Skip to main content
29. nóvember 2023

Fjögur fá viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf fyrir HÍ

Fjögur fá viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf fyrir HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, Elsa Eiríksdóttir, dósent við Deild faggreinakennslu, Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, og Kristbjörg Olsen, verkefnisstjóri á Kennslusviði, tóku í dag við viðurkenningum fyrir lofsvert framlag í starfi við skólann. Viðurkenningarnar, sem eru á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa, voru afhentar á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk.

Yfir 20 ár eru liðin síðan farið var að veita viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi við HÍ. Í upphafi voru þær í þremur flokkum, á sviði kennslu, rannsókna og almennra starfa. Fyrir nokkrum árum var fjórðu viðurkenningunni bætt við, fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Er þetta í samræmi við þá áherslu sem lögð er á jafnréttismál í stefnu Háskóla Íslands. Hátt í 80 manns hlotið viðurkenninguna frá upphafi.

Jon og Baldur

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Hann lauk doktorsgráðu í vesturevrópskum stjórnmálum frá Háskólanum í Essex í Englandi árið 1999 og hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 2006.

„Baldur er í dag einn af fremstu fræðimönnum á sviði smáríkjafræða (e. small state studies) og hefur birt tugi greina í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, auk þess að skrifa og ritstýra nokkrum bókum sem fjalla um efnið. Hann hefur ætíð lagt ríka áherslu á að taka Ísland inn í rannsóknir sínar um smáríki í alþjóðasamfélaginu og þannig lagt mikið af mörkum til rannsókna á utanríkisstefnu Íslands, þ.m.t. Evrópustefnu og varnarstefnu landsins,“ segir m.a. í greinargerð valnefndar. 

Þar er enn fremur bent á að Baldur hafi endurreist starfsemi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands eftir að hún hafði legið niðri um nokkurn tíma og stofnað Rannsóknasetur um smáríki (e. Centre for Small State Studies) árið 2002. „Undir hans forystu er setrið orðið eitt af virtustu rannsóknasetrum á sviði smáríkjafræða og hefur fengið ótal erlenda styrki og viðkenningar fyrir rannsóknir og kennslu. Setrið hefur hlotið stöðu svokallaðs Jean Monnet Centre of Excellence en auk þess er Baldur titlaður sem Jean Monnet Chair. Rannsóknasetur um smáríki hefur leitt og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra rannsóknaverkefna með fræðimönnum víðs vegar að úr heiminum, gefið út fræðigreinar, skýrslur og bækur, og staðið fyrir fjölda alþjóðlegra ráðstefna. Þá hefur setrið starfrækt sumarskóla við Háskóla Íslands síðan 2003 og síðar vetrarskóla víðs vegar í Evrópu. Ríflega 800 nemendur í grunn- og framhaldsnámi alls staðar að úr heiminum hafa tekið þátt.“

Þá segir valnefnd að Baldur hafi verið ötull að miðla rannsóknum sínum til almennings í öllum helstu miðlum hér á landi. Hann hafi frá upphafi lagt ríka áherslu á að ráða nemendur sem aðstoðarmenn við rannsóknir sínar og gefið tugum nemenda Háskóla Íslands tækifæri til að stunda rannsóknir. „Margir þeirra eru meðhöfundar Baldurs í fræðigreinum og bókaköflum.“

Jon og Elsa

Elsa Eiríksdóttir, dósent við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlaga til kennslu. Hún lauk doktorsprófi í verkfræðilegri sálfræði frá Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum árið 2011 og hefur starfað við Menntavísindasvið frá árinu 2012 og kennir þar meðal annars námssálarfræði, þróun verklegrar kunnáttu, verkfræðilega sálfræði, tengsl skóla og atvinnulífs og námsmat.

„Rannsóknir Elsu snúa að því hvernig fólk lærir verklega kunnáttu, hvernig yfirfærsla þekkingar og færni á sér stað og hvernig uppbygging náms og framsetning námsefnis getur haft þar áhrif, sérstaklega í upphafi náms. Núverandi rannsóknarverkefni snúa meðal annars að námi og kennslu í verk- og starfsnámi, samspili náms í skóla og á vinnustað í iðnmenntun á Íslandi og hvernig framsetning námsefnis fyrir verkleg verkefni getur bætt frammistöðu og nám.

Nýlega leiddi Elsa endurskipulagningu á námi fyrir iðnmeistara þannig að það hentaði betur þeim sem sækja námið, en það er jafnan fólk sem er starfandi í sínum iðngreinum. Elsa hefur verið öflug, framsýn og leiðandi við mótun og endurskoðun námsins auk þess að gera þróun þess að rannsóknarefni,“ segir m.a. í greinargerð valnefndar. Þá er enn fremur bent á að Elsa hafi átt frumkvæði að því að stofna námsleið til BA-gráðu sem hentar kennurum í framhaldsskólum og styrkir þá sem leiðtoga í menntun iðnaðarmanna.

Jon og Asta

Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Ásta Dís lauk doktorsprófi í alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 2010. Hún starfaði hjá Háskóla Íslands á árunum 1999-2005 og frá 2016. 

„Ásta Dís hefur vakið athygli á mikilvægi jafnra tækifæra kynjanna til stjórnunarstarfa hér á landi, með rannsóknum, kynningum og þátttöku í fjölda viðburða innan Háskóla Íslands og utan. Ásta Dís tók við formennsku í Jafnvægisvogarráði árið 2022. Auk formennskunnar hefur framlag hennar til Jafnvægisvogarinnar verið fólgið í því að styrkja umræðuna með niðurstöðum rannsókna á íslensku atvinnulífi frá sjónarhóli kynjajafnréttis. Hefur Ásta m.a. fjallað um „Arftakastjórnun” innan fyrirtækja auk þess að benda á að lífeyrissjóðirnir leika stórt hlutverk á markaði þegar kemur að jafnrétti. Í byrjun þessa árs fékk Ásta Dís og samstarfsfólk hennar verkefnastyrk Rannís, en þar leiðir hún rannsóknateymi innlendra og erlendra sérfræðinga þar sem markmiðið er að skoða hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu. Þá hefur hún sett í loftið vefsíðu um rannsóknirnar, www.genderequality.hi.is,“ segir í greinargerð valnefndar. 

Enn fremur hefur Ásta Dís skrifað fjölda ritrýndra greina og bókakafla þar sem áherslan er á jöfn tækifæri kynjanna. Einnig hefur hún margsinnis verið fengin sem viðmælandi í fjölmiðlum og verið álitsgjafi þegar fjallað er um jafnréttismál á opinberum vettvangi.

Jon og Kristbjorg

Kristbjörg Olsen, verkefnisstjóri við Deild stafrænnar kennslu og miðlunar á kennslusviði Háskóla Íslands, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu. Hún lauk meistaranámi í myndlist og námi til kennsluréttinda og hefur sótt ýmis námskeið í vefhönnun, margmiðlun og kennslu. Hún hóf störf við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands árið 2003 og hefur starfað þar með hléum til þessa dags og sinnt fjölbreyttum verkefnum. 

„Kristbjörg hefur í fjölmörg ár verið stoð og stytta kennara, nemenda og starfsmanna í stoðþjónustu Háskóla Íslands þegar kemur að stafrænni kennslu og ráðgjöf varðandi kennslukerfi skólans. Hún hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu, er fljót að tileinka sér nýjungar á sviði stafrænna kennsluhátta og hefur náð ótrúlegum árangri í að miðla upplýsingum og leiðbeiningum til kennara og annars starfsfólks á þann hátt að það getur auðveldlega tileinkað sér tólin og lausnirnar. 

Það er afar dýrmætt fyrir Háskóla Íslands að hafa í þjónustu sinni svo traustan og góðan starfsmann sem Kristbjörg er, enda eru stafrænar lausnir í senn gríðarlega mikilvægar fyrir framþróun skólans og valda um leið álagi á kennara. Fullyrða má að flestir kennarar þekki til Kristbjargar og viti að þeir geti alltaf leitað til hennar. Verkefni hennar eru fjölmörg, hún svarar þjónustubeiðnum, býr til myndbönd, skrifar leiðbeiningar, heldur námskeið og er ævinlega reiðubúin að svara erindum ef einhver lendir í vandræðum. Myndbönd og leiðbeiningar Kristbjargar hafa vakið verðskuldaða athygli og eru ekki einungis notuð innan Háskóla Íslands heldur hafa aðrir háskólar einnig nýtt þau í ríkum mæli. Stuðningur við kennara er ávallt í forgangi hjá Kristbjörgu og þolinmæði hennar eru lítil takmörk sett,“ segir í umsögn valnefndar. 

Handhafar viðurkenninganna ásamt rektor Háskóla Íslands. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Kristbjörg Olsen, Elsa Eiríksdóttir, Baldur Þórhallsson og Ásta Dís Óladóttir.