Skip to main content
7. nóvember 2024

Hvað er að gerast í menntavísindum? - Nýtt hlaðvarp Menntavísindasviðs

Hvað er að gerast í menntavísindum? - Nýtt hlaðvarp Menntavísindasviðs  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Menntavísindavarpið er nýtt hlaðvarp Menntavísindasviðs HÍ þar sem varpað er ljósi á allar þær fjölbreyttu rannsóknir sem eiga sér stað á sviðinu. Fimm þættir hafa litið dagsins ljós og í þeim nýjasta er fjallað um það hvað menntarannsóknir segja um áhrif styttingar námstíma til stúdentsprófs á undirbúning nemenda fyrir háskólanám og í samhengi við aðrar stefnubreytingar á framhaldsskólastiginu. 

Markmið Menntavísindavarpsins er ekki aðeins fjallað um rannsóknir, auka áhrif menntavísinda og gera þau sýnilegri heldur að varpa ljósi á fjölbreyttar námsleiðir sviðsins. Um leið er veitt innsýn í hvernig er að vera grunn-, meistara- og doktorsnemi á Menntavísindasviði, hvað felur í sér að starfa við rannsóknir í menntavísindum og mannlegu hliðarnar í starfinu. Nýju viðtali er varpað á tveggja vikna fresti, viðtölin eru í kringum 20 mínútur og snerta oftar en ekki samfélags- og menntaumræðuna á hverjum tíma.

Í fimmta og nýjasta þættinum, sem birtur var í vikunni, er rætt við Guðrúnu Ragnarsdóttur prófessor og Maríu Jónasdóttir, aðjunkt og doktorsnema á Menntavísindasviði, sem eru hluti af rannsóknarhópi sem skoðað hefur áhrif styttri námstíma til stúdentsprófs í samhengi við aðrar stefnubreytingar sem gerðar hafa verið á framhaldsskólastiginu. Hvernig eru framhaldsskólanemar undirbúnir fyrir nám á háskólastigi, hvernig tengjast jafnréttissjónarmið styttingu framhaldsskólans og hvernig geta rannsóknarniðurstöðurnar nýst samfélaginu til heilla? Þessum og fleiri spurningum er svarað í viðtalinu. 

Viðfangsefni þáttanna eru afar fjölbreytt eins og sjá má á þeim fjórum þáttum sem áður hafa verið birtir:

Jafnvægi starfs og einkalífs ungra kvenkyns kennara í íslenskum grunnskólum

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor emeritus í kennslufræðum við Menntavísindasvið, mætti í  Menntavísindavarpið og ræddi rannsókn sem hann vann með Maríönnu Jónsdóttur Maríudóttur grunnskólakennara og Valgerði S. Bjarnadóttur, lektor við Menntavísindasvið, og þau kynntu á Menntakviku, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs. Rannsóknin ber heitið „Jafnvægi starfs og einkalífs ungra kvenkyns kennara í íslenskum grunnskólum“. Ingólfur ræddi rannsóknina, stöðu barna í íslensku skólakerfi, feminískar rannsóknir og hvað sé á döfinni í rannsóknum.  

Upplifun ungra kvenna af krabbameini og vettvangsstarf sem lífsnauðsynlegur hlekkur í stuðningskerfi varðandi börn – splunkuný meistaraverkefni krufin  

Í þessum þætti Menntavísindavarpsins mæta meistaranemarnir Andrea Marel úr tómstunda- og félagsmálafræði og Ebba Áslaug Kristjánsdóttir úr uppeldis- og menntunarfræði og ræða meistaraverkefni sín sem þær kynntu á málþingi meistaranema á Menntavísindasviði. Verkefni Andreu ber heitið „Vettvangsstarf er lífsnauðsynlegur hlekkur í stuðningskerfi varðandi börn“ Sýn fagfólks á vettvangsstarf félagsmiðstöðva í Reykjavík og lokaverkefni Ebbu heitir „Þakklát fyrir reynsluna en ekki fyrir krabbameinið“ Upplifun ungra kvenna af krabbameini og lærdómur þeirrar reynslu.  

Læsi, félagakennsla og lestrarfærni barna

Lesfimipróf hafa verið gagnrýnd og áhyggjur eru uppi um að læsi og lestrarkunnátta barna og ungmenna sé að dala. Greint var frá því nýverið að 40 prósent nemenda í 6. bekk næðu ekki grunnviðmiði í lesfimi.  Auður Soffíu- og Björgvinsdóttir, aðjunkt og doktorsnemi á Menntavísindasviði og fyrrverandi grunnskólakennari, mætti í Menntavísindavarpið og sagði frá niðurstöðum rannsóknar sinnar um læsi sem hún kynnti á Menntakviku. Hvar við stöndum á Íslandi hvað varðar læsi og lestrarkunnáttu og hvernig má bæta læsisfærni íslenskra barna?

Hnífaburður grunnskólabarna, algengi og ástæður

Síðastliðið vor var í fyrsta sinn spurt um hnífaburð í Íslensku æskulýðsrannsókninni sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands stýrir. Rannsóknin er gerð á hverju ári í grunnskólum en annað hvert ár í framhaldsskólum. Þær Ragný Þóra Guðjohnsen, dósent við Menntavísindasvið og er faglegur stjórnandi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, kynntu niðurstöður rannsóknarinnar á Menntakviku í lok september og segja hér nánar frá henni.

Umsjón Menntavísindavarpsins er í höndum Mörtu Goðadóttur, samskiptastjóra Menntavísindasviðs, Áslaugar Bjarka Eggertsdóttur, verkefnisstjóra á Menntavísindasviði, og Írisar Sigurðardóttur, verkefnisstjóra hjá Menntavísindastofnun MVS.

Upphafsstef: Adam Switala, aðjunkt við Menntavísindasvið.

Menntavísindavarpið á Spotify

Einkennismynd Menntavísindavarpsins