Nálægð við náttúru mikilvæg fyrir Vestfirðinga í COVID-faraldri
Liðin eru rétt um fjögur ár síðan kórónuveiran skall á íslensku samfélagi af fullum þunga. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og fjölmargir kimar þessarar óværu verið rannsakaðir. Ein þeirra sem lagt hefur lóð á vogarskálarnar í þeim efnum er Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, sem fór fyrir rannsókn á samfélagslegum áhrifum og lýðheilsuaðgerðum vegna COVID-19 á Vestfjörðum.
Rannsókninni er í þann mund að ljúka en hún hófst árið 2021 og er hluti af stærri rannsókn sem styrkt var af stjórnvöldum í Kanada. Í rannsókninni er sjónum sérstaklega beint að fámennari samfélögum á norðurslóðum, t.a.m. samfélögum frumbyggja, en rannsóknin tók til norðurskautsríkjanna annarra en Rússlands. Á Íslandi voru áhrif heimsfaraldursins á íbúa og aðra hagaðila á Vestfjörðum rannsökuð.
Ástæðan fyrir því að þetta landsvæði varð fyrir valinu var m.a. fjarlægð frá miðlægri stjórnsýslu og þjónustu sem veitt var á höfuðborgarsvæðinu, t.d. sóttvarnarhótelum og þjónustu við COVID-smitaða einstaklinga, og þau samfélagslegu smit á Vestfjörðum sem urðu snemma í faraldrinum, sem þýddi að ýmsan lærdóm mátti draga af því hvernig einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki tókust á við faraldurinn.
Viðtöl tekin við stóran hóp fólks
Tekin voru 42 viðtöl við aðila víðsvegar úr samfélaginu, t.d. innan stjórnsýslu, heilbrigðis- og menntageirans, löggæslu, meðal hafnaryfirvalda, fyrirtækjaeigenda og einyrkja, starfsfólks í fiskvinnslu og á leikskólum á Ísafirði, í Bolungarvík, á Hnífsdal og Flateyri. Viðmælendur voru bæði íslenskir og af erlendum uppruna.
Gagnanna var aflað í október 2021, u.þ.b. einu og hálfu ári eftir að faraldurinn barst til landsins og til Vestfjarða. Því var komin ákveðin þekking og reynsla af því að takast á við viðfangsefnið hjá fólki og af hálfu fyrirtækja og stofnana. Þá var einnig komin ákveðin fjarlægð frá því að Vestfirðir voru í auga stormsins með smitáhrif innan samfélagsins, t.d. smit sem bárust inn á hjúkrunarheimili og fiskiskip, án þess þó að fólk væri farið að gleyma áhrifunum og hvernig tekist var á við faraldurinn.
„Þessi rannsókn hefur gríðarlegt gildi bæði fyrir vísindin og fyrir samfélagið hérlendis og erlendis með þeirri þekkingu sem aflað var og niðurstöðum sem birtar hafa verið,” segir Lára.
Strangari samkomutakmarkanir var meðal þeirra þátta sem fólk upplifði neikvætt, til að mynda nefndu viðmælendur dæmi um takmarkanir á samkomum á norðanverðum Vestfjörðum sem miðuðust við fimm manns í apríl 2020 þegar rýmri takmarkanir giltu annars staðar á landinu. Takmarkanir á svæðinu voru hins vegar ekki rýmri á svæðinu þegar engin samfélagssmit voru til staðar. ,,Mögulega þarf því að taka mið af staðháttum þegar slík tilmæli eru sett,” segir Lára. MYND/Þorkell Þorkelsson
Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í senn í ljós bæði jákvæða og neikvæða þætti sem draga má lærdóm af. Það sem kom Láru einna helst á óvart voru margir þeir jákvæðu þættir sem fram komu í viðtölunum, eins og verndandi þættir náttúrunnar í að byggja upp seiglu og mikilvægi hennar fyrir bæði andlega og líkamlega líðan fólks. Aukinn tími með fjölskyldunni, möguleikinn til fjarvinnu, færri tímafrek ferðalög til Reykjavíkur vegna fundarsetu voru meðal jákvæðra þátta sem viðmælendur nefndu.
Einn af þeim þáttum sem fram kom í heildarrannsókninni er mikilvægi nálægðar við náttúru fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks. „Þetta er eitthvað sem heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld ættu að taka mið af, ekki bara við svona aðstæður heldur í tengslum við heilsutengda stefnumótun almennt. Viðmælendur nefndu í þessu samhengi mikilvægi þess að komast út að hreyfa sig, hvort heldur var að ganga, hlaupa, skíða, fara í fjöruferðir eða stunda annars konar útivist og hreyfingu,“ segir Lára.
Annað sem hún segir hafa einkennt þessa rannsókn var að almennt ríkti víðtækt traust á stjórnvöldum og stjórnvaldsaðgerðum hér á landi, sem var alls ekki raunin annars staðar. Strangari samkomutakmarkanir var meðal þeirra þátta sem fólk upplifði neikvætt og nefndu viðmælendur dæmi um takmarkanir á samkomum á norðanverðum Vestfjörðum sem miðuðust við fimm manns í apríl 2020 þegar rýmri takmarkanir giltu annars staðar á landinu. Takmarkanir á svæðinu voru hins vegar ekki rýmri á svæðinu þegar engin samfélagssmit voru til staðar. ,,Mögulega þarf því að taka mið af staðháttum þegar slík tilmæli eru sett,” segir Lára.
Samlegð í niðurstöðum rannsóknar og þáttanna Storms
Það er ljóst á samtali við Láru að rannsóknin hefur verið ansi umfangsmikil. Helsti samstarfsmaður hennar í rannsókninni var David Cook, aðjunkt við umhverfis- og auðlindafræði og rannsóknarsérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Saman skilgreindu þau umfang og áherslur íslensku rannsóknarinnar, tóku viðtöl, greindu inntak þeirra og birtu niðurstöður. Þau nutu einnig mikils velvilja og stuðnings frá Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði, þar sem þeirra helsti samstarfsaðili var Catherine Chambers rannsóknarstjóri. Þess utan voru nýdoktor, meistara- og doktorsnemar ráðnir tímabundið til verkefnisins. Þennan hóp skipuðu Jóhanna Gísladóttir, Mauricio Latapí, Curt Steele og Sarah Seabrook Kendal.
Lára nefnir það að lokum að á meðan gagnaöflun rannsóknarteymisins stóð var unnið að gerð heimildaþáttaraðarinnar Stormur, sem fjallaði um áhrif faraldursins, þar með talið á Vestfjörðum . „Okkur var ekki kunnugt um það á þessum tíma. Þess vegna var það afar ánægjulegt að sjá samlegð í niðurstöðum heimildaþáttanna og niðurstaðna okkar rannsóknar,“ segir Lára.