Skip to main content
3. janúar 2024

Veglegir styrkir veittir fræðikonum á Menntavísindasviði

Veglegir styrkir veittir fræðikonum á Menntavísindasviði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fimm fræðikonur við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hlutu veglega styrki úr Menntarannsóknasjóði stjórnvalda skömmu fyrir jól. Styrkirnir nýtast til rannsókna tengdum kennsluefni í stærðfræði, innleiðingu farsældarlaga, skimunartæki um málfærni barna, starfsþróun kennara í íslensku og raungreinum og innleiðingu lista yfir íslenskan námsorðaforða og gæðatexta með námsorðaforða í læsismenntun grunnskólanema.
Mennta- og barnamálaráðherra úthlutaði styrkjunum úr Menntarannsóknarsjóði, sótt var um tæpar 342 m.kr. og hlutu sex rannsóknarverkefni styrk að heildarupphæð 157,7 m.kr. Þar af fimm til rannsakenda á Menntavísindasviði HÍ.

  • Freyja Hreinsdóttir fyrir verkefnið Kennsluefni í stærðfræði: framboð á Norðurlöndum og þarfir framhaldsskóla.
  • Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir fyrir verkefnið Farsældarlögin í þremur sveitarfélögum: Innleiðing, framkvæmd og samsköpun þekkingar þvert á landamæri fagstétta, skólastiga og frístundastarfs.
  • Jóhanna Thelma Einarsdóttir fyrir verkefnið LANIS Skimunarlisti. Verkefnið snýr að þróun skimunartækis sem foreldrar eða leikskólakennarar geta nýtt til kanna málfærni barna á aldrinum þriggja ára.
  • Anna Kristín Sigurðardóttir fyrir verkefnið Sjálfbær starfsþróun kennara til að auka gæði náms og kennslu í íslensku og raungreinum með aðstoð myndbandsupptöku í kennslustundum.
  • Sigríður Ólafsdóttir fyrir verkefnið Kennsluleiðbeiningar með námsorðaforða: Innleiðing lista yfir íslenskan námsorðaforða og gæðatexta með námsorðaforða í læsismenntun grunnskólanema.

Líkt og segir frétt á vef ráðuneytisins: „Markmið Menntarannsóknasjóðs er að styrkja stoðir hagnýtra menntarannsókna sem skapa og miðla þekkingu á viðfangsefnum skóla- og frístundastarfs sem leiða til umbóta í námi og kennslu og stuðla að farsæld barna og ungmenna. Lögð er sérstök áhersla á að efla samstarf rannsakenda við fagfólk í skóla- og frístundastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu 2030.“
Styrkirnir voru veittir við hátíðlega athöfn í Hinu húsinu þann 21. desember 2023.

Styrkþegum eru færðar innilegar hamingjuóskir.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra ásamt styrkþegum: Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Hreinsdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir (f.h. Hermínu Gunnþórsdóttur) og Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir.