Skip to main content
20. ágúst 2025

Tímamót og gleðileg stund í Sögu

Móttaka nýnema á Menntavísindasviði í Sögu

Tekið var á móti nýnemum grunnnáms þann 18. ágúst í nýjum glæsilegum húsakynnum Menntavísindasviðs, í Sögu við Hagatorg.

Nýnemar á sviðinu voru boðin hjartanlega velkomin og fengu kynningu á starfinu fram undan, félagslífinu og þjónustunni sem þeim stendur til boða auk þess sem boðið var upp á fjörefli til að hrista hópinn saman. Kennsla hófst svo eftir hádegið og þar með hófst nýr kafli í sviðsins í Sögu.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs hélt ávarp á móttöku nýnema í Sögu, hér má lesa það:

Kæru nýnemar,    

Það er frábært að sjá ykkur svona mörg hér í dag. Ég býð ykkur hjartanlega velkomin til  náms við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Það er góð ákvörðun að hefja  háskólanám og mér finnst að sjálfsögðu sérstaklega ánægjulegt að þið hafið valið að stunda nám á sviði menntavísinda. Dagurinn í dag markar sögulega stund þar sem við tökum á móti nemendum í fyrsta skipti í Sögu, nýju húsnæði Menntavísinda og nýju húsnæði Háskóla Íslands. Námið ykkar mun fara fram hér í Sögu, í öðrum byggingum á háskólasvæðinu, og fyrir sum ykkar í Laugardal. En námið ykkar mun líka fara fram á vettvangi skóla, frístunda, íþrótta, og velferðar í samfélaginu. Deildir Menntavísindasviðs er í nánu samstarf við stofnanir og fagfólk um allt land og við leggjum mikla áherslu á að ykkur gefist tækifæri til að takast á við hagnýt og mikilvæg verkefni sem einkenna störf þeirra sem mennta, þjálfa og valdefla aðra einstaklinga.

Með því að velja að læra á Menntavísindasviði hafið þið valið að leggja ykkar af mörkum til að byggja upp betri framtíð fyrir komandi kynslóðir. Það er ekki aðeins ábyrgð heldur einnig forréttindi að fá að taka þátt í því mikilvæga starfi. Hlutverk háskóla er ekki eingöngu að mennta og skipuleggja háskólanám, heldur einnig að afla þekkingar og þróa hugvit og samfélagslegar lausnir í samvinnu við stofnanir og atvinnulíf. Háskólakennararnir sem þið munuð kynnast í náminu ykkar eru einnig fræðafólk og rannsakendur sem brenna fyrir því að varpa ljósi á veruleikann sem mótar okkur og hjálpar okkur að skilja heiminn aðeins betur. Ykkur býðst sem háskólanemar að vera þátttakendur í þessari rannsóknar- og lærdómsvegferð og leggja ykkar af mörkum til að bæta samfélagið, hvert sem ykkar hugur stefnir á að starfa og lifa.

Í Sögu verður vinnuaðstaða og námsaðstaða fyrir allt starfsfólk og nemendur Menntavísindasviðs, ásamt því sem ein hæð mun hýsa upplýsingatæknisvið Háskólans. Þá verður margvísleg þjónustustarfsemi á neðri hæðum, s.s. veitingaþjónusta, mötuneyti, sköpunar- og tæknismiðja og fjölbreytt aðstaða fyrir nemendur til hópa- og verkefnavinnu.

Unnið er af kappi að því að ljúka framkvæmdum við kennslustofur á 1.-3. hæð og allt útlit er fyrir að biðin verði ekki löng. Ég bið ykkur þó að sýna því skilning að einhver röskun verður á fyrirkomulag kennslu á fyrstu vikum kennslunnar. Staðkennsla hefst nú þegar  í norðurenda Sögu og ég vek sérstaklega athygli ykkar á að nota eingöngu þennan inngang í bygginguna fyrst um sinn. Kennsla fer einnig fram í öðrum byggingum á háskólasvæðinu og kennsla í íþrótta- og heilsufræði fer einnig fram í Laugardal.

Nám er ekki bundið byggingum,  þið munuð öll tengjast kennurum og samnemendum með gagnvirkum hætti gegnum CANVAS námsvefi og annan stafrænan vettvang. Það er brýnt að þið fylgist daglega með stundatöflu ykkar í Uglu og skilaboðum frá kennurum ykkar á námskeiðsvefjum. Flutningur Menntavísindasviðs á aðalsvæði háskólans er stór liður í því að gjörbylta aðgengi nemenda sviðsins að margvíslegri nemendaþjónustu sem háskólinn og félög stúdenta skipuleggja, og ég hvet ykkur til að kynna ykkur þá starfsemi sem einkum er staðsett á Háskólatorgi.

Á næstu dögum mun kennsluskrifstofu Menntavísindasviðs, sem jafnframt veitir ykkur margvíslega aðstoð, opna dyr sínar á 2. hæð. Þið getið einnig nýtt ykkur netspjall, hringt eða sent tölvupóst á mvs@hi.is.

Háskólagangan snýst ekki aðeins um formlegt nám heldur einnig um persónulegan þroska og félagsleg tengsl. Ég hvet ykkur til að nýta vel öll þau tækifæri sem bjóðast ykkur hér í Háskóla Íslands. Kynnið ykkur námskeiðin, kynnist kennurum og samnemendum, og takið þátt í félagslífinu. Þið munuð kynnast fólki með ólíkan bakgrunn og með mismunandi sjónarmið, sem mun auðga reynslu ykkar og víkka sjóndeildarhringinn. Þess vegna hve ég ykkur til að hafa frumkvæði að því að tengjast samnemendum ykkar, ekki bíða eftir því að einhver annar hafi frumkvæði, tala þú við manneskjuna við hliðina á þér, fyrir framan þig eða fyrir aftan þig.

Kæru nýnemar, saman munum við starfsfólk og nemendur Menntavísindasvið skrifa nýja sögu! Mín von er sú að þið sem nú eruð að hefja háskólanám á Menntavísindasviði munið njóta ykkar í námi og starfi. Þið verðið á einn eða annan hátt þátttakendur í að móta starfsemi sviðsins í Sögu og munuð taka mikilvægan þátt í að skrifa nýja sögu í kafla Háskólans.

Starfsfólk Menntavísindasviðs leitast við að aðstoða ykkur eftir fremsta megni – en þið megið ekki láta ykkar kyrrt eftir liggja. Framtíðin er ykkar, gangi ykkur sem allra best!

Innilega velkomin til náms á Menntavísindasvið!

Móttaka nýnema á Menntavísindasviði í Sögu
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði í Sögu
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði í Sögu
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði í Sögu
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor stýrði fjörefli
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði í Sögu
Móttaka nýnema á Menntavísindasviði í Sögu