Skip to main content
11. desember 2025

Tveir framúrskarandi kennarar fá Kennsluverðlaun HVS

Kennsluverðlaun HVS 2025

Fimmtudaginn 11. desember voru veittar viðurkenningar fyrir virka kennsluþróun og nýmæli í kennslu á Heilbrigðisvísindasviði HÍ fyrir árið 2025. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Atla Ágústssonar, lektors við Námsbraut í sjúkraþjálfun og Berglindar Evu Benediktsdóttur, dósents við Lyfjafræðideild. Bæði voru tilnefnd af HVS til miðlægra kennsluverðlauna HÍ og hlaut Berglind þau verðlaun á dögunum.

Afhending kennsluverðlaunanna var liður í kennsluþróunardegi HVS en í þetta sinn var dagurinn helgaður gervigreind og áhrifum hennar á námsmatsaðferðir. Það var Ólafur Ögmundarson forseti Matvæla- og næringarfræðideildar og formaður kennslunefndar HVS sem afhenti kennsluverðlaunin.

Kennsla á hvaða skólastigi sem er, er eitt af mikilvægustu störfum samfélagsins og góður kennari getur haft gríðarleg mótandi áhrif á nemendur sína, t.d. getur hann haft mikil áhrif áhugasvið þeirra og þar með hugsanlega framtíðarstarf nemanda og alla lífsýn. Það muna allir eftir góðum kennara og þeir hafa allir sett mark sitt á líf okkar á einn eða annan hátt.

Atli Ágústsson, lektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun

Atli er sérfræðingur í hjálpartækjum, taugasjúkraþjálfun, lífaflfræði og heilbrigðisverkfræði. Atli lauk diplómanámi í kennslufræði við HÍ og beitir nemendamiðuðum og virkum kennsluaðferðum. Hann hefur verið ötull við nýsköpun í kennslu og rannsóknum tengdum gervigreind, t.d. á notkun gervigreindar og mannlegrar dómgreindar í meðferðarferli sjúkraþjálfunar og notkun sýndarveruleikagleraugna við kennslu. Atli er í forystu í hermikennslu í sjúkraþjálfun í HermÍs, sameiginlegu færni- og hermisetri Háskóla Íslands og Landspítala. Auk þess að leiðbeina í bæði BS- og MS-verkefnum er Atli einnig virkur í rannsóknum og er þá helst að nefna þátttöku hans í verkefninu Move on sem byggir á samstarfi Námsbrautar í sjúkraþjálfun HÍ við háskóla í Danmörku, Finnlandi og á Möltu. Verkefnið byggir á styrkveitingu úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og er markmið þess að auka þekkingu á hreyfigreiningu í endurhæfingu og undirbúa fagfólk framtíðarinnar í að nota nettækni og gervigreindartæki.

Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild

Berglind Eva hefur kennt við Lyfjafræðideild í tíu ár við góðan orðstír. Hún hefur haft umsjón með ýmsum námskeiðum en auk þess komið á fót nýju námskeiði, Líftæknilyf, sem hún kennir einnig. Árið 2023 lauk hún viðbótardiplómanámi í kennslufræði fyrir háskólakennara og beindust rannsóknir hennar í lokaverkefninu að umhverfi náms og kennslu við Lyfjafræðideild.
Berglind var um árabil formaður Kennsluráðs Lyfjafræðideildar og á stóran þátt í mótun þess verklags sem deildin byggir á í dag, meðal annars innleiðingu Kennslukaffis og Deildardags. Kennsluráð Lyfjafræðideildar annast heildstæða rýni á miðmisseris- og kennslukönnunum á hverju misseri og fylgir eftir niðurstöðunum. 
Berglind var fulltrúi deildarinnar í vinnuhópi fyrir Evrópuráðið sem vann að kortlagningu lyfjafræðináms í Evrópu vegna uppfærslu á kröfum til lyfjafræðimenntunar innan ESB. Í framhaldi hefur hún verið í forgrunni við endurskipulagningu námsins. Haustið 2025 tók ný kennsluskrá lyfjafræðinámsins gildi, afrakstur umfangsmikillar vinnu til bóta fyrir lyfjafræðinámið.
Berglind hefur verið í forystu í nýsköpun kennsluhátta innan deildarinnar og verið opin fyrir að tileinka sér nýjungar í kennslu. Hún var meðal fyrstu kennara deildarinnar til að tileinka sér Team-based learning aðferðarfræði sem hefur hlotið afar jákvæð viðbrögð nemenda. Henni hlotnaðist einnig sá heiður 2023 að vera tekin inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna og er þar virkur félagi. Berglind hefur einnig verið mjög öflug í að kynna kennslutengdar rannsóknir sínar, til dæmis á Menntakviku, Ráðstefnu í líf- og heilbrigðisvísindum, Ráðstefnu kennsluakademíunnar og á Ráðstefnu evrópskra lyfjafræðideilda (EAFP). Að auki vinnur Berglind nú í samstarfi við fleiri að þróun kennslutengds borðspils. Markmiðið er að styðja fyrsta árs háskólanema í að átta sig á kröfum, áskorunum og bjargráðum háskólanáms á aðgengilegan hátt í gegnum borðspil.

Heilbrigðisvísindasvið HÍ óskar þeim Atla og Berglindi til hamingju með viðurkenningarnar og óskar þeim velfarnaðar í sínum störfum.
 

Berglind Eva Benediktsdóttir, Ólafur Ögmundarson og Atli Ágústsson við afhendingu Kennsluverðlauna HVS.