Háskóli Íslands á Hallormsstað - opið hús

Hallormsstaður
Gestir eru hjartanlega velkomnir á opið hús hjá Háskóla Íslands á Hallormsstað. Þar gefst frábært tækifæri til að kynnast náminu í Skapandi sjálfbærni – einstakri námsleið á háskólastigi sem byggir á tengslum við náttúru, samfélag og skapandi lausnir.
Á opna húsinu verður hægt að ræða við kennara og nemendur, skoða aðstöðu og fá innsýn í námið og verkefni sem því tengjast.
Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað er eins árs, 60 ECTS eininga grunndiplóma á Menntavísindasviði HÍ, sem einnig er hægt að taka sem aukagrein meðfram annarri námsleið. Náttúran sjálf gegnir lykilhlutverki í náminu sem sameinar fræðilega þekkingu og verklega færni með áherslu á skapandi nálgun, sjálfbærni og tengingu við samfélag, sögu staðarins og umhverfi. Námið er samsett af sex námskeiðum sem kennd eru í fimm vikna lotum og þróast í takt við árstíðirnar – haustið hefst með söfnun og vinnslu, veturinn dregur fram handverkið og rætur sjálfbærni og vorið leiðir í ljós lausnamiðaða hugsun og skapandi úrvinnslu.
Heitt verður á könnunni og boðið upp á léttar veitingar, söguljóð og tónlist – og að sjálfsögðu einstakt andrúmsloft Hallormsstaðaskógar. Við hvetjum gesti til að njóta umhverfisins og upplifa hvernig náttúran sjálf gegnir lykilhlutverki í náminu.
Umsóknarfrestur er í Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað er til og með 5. júní 2025. Þetta er tilvalið tækifæri fyrir öll þau sem hafa áhuga á skapandi, sjálfbæru námi með verklegri nálgun og tengslum við samfélagið að kynnast einstökum vettvangi náms og nýsköpunar á Austurlandi.
Verið velkomin í hjarta skógarins – þar sem sjálfbær framtíð verður til.
Námið í skapandi sjálfbærni er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Hallormsstaðaskóla og byggir á fyrstu skólanámskrá Hallormsstaðaskóla, sem á sér sterkan grunn og gildi sem eiga vel við í nútímanum.
