Fékk vinnu beint eftir útskrift í kjölfar starfsþjálfunar
Ég heiti Viktor Ágústsson og ég brautskráðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands núna í júní 2024. Ég vinn í fjármáladeild Vegagerðarinnar. Ég fékk vinnuna í framhaldi af starfsþjálfun sem ég fékk að taka þátt í í gegnum námið. Ég kláraði starfsþjálfunina og hóf störf í apríl með skóla og hef svo skrifað undir samning út árið. Þetta starf var ekki auglýst að mér vitandi heldur var mér boðið á fund þar sem mér var boðið að halda áfram eftir þjálfunina.
Hvernig finnst þér námið hafa hjálpað þér í starfi?
Námið hefur hjálpað mér á ótal vegu eins og að læra alla þá hluti sem koma starfinu beint við eins og áætlanagerðir, ýmis útreikninga og hugtök sem notuð eru við þessa vinnu. En það sem mér finnst námið ekki síður hafa kennt mér er rökhugsun og hversu mikilvægt tengslanet getur verið.
Hvað var skemmtilegast í náminu?
Það sem mér fannst skemmtilegast við námið var hversu fjölbreytt það er. Ég fann mig oft sokkinn í námsefni sem ég hafði ekki hugmynd um að mér þætti áhugavert og breytti meira að segja um áherslu innan námsins vegna þess. Fyrsta árið í viðskiptafræðinni er eins hjá öllum nemendum enn ég byrjaði námsferilinn á markaðsfræðilínu, sem innihélt ótrúlega skemmtilega áfanga en ég ákvað samt að áhugi minn lægi annarsstaðar. Þannig á þriðja árinu skipti ég yfir á almenna braut sem veitti mikið frelsi til að sníða námið að eigin óskum. Ég skráði mig því í eins marga bókhaldsáfanga og ég gat með minn grunn og sótti um starfsnám á því sviði. Það eru kannski ekki margir sem lesa þetta og ærast úr spenning yfir bókhaldi. Ég hefði ekki gert það sjálfur á fyrsta ári. En námið opnar augun fyrir nýjum áhugasviðum og það er frábært að það sé sveigjanleiki til þess að breyta um stefnu.
Tókstu virkan þátt í félagslífinu?
Ég tók mjög virkan þátt í félagslífinu. Ég kom inn á fyrsta ári ættaður frá Egilsstöðum og þekkti ekki sálu á nýnemadaginn. Strax í óvissuferð Mágusar sem er nemendafélag viðskiptafræðinema við HÍ kynntist ég góðu fólki sem átti eftir að fylgja mér úr námsferilinn. Ég sótti um í markaðsnefnd Mágusar og fékk inn á fyrsta ári og svo var ég í íþróttanefnd á öðru ári. Ég bauð mig svo fram sem íþróttastjóri innan Mágusar og gegndi því starfi á þriðja ári. Félagslífið er að mínu mati einn mikilvægasti hluti námsins. Í gegnum það kynntist ég einhverjum bestu vinum mínum núna í dag. Ég sat einnig í Stúdentaráði SHÍ og sviðsráði félagsvísindasviðs á mínu öðru ári sem var mjög gefandi og í gegnum það kynntist ég mikið af góðu fólki úr öllum greinum Háskólans.
Fórstu í námið beint eftir menntaskóla?
Ég fór ekki beint í námið eftir menntaskóla. Eftir útskrift úr menntaskólanum á Egilsstöðum var ferðinni heitið til suðaustur Asíu. Ég fór í lok ágúst eins míns liðs til Tælands og ferðaðist um Tæland, Kambódíu, Víetnam og Laos í skipulagðri hópferð með mjög skemmtilegu fólki. Í hópnum var fólk á öllum aldri og hvaðanæva úr heiminum og vinir sem ég eignaðist og held enn sambandi við. Það var ótrúlega gaman að skoða ný lönd, ótrúlega fallega náttúru og kynnast menningu sem er allt öðruvísi en á Íslandi. Hver dagur var sneisafullur með nóg af hlutum til að gera. Það var aldrei dauð stund. Við fórum í bátaferðir og fullt af skoðunarferðum um bæi og borgir. Eftir þennan hluta ferðarinnar skyldi ég við hópinn og förinni var aftur heitið til Tælands til að skoða eyjurnar. Svo hélt ég til Malasíu, Singapore, Indónesíu og Balí. Þar kynntist ég enn fleira fólki, upplifði ótrúlega menningu, öðlaðist kafararéttindi og lærði að surfa. Eftir Asíu reisuna var haldið til Evrópu. Þar ferðaðist ég um og skoðaði helstu borgirnar að vetrarlagi og fór á jólamarkaði. Ég endaði svo ferðina á því að hitta stórfjölskylduna á helsta ferðaáfangastað íslendinga Kanarí og varði þar yndislegum jólum með þeim. Það var ótrúlegt stökk fyrir mig sem ekki úthverfari manneskju en ég er að halda í svona ferð eins míns liðs en ég lærði ótrúlega mikið á því og mæla heilshugar með því við alla að drífa sig. Það er um að gera að drífa sig eins síns liðs eða með vinum og vandamönnum og upplifa ólíkar menningar sem opna augun fyrir fjölbreytileika heimsins. Eftir heimsreisuna flutti ég svo í Kópavoginn. Þar vann ég í 2 ár en það var alltaf stefnan að fara í nám. Ég sótti svo um í viðskiptafræði eftir miklar vangaveltur um hvað ég ætti nú læra og hef ekki séð eftir degi síðan.
Fórstu í skiptinám?
Ég fór ekki í skiptinám en margir vinir mínir riðu á vaðið og tala vel um það. Þau tala um að þetta sé eitthvað það skemmtilegasta sem þau hafa upplifað og ég tel að þau myndu mæla með því við alla.
Hyggur þú á framhaldsnám í framtíðinni?
Stefnan er tekin á framhaldsnám en hvenær það verður er ekki ákveðið. Ég hef ákveðið að taka að minnsta kosti 1-2 ár á vinnumarkaði og svo stefni ég á áframhaldandi nám hvort sem það verður viðskiptafræðitengt eða eitthvað annað, tíminn verður að segja fyrir um það.