Skip to main content
29. janúar 2026

Þróar færninámskeið um fæðu og næringu sem getur dregið úr fæðuóöryggi lágtekjuhópa

Brittany Repella

„Það hafa verið gerðar sárafáar rannsóknir á fæðufærni, fæðuvenjum og mataræði meðal einstaklinga með lágar tekjur á Íslandi. Verkefnið varpar enn fremur ljósi á fæðuöryggi meðal þessa hóps en það hefur lítið verið skoðað hér á landi. Við finnum öll fyrir verðhækkunum og að matur er að verða dýrari en hversu stór er hópurinn sem hefur ekki efni á mat?“ spyr Brittany Repella, doktorsnemi við Menntavísindasvið. Hún rannsakar nú hvort fæðutengd færniþjálfun og næringarfræðsla geti dregið úr fæðuóöryggi meðal lágtekjuhópa í Reykjavík. 

Skilgreina má fæðuóöryggi sem þá stöðu sem fólk er í þegar það hefur ekki reglulegt aðgengi að öruggri og næringarríkri fæðu þannig að það geti þroskast og dafnað. „Í meginatriðum langar mig að kanna hvort það geti skipt sköpum að auka hagnýta kunnáttu tengda mat hjá fjölskyldum sem búa við fæðuóöryggi í Reykjavík og þannig stuðla að því að þær borði hollari mat, nýti bjargir sínar betur og uppfylli nýjustu næringarráðleggingar hér á landi,“ segir Brittany um verkefnið.

Ódýru hráefni breytt í næringarríkar máltíðir

Liður í rannsókninni er tilraunaverkefnið Næra og fræða, námskeið sem Brittany hefur þróað þar sem fólki er kennt að breyta auðfundnu og ódýru hráefni eins og baunum, pasta og frosnu grænmeti og ávöxtum í ljúffengar og næringarríkar máltíðir. Fyrri rannsóknir hafa nefnilega sýnt að þekking á mat og næringu hjálpar og styrkir einstaklinga til að taka hagkvæmari, heilsusamlegri og öruggari ákvarðanir í því matarumhverfi sem þeir búa við.

Brittany er menntuð í næringar- og matvælafræði og segist lengi hafa haft áhuga á samfélagslegri lýðheilsu. Því viðfangsefni kynntist hún vel þegar hún vann sem starfsnemi og sjálfboðaliði við matarúthlutanir og við færniþjálfun tengda mat og matreiðslu á vegum Cooking Matters, verkefnis sem rekið hefur verið um langt skeið í heimalandi hennar, Bandaríkjunum. Markmið þess er að efla færni fólks, sem hefur lítið á milli handanna, bæði við innkaup og matreiðslu á heilsusamlegum mat.

Fimmtungur taldist glíma við fæðuóöryggi

Árið 2020 ákvað Brittany hins vegar að venda kvæði sínu í kross og skráði sig í meistaranám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Í meistaraverkefni sínu kannaði hún matar- og næringarþekkingu, fæðuinntöku, fæðuval og hegðun bæði meðal þeirra sem skilgreindir eru sem fæðuóöruggir og fæðuöruggir. Í verkefninu gerði hún m.a. könnun meðal fólks sem þurft hefur að leita sér mataraðstoðar. „Könnunin náði til um 130 manns en veitti mjög mikilvægar upplýsingar. Ég rýndi einnig í gögn úr evrópsku rannsóknarverkefni sem ber heitið „Fæðuöryggi meðal evrópskra háskólanema í COVID-19-faraldrinum (FINESCOP),“ útskýrir Brittany.

Meistaraverkefni Brittany leiddi í ljós að út frá fæðuöryggisflokkun Matvælastofnunar Bandaríkjanna (USDA) reyndist um fimmtungur svarenda í fyrrnefnda hópnum fæðuóöruggur en hátt í 60% fæðuörugg og í hópi háskólanema í FINESCOP-könnuninni flokkuðust 13% með fæðuóöryggi en 65% matarörugg. 

Brittany bætir við að tvær ritrýndar greinar hafi einnig verið birtar upp úr rannsóknum hennar og samstarfsfólks og sú þriðja sé í vinnslu. „Þessi vinna varð mér hvatning til þess að halda áfram á sömu braut í doktorsnámi og nýta gögnin til þess að útbúa námskeið um fæðutengda færniþjálfun og næringarfræðslu,“ útskýrir hún og vísar þar til tilraunanámskeiðsins Næra og fræða. Brittany nýtur leiðsagnar Grétu Jakobsdóttur, dósents við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, í doktorsrannsókninni en auk hennar eru Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við sömu deild, og Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, í doktorsnefndinni.

Vonast til að tilraunaverkefni nýtist fólki um allt land í framtíðinni

Þar sem þau sem búa við fæðuóöryggi eru viðkvæmur hópur reyndist þátttaka í tilraunaverkefninu að sögn Brittany ekki nægileg til þess að það skilaði markverðum niðurstöðum. Því ákvað hún að bæta eigindlegum þætti við verkefnið og hyggst ræða við hluta af þátttakendunum í tilraunaverkefninu á þessu ári. „Með þessu vonumst við til að varpa ljósi á það hvers vegna þessi hópur hefur verið lítt rannsakaður og hvernig endurhanna megi inngrip með beinni þátttöku fólks þannig að það slíkt nýtist best þessum hópi,“ segir hún.  

Brittany undirstrikar að afar fáar rannsóknir hafi verið gerðar á fæðufærni, fæðuvenjum og mataræði meðal lágtekjufólks á Íslandi og því sé nýnæmi rannsóknarinnar mikið. „Von mín er að þetta tilraunaverkefnið þróist  yfir í verkefni sem nyti stuðnings stjórnvalda og nýttist fólki um allt land. Það eru afar fáir kostir í boði fyrir fólk sem skortir mat fyrir sig og fjölskyldur sínar og því fleiri úrræði sem eru í boði, því betra,“ segir hún. 

Brittany Rapella