Rýnt dýpra í sláandi niðurstöður PISA 2022
Fjölmenni sótti kynningarfund sem Menntvísindasvið HÍ stóð að í samstarfi við Menntamálastofnun, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitafélaga og Heimili og skóla á Háskólatorgi þriðjudaginn 5. desember en þar var rýnt í niðurstöður PISA-könnunarinnar 2022 með sérfræðingum Menntavísindasviðs og Menntamálastofnunar.
Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar fyrr þann dag á blaðamannafundi sem Mennta- og barnamálaráðuneytið og Menntamálastofnun efndu til í Eddu. Könnunin mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi og læsi á náttúruvísindi og stærðfræði. Eins og ítarlega hefur verið fjallað um í fjölmiðlum hefur árangur íslenskra nemenda í versnað milli kannana og er undir meðaltali OECD og norrænna ríkja í öllum þáttum. Nemendum á Íslandi líður hins vegar almennt vel í skólanum og upplifa að þeir tilheyri þar. Ólíkt nemendum flestra landa koma þeir betur út úr þessari mælingu 2022 en 2018. Þeir hafa jafnframt jákvæða upplifun af kennurum sínum og upplifa sjaldan einelti.
Á fundinum á Háskólatorgi var kafað var dýpra í niðurstöður PISA 2022 og sérfræðingar á Menntavísindasviði greindu niðurstöðurnar og kynntu tillögur að mögulegum framfararskrefum.
Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, setti fundinn og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar, ávarpaði fundargesti.
Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur alþjóðlegra rannsókna hjá Menntamálastofnun, fór fyrst ítarlega yfir niðurstöður PISA 2022 og í framhaldinu rýndi Freyja Hreinsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, í niðurstöður um stærðfræðilæsi íslenskra ungmenna. Sigríður Ólafsdóttir, dósent á Menntavísindasviði, tók við af henni og rýndi í niðurstöður um lesskilning og Haukur Arason dósent og Edda Elísabet Magnúsdóttir lektor, bæði við Menntavísindasvið, fjölluðu nánar um niðurstöður um náttúruvísindalæsi. Þá kynnti Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við Menntavísindasvið, næstu skref sem hópur fræðafólksins tók saman í aðgerðalista.
Að rýningu lokinni hófust pallborðsumræður með þátttöku fræðafólksins, Magnúsar Þórs Jónssonar, formanns Kennarasambands Íslands, og Þorvarðar Hafsteinssonar, formanns Heimilis og skóla. Að lokum tók Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra til máls og lokaði viðburðinum. Berglind Gísladóttir, lektor á Menntavísindasviði HÍ stýrði fundinum.
Fundinum var streymt og er upptaka aðgengileg hér
Einnig er vakin athygli á að því á vorönn 2024 munu Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Menntamálastofnun í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands og Heimili og skóla standa fyrir röð málstofa þar sem fjallað verður nánar um niðurstöður PISA-könnunarinnar á einstökum sviðum.
Neðangreindar myndir á fundinum tók Kristinn Ingvarsson.