Skip to main content
3. nóvember 2025

Leiðtogar efast líka um sjálfa sig

Leiðtogar efast líka um sjálfa sig - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Ég held að við séum oft, jafnvel þegar við eldumst, hrædd við að elta drauma okkar. Við horfum á aðra og höldum að þeir hafi náð markmiðum sínum vegna þess að þeir óttuðust ekki. En það er ekki rétt. Leiðtogar efast líka um sjálfa sig – en þeir halda samt áfram.“ Þannig lýsir Inga Minelgaitė, prófessor í verkefnastjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, kveikjunni að nýjasta verkefni sínu – barnabók sem fjallar um hugrekki, ótta og leiðtogahæfni. Merkilegur snúningur hjá vísindakonu sem hefur lagt kapp á að fræða stjórnendur fyrirtækja og stofnanna og nemendur í háskólum víða um heim.

Bókin hefur þegar notið mikillar velgengni í Litháen, þar sem Inga er fædd, og verið tekin upp að Ingu sögn af barnasálfræðingum, kennurum og forystufólki sem fræðsluefni fyrir börn og fullorðna.

Sjálfsforysta kennd frá barnsaldri

Eftir meira en tíu ára kennslu í forystufræðum, sem hefur m.a. augun á svokallaðri sjálfsforystu, fann Inga að það væri kominn tími til að færa hugmyndafræðina nær börnum. Sjálfsforysta eða sjálfsleiðtogahugsun er hæfileikinn til að hafa áhrif á eigið hugarfar, hegðun og tilfinningar til að ná markmiðum sínum — án þess að þurfa utanaðkomandi stjórn. Þessi hugsun byggir á þeirri forsendu að forysta byrji innan frá. Áður en við getum leitt aðra, þurfum við að kunna að leiða okkur sjálf. Áður en við krefjumst ábyrgðar annarra, þurfum við að taka ábyrgð á eigin hugsun, viðhorfum og ákvörðunum.

https://hi.is/sites/default/files/bgisla/inga_og_co.jpg

Frá kynningu bókarinnar í Litháen. Inga er lengst til hægri.

„Ég komst að þeirri niðurstöðu að þessi hugmyndafræði ætti að vera kennd miklu fyrr – strax á fyrstu árum í grunnskóla,“ segir Inga. „Þess vegna nærði ég í nokkur ár hugmyndina um að skrifa barnabók um ótta og um það að ná markmiðum sínum óháð honum.“

Hún segir að upphaflega hafi bókin verið hugsuð sem innblástur fyrir börn en þegar líða tók á skrifin hafi verkið vaxið og orðið að þverfaglegri bók fyrir bæði börn og fullorðna. „Í dag er hægt að finna bókina í mörgum bókasöfnum í Litháen. Fjölmargir barnasálfræðingar, kennarar og sérkennarar eiga hana. Leiðtogar í fyrirtækjum hafa, eftir að hafa lesið bókina, keypt hana og gefið til menntastofnana að eigin vali til að leggja áherslu á mikilvægi þess að þróa sjálfsleiðtogahugsun hjá börnum,“ segir Inga.

„Þökk sé þessari bók þá hef ég átt samræður við börn og líka við viðskiptafólk um samkennd, seiglustýrða forystu og leiðtogahugsun á unga aldri – samtöl sem ég hafði aldrei átt áður,“ segir Inga Minelgaitė, prófessor í verkefnastjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Fræðileg þekking í nýju formi

Að færa fræðileg hugtök yfir í barnabók var þó mikil áskorun að sögn Ingu sem er alls ekki vön að fást við verk af þessum toga enda vísindamaður og kennari í Háskóla Íslands. „Mér líður mjög vel að ræða um forystu og sjálfsleiðtogahæfileika við fullorðna – ég kenni og þjálfa stjórnendur reglulega – en þetta var nýr heimur,“ segir hún. „Það var áskorun að útskýra meginreglur sjálfsleiðtoga á skemmtilegan hátt sem væri aðlaðandi fyrir börn.“

Inga vann bókina í samstarfi við dósent í kennslufræði við Vytautas Magnus háskólann í Litháen sem hefur bakgrunn í barnasálfræði. „Þetta samstarf krafðist margra vísindalegra samtala um kenningar um forystu, kennsluaðferðir o.s.frv. Þó að þetta sé barnabók er hún skrifuð þannig að hún er líka skemmtileg lesning fyrir fullorðna,“ segir Inga.

„Einn forstjóri sagði eftir lesturinn að hann hefði lesið fjölda stjórnendabóka en að í þessari bók hafi hann fengið spurningar sem hann hefði aldrei spurt sig áður en fannst skipta raunverulega máli.“

Þverfagleiki sem krefst hugrekkis

Inga er sannfærð um að framtíð háskólastarfsins felist í því að tengja saman fræðigreinar og ólík svið samfélagsins. „Ég trúi því að við þurfum að vinna meira saman milli fræðigreina. Hugmyndir, vörur og þjónusta sem verða til á þennan hátt geta verið erfiðari í markaðssetningu en þær færa samt ólíka hópa samfélagsins saman og skapa nýtt samtal og öðruvísi framfarir.“

Hún bætir við að háskólar hafi sérstaka skyldu til að hugsa út fyrir veggi stofnana. „Eftir að hafa kennt á meistarastigi í meira en tíu ár er ég sannfærð um að ef við viljum ala upp samfélagslega ábyrga og framsækna leiðtoga þá verðum við að vinna með stofnunum sem móta námsumhverfi barna á yngri skólastigum.“

Að skrifa efni af þessum toga fyrir börn er afar flókið og krefjandi verkefni en Inga lýsir bókinni sem „leið til að eiga samtal við barnið sem þú hefur aldrei átt áður.“

„Þökk sé þessari bók þá hef ég átt samræður við börn og líka við viðskiptafólk um samkennd, seiglustýrða forystu og leiðtogahugsun á unga aldri – samtöl sem ég hafði aldrei átt áður,“ segir prófessorinn.

„Þessir leiðtogar fundu nýjar leiðir til að gefa samfélaginu til baka. Þegar þekking mín á forystu þjónar samfélaginu á breiðum grunni, ekki bara fyrirtækjum, þá finn ég sem fræðimaður meiri tilgang í því sem ég geri.“

Aðspurð hvað Inga hafi sjálf lært af verkefninu segir hún: „Að læra af öðrum fræðigreinum veitti mér dýrmæta reynslu. Og kannski fyrst og fremst – að hugrekki er ekki frelsi frá ótta, heldur ákvörðun um að halda áfram þrátt fyrir hann.“