Rúmlega 20 styrkir til doktorsnema við HÍ
Doktorsverkefni sem snerta sambýli manna og örvera, bragðlaukaþjálfun, fegrunaraðgerðir meðal íslenskra kvenna, mansöngva í rímum og aðlögun og atferli íslenska heimskautarefsins er meðal þeirra verkefna sem hljóta styrk í ár úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands.
Doktorsstyrkjasjóður er yfirheiti yfir Rannsóknasjóð HÍ, Háskólasjóð Eimskipafélags Íslands og aðra sjóði sem koma að veitingu doktorsstyrkja innan skólans á hverjum tíma. Samanlagt bárust 162 umsóknir um doktorsstyrki að þessu sinni og reyndist samkeppni um styrki því afar hörð. Alls var unnt að styrkja 21 doktorsverkefni að þessu sinni en þau eru á öllum fimm fræðasviðum HÍ.
Tíu styrkjanna koma úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins, 9 fá styrk úr Rannsóknasjóði HÍ og tveir styrkir koma frá Vísindagörðum Háskóla Íslands, sem styrkir árlega rannsóknir á sviðum heilbrigðis- og líftækni, upplýsingatækni og endurnýjanlegrar orku.
Verkefnin sem fá styrk að þessu sinni eru afar fjölbreytt og snerta m.a. jafnólíkar greinar og mannfræði, þjóðfræði, lyfjafræði, lífvísindi, lýðheilsuvísindi, íslenskar fornbókmenntir, stafræn hugvísindi, fornleifafræði, næringarfræði, menntavísindi, stærðfræði, umhverfis- og byggingarverkfræði, líffræði, eðlisfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, tölvunarfræði og jarðvísindi.
Yfirlit yfir styrkt verkefni má finna á vef HÍ