sumar sýkingar sem við töldum áður að væru takmarkaðar við örskamman tíma, þ.e. tímann meðan sjúklingur væri með bráð einkenni, eru ekki alveg svo einfaldar heldur virðast þær geta kallað fram langvarandi breytingar á heilsu og líðan, sem í tilviki ífarandi pneumokokkasýkinga tengist mjög aukinni dánartíðni, löngu eftir að sýkingin er læknuð og talin vera yfirstaðin. Þetta þarf að rannsaka betur,“  segir Magnús Gottfreðsson, prófessor við Læknadeild HÍ, sem er einn höfunda. 

Rannsóknin sýnir einnig að þrátt fyrir árangur í forvörnum er brýn þörf á frekari aðgerðum til að draga úr dánartíðni í bráðafasa sjúkdómsins, til dæmis með enn markvissari greiningu, hraðari meðferð og betri stuðningi við viðkvæma sjúklingahópa.

Mikilvægar vísbendingar fyrir stefnumótun og heilbrigðiskerfið

Niðurstöður úr þessari afar áhugaverðu rannsókn hafa víðtæka þýðingu fyrir lýðheilsu og stefnumótun. Þær staðfesta enn fremur mikilvægi barnabólusetninga, ekki aðeins fyrir börn heldur fyrir samfélagið í heild. Þær sýna jafnframt að árangur í forvörnum getur breytt faraldsfræði alvarlegra smitsjúkdóma á landsvísu.

Á sama tíma vekur rannsóknin athygli á því að fækkun tilfella ein og sér er ekki nægjanleg. Til að bæta horfur sjúklinga þurfa stjórnvöld að huga að heildrænni nálgun, sem nær bæði til forvarna, bráðameðferðar og langtímaeftirfylgdar þeirra sem lifa af alvarlegar sýkingar.
Þeir Hörður og Magnús segja báðir að það sé  merkilegt en um leið óþægilegt að fá það staðfest að dánartíðni sjúklinga í bráðafasa sýkingarinnar hafi ekkert breyst undanfarna áratugi. Í meðferð flestra annarra lífshættulegra sjúkdóma hafi þeir séð gríðarlegar framfarir í greiningu og meðferð en það gildi greinilega ekki um þessar alvarlegu sýkingar og ætti að vera forgangsmál að bæta úr því. 

Rannsóknin er mikilvægt framlag íslenskra vísindamanna til alþjóðlegrar umræðu um pneumókokkasýkingar og sýnir hvernig samspil vandaðra skráninga, langtímarannsókna og öflugra bólusetningaráætlana getur skilað áþreifanlegum árangri fyrir samfélagið. Hún undirstrikar mikilvægi samstarfs Háskóla Íslands og Landspítala og mikilvægt hlutverk beggja við að skapa þekkingu sem hefur raunveruleg áhrif á heilsu fólks, bæði hérlendis og víðar.

Aðrir greinarhöfundar eru Kristján Godsk Rögnvaldsson læknir, Ubaldo Benitez Hernandez, tölfræðingur á Landspítala, og Helga Erlendsdóttir, klinískur prófessor emeritus og lífeindafræðingur á Landspítala. 

Hörður Tryggvi Bjarnason Magnús Gottfreðsson