Styttist í flutning Menntavísindasviðs í Sögu
Nú styttist óðum í flutning Menntavísindasviðs í Sögu við Hagatorg. Að ýmsu er að hyggja fyrir þetta risastóra verkefni sem snýst ekki eingöngu um að flytja eitt fræðasvið á milli bygginga. Flutningurinn snýst ekki síst um þróun framtíðar náms, kennslu, rannsókna og starfa í háskólaumhverfi á aðalsvæði Háskóla Íslands. Á dögunum var haldinn upplýsingafundur starfsfólks Menntavísindasviðs þar sem m.a. var rætt um stöðu framkvæmda og undirbúning flutnings, skipulag náms og kennslu í Sögu, húsnæðisaðstöðu sviðsins næstu mánuði og mikilvægi algildrar hönnunar í Sögu. Á dögunum var einnig Hylurinn tæmdur, þegar sögu bókasafns Menntavísindasviðs lauk en senn verður safnið sameinað Landsbókasafni Íslands.
Upplýsingafundur starfsfólks Menntavísindasviðs
Upplýsingafundur fyrir starfsfólk um húsnæðisaðstöðu Menntavísindasviðs og flutning sviðsins í Sögu haustið 2024 fór fram í Bratta, Stakkahlíð þriðjudaginn 28. maí. Um 120 manns mættu á fundinn, 76 manns tóku þátt á Zoom og 45 manns mættu á staðinn. Á fundinum var farið yfir fyrirkomulag og aðstöðu kennslu haustmisserið 2024 sem mun einkennast af svokölluðu millibilsástandi fram að flutningi sviðsins í Sögu sem stefnt er að fari fram að mestum hluta í nóvember og desember 2024. Tímalínur skarast og flytur Listaháskóli Íslands inn í Stakkahlíð seinni hluta júní 2024 í Hamar, nýjasta hluta byggingarinnar. Því munu LHÍ og Menntavísindasviðs HÍ vera undir sama þaki í nokkra mánuði, Háma verður áfram í Stakkahlíð og mun því þjóna starfsfólki og nemendum beggja háskóla. Þar sem kennslustofur í Hamri fara undir kennslu LHÍ verður kennsla MVS haustið 2024 ögn dreifðari en áður, tímabundið, og mun því fara fram í Kletti og Enni í Stakkahlíð, Skipholti, 2. hæð í norðurálmu Sögu, Laugardal og að síðustu í Árnagarði ef þörf krefur. Kennarar voru hvattir til að skoða vel stundatöflur haustmisseris sem eru komnar á vef skólans. Allt kapp verður lagt á að kennsla og starfsemi sviðsins gangi sem best og leitað lausna eftir þörfum í samstarfi við kennara og nemendur.
Algild hönnun í Sögu
Á upplýsingafundinum komu upp spurningar um aðgengismál í Sögu; lyftur og stýringu þeirra (t.d. raddstýringu), punktamynstur í gólfi fyrir gönguleiðir, hvort næðisrými rúmi hjólastóla, fjölda aðgengilegra salerna á hverri hæð. Einnig var spurt um leiðarlýsingar í gólfum fyrir sjónskerta, hvort tónmöskvar séu til staðar í öllum stofum fyrir heyrnarskerta nemendur og hvort lyftur tali eða hafi snertiskjái. Óskað var jafnframt eftir samantekt um aðgengismál áður en sviðið flytji inn í Sögu. Því var svarað af stjórnendum sviðsins að algild hönnun væri eitt af leiðarljósum hönnunar í Sögu. Leitað var svara hjá framkvæmda- og tæknisviði HÍ um algilda hönnun í Sögu líkt og áður hefur verið gert. Svörin voru þau að unnið væri út frá leiðbeiningum um algilda hönnun í gegnum allt hönnunar- og framkvæmdaferlið sem enn er yfirstandandi. Unnið væri að því að; stækka lyftur svo þær rúmi hjólastóla og skipta út eldri hurðum fyrir nýjar með rafstýrðri opnun t.d. inn á hæðir, salerni og kennslustofur. Að sama skapi verða leiðarlínur og merkingar settar þar sem þörf sé á og að Ráð um málefni fatlaðs fólks hefði fundað með hönnuði og komið á framfæri við hann þau atriði sem mikilvæg eru svo byggingin sé aðgengileg öllum. Áfram verði unnið að því að tryggja aðgengi að byggingunni og vinnuaðstöðu nemenda og starfsfólks verði með sem bestu móti.
Staða framkvæmda í Sögu
Framkvæmdum og uppbyggingu innan byggingar Sögu, vindur vel fram. Á fimmtu og sjöttu hæð eru framkvæmdir komnar lengst. Búið er setja upp milliveggi, koma upp næðisrýmum og fundarherbergjum, veggir málaðir og gólfefni hafa verið lögð. Á sjöttu hæð suðurálmu mun stjórnsýsla Menntavísindasviðs hafa vinnurými ásamt því sem þar verða fundarrými og önnur vinnurými. Á fimmtu hæð verður rúmgóð kaffistofa fyrir starfsfólk og þar mun jafnframt Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda hafa vinnuaðstöðu ásamt fleirum úr akademíu Menntavísindasviðs. Á þriðju og fjórðu hæð er niðurrifi að mestu lokið og uppbygging hafin á 2-4ra manna vinnurýmum fyrir starfsfólk deilda sviðsins. Þriðja hæð er nær fullhönnuð og unnið er að því að teikna aðra hæð. Þegar teikningar og fullunnin hönnunargögn liggja fyrir þá ganga framkvæmdir hratt fyrir sig. Á annarri hæð er búið að hreinsa allt út úr Súlnasal og hringlaga gólf hefur verið fjarlægt líkt og fram hefur komið. Í suðurálmu sömu hæðar verður Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs, aðstaða fyrir nemendur og Sviðsráð MVS auk þess sem unnið er að því að fullhanna stofur list- og verkgreina á hæðinni sem og annarra sérhæfðra stofa til kennslu í byggingunni. Á núlltu hæð er búið að grafa út ljósgarða á tveimur stöðum, útisvæði þar fyrir utan og aðrar sérhæfðar stofur til kennslu. Grillið á áttundu hæð er í endurbyggingu og verður tilbúið síðar á árinu 2025.
Skipulagning flutninga
Á fundinum var einnig fjallað um skipulagningu flutninga sem verður nánar útfærð og leiðbeiningar gefnar út til starfsfólks sviðsins þegar nær dregur flutningum. Stefnt er að öðrum tiltektardegi í Stakkahlíð og Skipholti í haust. Úthlutun vinnurýma er enn yfirstandandi en stefnt að því að fólki gefist kostur á heimsóknum í Sögu til að skoða ný heimkynni þegar úthlutun liggur fyrir. Fengin verður aðstoð við flutninga og húsgögn þrifin. Þá er yfirstandandi vinna við að skoða hvað verður flutt af húsgögnum og tæknibúnaði yfir í Sögu og hvað þarf að kaupa inn nýtt auk þess sem innkaup vegna vinnurýma og sérstofa eru í ferli.
Hylurinn tæmdur - sögu bókasafns Menntavísindsviðs lýkur
Kveðjuhóf bókasafnsins í Stakkahlíð fór fram 8. maí síðastliðinn en nú í sumar lýkur sögu þess sem sjálfstæðs bókasafns því safnið verður þá sameinað Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Bókasafn Menntavísindasviðs á sér langa og merkilega sögu. Safnið var hluti af Kennaraskólanum allt frá stofnun hans árið 1908 og varð síðan mikilvægur þáttur í starfsemi Kennaraháskóla Íslands og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Bókasöfn Fóstruskólans, Íþróttakennaraskólans og Þroskaþjálfaskóla Íslands höfðu einnig sameinast bókasafni MVS og taldi safnkosturinn um 80.000 eintök. Í tilefni af þessum tímamótum var haldið kveðjuhóf á bókasafninu, velunnarar safnsins mættu og áttu ljúfa stund á þessum tímamótum. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands hélt stutta tölu, auk Kolbrúnar Þ. Pálsdóttur, forseta Menntavísindasviðs. Gunnhildur K. Björnsdóttir, forstöðumaður bókasafns Menntavísindasviðs, ræddi sögu safnsins og þakkaði starfsfólki safnsins fyrir gott samstarf en hún hefur starfað á bókasafninu frá árinu 2006. Starfsfólk bókasafnsins hafði tekið afleggjara af þeim plöntum sem hafa prýtt bókasafnið til margra ára og gafst gestum tækifæri á að grípa með sér afleggjara til minningar um hið góða starf bókasafnsins í Stakkahlíð. Þess má geta að tæplega 90 manns mættu á viðburðinn.