Lífvísindasetur HÍ og Hafró í samstarf
Viljayfirlýsing um samstarf Lífvísindaseturs Háskóla Íslands (BMC) og Hafrannsóknarstofnunar (Hafró) var undirrituð af Þorsteini Sigurðssyni forstjóra Hafrannsóknarstofnunar og Unni Þorsteinsdóttur forseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ þann 26. október 2023.
Markmið viljayfirlýsingarinnar er að efla rannsóknasamstarf milli BMC-HÍ og Hafró við uppbyggingu erfða- og erfðamengjarannsókna í þágu beggja aðila. Lágmarks aðstöðugjald til BMC-HÍ gerir Hafró kleift að vakta ástand sjávar og ferskvatns í vísindalegum tilgangi í samvinnu við sérfræðinga BMC-HÍ. Í þessu felst bestun tilrauna til að spara kostnað við raðgreiningar og greiningu raðgreiningargagna. Er með þessari viljayfirlýsingu lagður grunnur að virkri samvinnu milli BMC-HÍ og Hafró sem m.a. getur falið í sér birtingu niðurstaðna á opinberum vettvangi, eins og í alþjóðlegum vísindaritum og þróun frekara rannsóknarsamstarfs.
Sameiginlegt markmið beggja aðila er að efla erfða- og erfðamengjafræðirannsóknir í tengslum við vöktun á náttúruauðlindum sjávar og ferskvatns á Íslandi og stuðla þannig að aukinni þekkingu, verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu í kringum þessar auðlindir.
Viljayfirlýsingin í heild sinni
"Með þessari viljayfirlýsingu tel ég að Hafrannsóknarstofnun sé að sýna fram á sterka framtíðarsýn, sem og vilja til þess að tengjast viðeigandi innviðum sem við erum svo heppin að hafa aðgang að hér á landi. Það þarf ekkert minna til að takast á við þær áskoranir sem blasa við rannsóknum á haf- og ferskvatnsstofnum Íslands á komandi árum."
Áki Jarl Láruson, stofnerfðafræðingur hjá Hafró
„Raðgreiningartækninni hefur fleytt fram á miklum hraða undanfarin áratug og hefur valdið byltingu í lífvísindum og stofnerfðafræði. Heilraðgreiningar erfðamengja lífvera eru notuð í rannsóknum á sama hátt og áður voru notuð stök gen. Það er mikilvægt fyrir vísindasamfélagið að hafa möguleika á að fá sýni raðgreind hér á landi, með því fæst bæði hagræðing í vinnu og yfirsýn yfir ferlið þegar gögn verða til. Það gefur einnig nemendum í framhaldsnámi færi á að prófa sig áfram. Lífvísindasetur hefur áhuga á að styrkja innviði sína enn frekar og opna þessa möguleika fyrir rannsakendum á Íslandi og er samstarfið við Hafró því afar jákvætt.“
Katrín Halldórsdóttir, verkefnisstjóri hjá Lífvísindasetri HÍ
Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og vatnarannsókna og gegnir auk þess ráðgjafarhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu og verndun auðlinda hafs og vatna. Stór hluti starfseminnar tengist alþjóðlegu samstarfi við erlendar hafrannsóknastofnanir og háskóla. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Hafnarfirði en auk þess eru starfsstöðvar vítt og breytt um landið, tilraunaeldisstöð, tvö rannsóknaskip og hefur að jafnaði um 190 starfsmenn í þjónustu sinni.
Lífvísindasetur HÍ byggir á samstarfi allra háskóla og nokkurra stofnana á Íslandi sem stunda rannsóknir á sviði sameindalífvísinda. Helsta markmið BMC-HÍ er að byggja upp aðstöðu og tækni sem er nauðsynleg fyrir rannsóknir á sviði lífvísinda og efla nám og þjálfun á sviðinu.