Skip to main content
14. mars 2025

Síðasti rampurinn í Römpum upp Ísland vígður við Háskóla Íslands í dag

Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar, vígði rampinn nýja

Vígslu síðasta rampsins í verkefninu Römpum upp Ísland var fagnað fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands í dag um leið og efnt var til uppskeruhátíðar í Hátíðasal skólans vegna tímamótanna. Hartnær 1.800 rampar hafa nú verið settir upp víðs vegar um landið en upphaflegt markmið verkefnisins var að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að byggingum vítt og breitt um landið með uppbyggingu 1.000 rampa sem síðan var aukið í 1.500 rampa. Heildarfjöldi rampa fór langt fram úr þeim áætlunum. Verkefnið hefur auk þess unnist á methraða frá því að það hófst haustið 2021 og er því nú lokið, ári á undan áætlun.

Viðburðurinn í dag hófst með vígslu síðasta og jafnframt glæsilegasta rampsins við Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Í kjölfarið tók við dagskrá í Hátíðasal HÍ þar sem stuðningsaðilar verkefnisins og gestir komu saman til að fagna þessum merka áfanga.

Á hátíðinni flutti fjöldi fólks ávörp sem komið hefur að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Til máls tóku Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitastjórnaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, Dagur B. Eggertsson, alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Jón Atli Benediktsson háskólarektor, Bryndís Thors grunnskólanemi og Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi verkefnisins og aðalbakhjarl. Einnig voru í boði tónlistatriði frá KK, krökkum á leikskólanum Bakkaborg og félögum úr Lúðrasveit Reykjavíkur.

„Aðgengismál eru grundvallarmál í háskólastarfinu því jafnt aðgengi að háskólamenntun felur jafnframt í sér jafnt aðgengi að tækifærum samfélags og atvinnulífs. Þannig eru aðgengismál í skólastarfi eitthvert áhrifamesta samfélagslega jöfnunartæki sem völ er á. Mér skilst að á háskólasvæðinu einu hafi verið gerðir heilir 210 rampar í þessu átaki, Römpum upp Ísland. Það munar um minna,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands í dag, þegar hann fagnaði þessum merku tímamótum. 

„Með því að vinna saman með ótal aðilum, alls staðar að úr samfélaginu, byggðum við 1.756 rampa. Það eru 1.756 staðir sem fólk sem notar hjólastól getur núna farið að borða, læra, hlæja, versla, kyssast, lifa. Gleðin var við stýrið alla ferðina og gleðin skilaði okkur miklu lengra en bjartsýnustu spár. Takk fyrir okkur,“ sagði Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi verkefnisins þegar hann rakti sögu þess og áhrif í HÍ í dag.

Úr 100 römpum í 1.756

Þetta mikla átak hófst sem tilraunaverkefni undir yfirskriftinni Römpum upp Reykjavík árið 2021 en í því fólst að byggja upp 100 rampa í miðborginni. Þegar þeir voru fullbúnir á aðeins átta mánuðum varð ljóst að mögulegt væri að útvíkka verkefnið. Árið 2022 var því ákveðið að byggja upp 1.000 rampa um allt land á fjórum árum. Sama ár var þeirri áætlun breytt í 1.500 og svo var haldið áfram vegna brýnnar þarfar og nú eru ramparnir orðnir 1.756, ári á undan áætlun. 

Verkefnið hefur haft jákvæð áhrif á lífsgæði ótal margra en með því hefur markvisst verið unnið að því að gera byggingar um landið allt aðgengilegri fyrir öll. Fram að þessu hafa flestir rampanna verið byggðir við byggingar einkaaðila en síðustu áfangar verkefnisins hafa verið í samstarfi við opinbera aðila.

„Með því að vinna saman með ótal aðilum, alls staðar að úr samfélaginu, byggðum við 1.756 rampa. Það eru 1.756 staðir sem fólk sem notar hjólastól getur núna farið að borða, læra, hlæja, versla, kyssast, lifa. Gleðin var við stýrið alla ferðina og gleðin skilaði okkur miklu lengra en bjartsýnustu spár. Takk fyrir okkur,“ sagði Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi verkefnisins þegar hann rakti sögu þess og áhrif í HÍ í dag. 

Síðasti rampurinn er stærstur

Rampurinn sem var vígður í dag við Aðalbyggingu HÍ er sá stærsti en á vefsíðunni rampur.is er að finna upplýsingar um alla rampa sem hafa verið reistir og annað sem rampagerðinni viðkemur. 

Þrátt fyrir að eiginlegum framkvæmdum sé nú lokið heldur hópurinn, sem stendur að verkefninu, áfram að sinna sérverkefnum sem stuðla að bættu aðgengi, m.a. að innviðum í Lágafellslaug í samvinnu við Mosfellsbæ og að bættu aðgengi að veitingastöðum við Geirsgötu í samvinnu við Reykjavíkurborg.

Þetta brýna verkefni hefði aldrei orðið að veruleika án stuðnings fjölda fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem hafa lagt hönd á plóginn. Meðal þeirra sem hafa stutt verkefnið eru: Jöfnunarsjóður Sveitarfélaga, Haraldur Þorleifsson, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsbjörg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og fjölmagir aðrir eins og sjá má á rampur.is.

Myndir Kristins Ingvarssonar frá hátíðinni má sjá hér að neðan.

Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar, vígði rampinn nýja við Aðalbyggingu en hún vígði einmitt fyrsta rampinn í átakinu á sínum tíma.
+17

Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar, vígði rampinn nýja við Aðalbyggingu en hún vígði einmitt fyrsta rampinn í átakinu á sínum tíma. MYND/Kristinn Ingvarsson