Tengsl næringar ungbarna við astma
Inga Þórsdóttir er prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands. Hún er frumkvöðull í rannsóknum á næringu einstaklinga snemma á lífsleiðinni, allt frá fóstur- og ungbarnaskeiði fram á unglingsár og reyndar í sumum tilvikum fram á efri ár. Þessa dagana vinnur Inga að nýrri rannsókn með teymi vísindafólks sem kemur víða að úr samfélaginu sem gæti mögulega haft mikil áhrif á ráðleggingar um næringu ungbarna til að ráða bót á astma. Astmi er vaxandi vandamál, ekki aðeins hérlendis heldur einnig á heimsvísu þar sem loftmengun fer vaxandi en hún er talin hafa neikvæð áhrif á þróun sjúkdómsins.
„Ef einhver tengsl finnast á milli næringar lítilla barna og astma er hugsanlega hægt að vernda gegn þessum sjúkdómi. Áherslan er á að rannsaka einnig tengsl við líkamsþyngd og loftgæði auk bakgrunnsþátta. Hvað varðar tímann fyrir áhrifaþættina, næringu ungbarns og loftgæði, er fyrst og fremst horft til þess tíma sem barnið er á fyrsta ári til eins og hálfs árs, en þessu getum við þó breytt þar sem aðgengi er að loftgæðagögnum yfir lengri tíma. Útkomubreyturnar, astmi og vöxtur, skoðum við yfir lengra tímabil eða frá ungbarnaskeiði og yfir grunnskólaaldurinn,“ segir vísindakonan þegar spurt er út í verkefnið.
Rannsóknir Ingu Þórsdóttur hafa skipt heilsu fólks miklu máli því vegna þeirra hefur verið unnt að breyta opinberum ráðleggingum til foreldra um næringu barna til að bæta heilsu þeirra. Ekki bara hér og nú heldur hafa nýjar ráðleggingar og breytt næring líklega jákvæð áhrif á heilsu fólks út ævina. Þannig sáust t.d. tengsl í rannsókn Ingu og samstarfsfólks hennar milli fæðingarþyngdar og hjarta- og æðasjúkdóma og áhættuþátta sömu einstaklinga síðar á ævinni. Sú rannsókn var unnin í samstarfi við Hjartavernd.
Jafnframt hafa rannsóknir Ingu og samstarfsteyma sýnt tengsl milli mikillar neyslu venjulegrar kúamjólkur á fyrsta aldursári og lélegs járnbúskapar annars vegar og ofþyngdar við sex ára aldur hins vegar. Rannsóknirnar stuðluðu að breyttum ráðleggingum til foreldra um næringu ungbarna.
Eykur skilning á tengslum næringar og sjúkdóma
„Vísindaverkefnið er byggt upp með þremur vinnupökkum, sem hver um sig mætir einu af þremur sértækum undirmarkmiðum þess. Fyrsta undirmarkmið fjallar um næringu ungbarna og astma, annað um samspilið við líkamsþyngd og hið þriðja tengsl við loftgæði, þ.e. með mælingum á svifryki, köfnunarefnistvíoxíði og brennisteinstvíoxíði.“
Inga segir að næring ungbarna geti mögulega haft margs konar áhrif á þróun astma, sérstaklega þegar skoðuð eru áhrif loftmengunar. „Niðurstöður þessarar rannsóknar munu auka skilning okkar á því hvernig næring ungbarna, vöxtur og líkamsþyngd hafa áhrif á áhættu fyrir astma og þá mögulega sem hluti forvarna gegn þeim erfiða sjúkdómi. Rannsóknin gæti haft mikil áhrif á ráðleggingar um næringu ungbarna, ekki aðeins hérlendis heldur einnig á heimsvísu þar sem loftmengun er síaukið vandamál.“
Dýrmæt gögn notuð í rannsókninni
Þegar vikið er að kveikjunni að þessari rannsókn segir Inga hana gamla. Hún hefur nefnilega fengist við að rannsaka næringu barna eftir því sem henni hefur verið unnt allt frá 1995. Inga var um langt skeið forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ en nú er hún komin á fullt í rannsóknir að nýju.
Íslendingar búa við það lán að eiga mikið af gögnum sem hægt er að leita í varðandi heilsufar og ýmsa þætti sem snúa að lífsstíl og næringu. Þetta verkefni Ingu og teymis hennar er hluti af rannsókn á heilsu mæðra og barna, sem veitir tækifæri til að nota einmitt slík gögn úr heilsufarsskrám til að auka þekkingu á heilsufari móður og barns.
„Nýsköpun í næringarfræði getur verið gegnum það að hjálpa fólki til heilsulæsis, að meta og bæta eigið mataræði og barna sinna. Þá er nýjung í breyttum ráðleggingum sem miða að heilsusamlegra mataræði sem um leið minnkar kolefnisfótspor fæðukerfanna. Þetta er mjög brýnt,“ segir Inga
Inga segir að markmið teymisins nú sé að rannsaka mögulegt hlutverk næringar á ungbarnaskeiði sem forvörn gegn astma á barnsaldri. „Við notum gögn úr heilsufarsskrám um tæplega 23 þúsund börn frá fæðingu og á fyrsta eina og hálfa aldursárinu og þar til þau verða sjö til tólf ára gömul. Gögn um næringu barna frá fæðingu til 18 mánaða munu verða notuð með upplýsingum um næringu en vöxtur þeirra og greining á astma og lyfjanotkun þar til börnin eru sjö til tólf ára gömul,“ segir Inga þegar hún útlistar rannsóknina nánar.
„Fyrir alllöngu söfnuðum við gögnum í tveimur ferilrannsóknum sem gerðar voru með tíu ára millibili á núll til sex ára börnum, auk þess höfum við verið þátttakendur í alþjóðarannsóknum á næringu barna. Við höfum greint mataræði, tíðni og ástæður járnskorts, skoðað D-vítamínbúskap og joðbúskap, rannsakað vöxt og metið tengsl við þroska og margt fleira. Kveikjan að þessu verkefni sérstaklega liggur í því að barnaastmi virðist algengari hérlendis en meðal nágrannaþjóðanna og loftgæði eru sérlega áhugaverð í samhenginu, ekki síst vegna eldgosa.“
Breyttur lífsstíll er besta forvörnin
Inga segir brýnt að gera fólki kleift að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl með hliðsjón af næringu og öðrum þáttum og fá um það ráðgjöf sem byggir á gagnreyndum rannsóknum. „Nýsköpun í næringarfræði getur verið gegnum það að hjálpa fólki til heilsulæsis, að meta og bæta eigið mataræði og barna sinna. Þá er nýjung í breyttum ráðleggingum sem miða að heilsusamlegra mataræði sem um leið minnkar kolefnisfótspor fæðukerfanna. Þetta er mjög brýnt,“ segir Inga og hún veit hvað hún er að tala um því hún hefur verið í sérstökum stýrihópi norrænnar ráðgjafar um næringarefni undanfarin fjögur á. Hún hefur í allt verið í fjögur skipti í þessum hópi, fyrst 1992.
Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26 er áhersla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Inga segir að næring tengist öllum heimsmarkmiðunum og því séu rannsóknir á því sviði afar brýnar.
„Lausn næringarfræðilegra spurninga er nauðsynleg til að hverju hinna sautján heimsmarkmiða verði náð. Þetta er stórt svið og stór spurning en í þessu sambandi mætti nefna þriðja og fjórða heimsmarkmiðið, annars vegar um heilsu og vellíðan og hins vegar menntun en heilbrigt barn sem líður vel lærir betur.“
Öflugur rannsóknahópur
Niðurstöður fara þessa dagana að birtast úr rannsókninni en fyrsta grein doktorsnema um næringu og tengsl við bakgrunnsbreytur er nú í smíðum.
Í stýrihópi rannsóknarinnar eru auk Ingu, Birna Þórisdóttir, lektor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, og Kristjana Einarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum við Læknadeild HÍ. Að verkefninu koma enn fremur Jenný Jónsdóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum, en Jenný er hjúkrunarfræðingur og MS í heilbrigðisvísindum. Gagnasérfræðingur er tölvunarfræðingurinn Jaan Jaaerving.
Aðrir samstarfsaðilar eru Alma María Rögnvaldsdóttir heilsugæsluhjúkrunarfræðingur, Margrét Ólafía Tómasdóttir, heilsugæslulæknir og lektor við Læknadeild HÍ, Þorsteinn Jóhannsson og Ragnhildur Finnbjörnsdóttir frá Umhverfisstofnun, Geir Gunnlaugsson, barnalæknir og prófessor emeritus í hnattrænni heilsu við HÍ, Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir og prófessor við Læknadeild HÍ, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og aðstoðarrektor vísinda við HÍ.
Afkastamikill vísindamaður
Á Vísindavef Háskóla Íslands eru nánari upplýsingar um vísindamanninn Ingu Þórsdóttur en þar kemur fram að hún hafi kennt næringarfræði við Háskóla Íslands frá árinu 1989. Hún hafi orðið prófessor 1997 og forseti Heilbrigðisvísindasviðs árið 2012. Rannsóknir Ingu eru á sviði næringarfræði mannsins, í klínískri næringarfræði og lýðheilsunæringarfræði. Hún hefur lagt áherslu á næringu viðkvæmra hópa í samfélaginu og rannsakað næringarefni. Inga hefur verið í rannsóknahópum sem beita mismunandi aðferðum, allt frá tilraunum að slembiröðuðum samanburðarrannsóknum auk fram- og aftursærra faraldsfræðilegra aðferða.