Frá Manchester City til Menntavísindasviðs
„Við stöndum í dag jafnfætis fremstu íþróttafélögum og -stofnunum úti um allan heim, t.d. enskum úrvalsdeildarfélögum eins og Manchester United, Manchester City, Liverpool og Chelsea. NBA-liðin eru líka með þessi tæki og sömuleiðis Enska íþróttavísindastofnunin (English Institute of Sport),” segir hinn serbneski Milos Petrovic, lektor við námsbraut í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið HÍ. Milos hefur ásamt samstarfsfólki á námsbrautinni unnið ötullega að uppbyggingu nýrrar rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands sem staðsett er í Laugardalshöll. Milos veit um hvað hann er að tala enda starfaði hann áður með Englands- og Evrópumeisturum Manchester City og hefur einnig hjálpað einum besta kylfingi heims að bæta sveifluna sína. Milos ræðir hér um möguleika til íþróttamælinga í fjölbreyttum íþróttum með tilkomu rannsóknastofunnar, lífið á Íslandi og skýringar á frábærum árangri Serba á íþróttavellinum.
Á annarri hæð í Laugardalshöll hittum við Milos fyrir þar sem byggð hefur verið upp framúrskarandi aðstaða til íþróttamælinga. „Námsbraut í íþrótta-og heilsufræði fékk nýlega 14 milljóna styrk úr Tækjakaupasjóði Háskólans og í framhaldinu var ákveðið að kaupa þennan búnað. Þetta eru nýjustu græjur til þess að mæla hreyfingu og afkastagetu fólks. Hér mætast tækni og íþróttafræði og við erum í raun að nýta tæknina til þess að bæta afkastagetu íþróttamanna og almennings. Við getum mælt hvers kyns hreyfingu og frammistöðu í íþróttum, hvort sem það er stökk, kast, hlaup eða styrkur í öllum hlutum vöðvanna,“ útskýrir Milos.
Rannsóknir tengdar bæði íþróttum og heilsu almennings
Aðspurður segir Milos að tækin verði nýtt í þrennum tilgangi. „Í fyrsta lagi ætlum við að vinna með íþróttafólki og þá hvaða íþróttafólki sem er, hvort sem það er í afreksíþróttum, áhugamannaíþróttum eða íþróttum sem afþreyingu,“ segir Milos.
Í öðru lagi snýr starfið að börnum og þroska þeirra. „Við getum rannsakað hvort þau þroskast á sama hátt og önnur börn í heiminum eða hvort þau eru eftir á eða á undan, hvort þau glími við einhverja stoðkerfisvanda, hvernig hoppa þau, hversu hratt hlaupa þau?“ útskýrir Milos.
Með nýju rannsóknastofunni standa Íslendingar jafnfætist fremstu þjóðum heims í íþróttamælingum. MYND/Gunnar Sverrisson
Eitt af því sem hann og samstarfsfólk hans hyggst leggja sérstaka áherslu á eru rannsóknir á plattfæti hjá börnum sem getur valdið alls kyns stoðverkjum í hnjám og baki. „Við erum að búa til fyrsta gagnagrunninn um plattfót meðal barna á Íslandi. Ég byrjaði á þessu verkefni fyrir nokkrum árum og er kominn með um 500 börn í grunninn,“ segir Milos en rannsóknir hans felast m.a. í að taka tölvumyndir af iljum með kassa sem lætur lítið yfir sér en getur numið ýmsa þætti tengda plattfæti.
Í rannsókn sem Milos gerði í Serbíu fyrir 15 árum reyndust 10% barna vera með plattfót en út frá gögnum hans hér á landi virðast 24% barna glíma við þennan kvilla. Milos segir að hægt sé að draga úr áhrifum plattfótar á líkamann með einföldum æfingum „Við getum boðið upp á æfingaprógramm í upphafi og mælt ýmsa þætti sem snúa að þessum kvilla. Svo getum við fylgt því eftir með því að meta árangur æfinganna, t.d. eftir tvo mánuði,“ segir hann um ávinning tækninnar.
Í þriðja lagi er ætlunin að nýta búnaðinn í rannsóknastofunni í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk. „Við vorum nýlega að koma á fót samstarfi við innkirtladeild Landspítalans þar sem ætlunin er að vinna með fólki með sykursýki,“ segir Milos sem rannsakaði göngulag sykursjúkra í doktorsnámi sínu við Manchester Metropolitan University. „Ég komst að því að fólk með sykursýki glímir við ýmis vandamál tengd göngu og nýtir miklu meiri orku í það en hinn venjulegi maður og við erum núna að reyna að þróa heimaæfingar til þess að bæta lífsgæði þess,“ segir hann.
Styður við bata og forvarnastarf gegn meiðslum
Rannsóknastofan getur að sögn Milos einnig nýst í ýmiss konar forvarnastarfi tengdu meiðslum íþróttafólks. „Með þessum nýju tækjum getum við mælt hvort það eigi á hættu að meiðast, t.d. hvort það er eitthvert misvægi í styrk fótavöðva. Ef annar fóturinn er sterkari er meiri hætta á meiðslum. Við getum mælt þennan styrk núna en áður fyrr byggðist slíkt mat bara á getgátum,“ segir hann og bætir við að íþróttafólk geti einnig fengið stuðning við að ná bata eftir meiðsl. „Við getum metið hvenær íþróttafólk er reiðubúið að fara aftur af stað eftir meiðsli. Forvarnir eru alltaf betri en meiðsl og við getum verið íþróttafólki og -félögum innan handar með það.“
Í rannsóknastofunni er einnig hugbúnaður til ýmiss konar greininga, hvort sem er á einstaklingum eða liðum. „Búnaðurinn gefur okkur möguleika á að leikgreina íþróttaleiki. Þjálfarar geta því komið með sín lið og upptökur hingað og við greint hvað hefur farið úrskeiðis í leikjum og hvernig má bæta það. Við getum einnig greint hversu mikið einstakir leikmenn hlaupa í hverjum leik og fleira í þeim dúr,“ segir hann.
Milos í rannsóknastofunni í Laugardal. MYND/Kristinn Ingvarsson
Samstarf við íþróttafélög og -sambönd í burðarliðnum
Milos bætir enn fremur við að rannsóknastofan geti boðið liðum sem eru að semja við leikmenn upp á mat á heilsu þeirra og formi. „Þegar lið eru að fjárfesta í dýrum leikmönnum geta þau komið með þá hingað í alls kyns próf. Þannig vita liðin hvað þau eru að kaupa áður en þau gera samninga um leikmannakaup,“ segir hann og vísar þar til bæði prófana á styrk, þoli og öðrum mikilvægum þáttum hjá íþróttamönnum í fremstu röð.
Í undirbúningi er að gera samninga við félög og sérsambönd um mælingar og Milos segir Háskóla Íslands einnig tilbúinn í frekara samstarf við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. „Þannig getum við stutt við nýja afreksstefnu sem nú er unnið að hjá mennta- og barnamálaráðuneytiinu og ÍSÍ.“
Aðstaðan í Laugardal mun einnig nýtast meistaranemum í íþrótta- og heilsufræði við HÍ í rannsóknum þeirra. „Við fengum þennan búnað nýlega og við erum aðeins byrjuð að vinna með nemendum að nokkrum meistaraverkefnum,“ segir Milos enn fremur.
Milos og samstarfsfólk hans í Englandi ásamt norðurírska kylfingnum Rory McIlroy.
Vann að því að bæta sveifluna hjá Rory McIlroy
Milos undirstrikar að tækjabúnaðurinn nýtist til mælinga í alls kyns íþróttum, einstaklings sem liða. Nú sé til dæmis í fyrsta sinn hér á landi hægt að greina nákvæmlega sveiflu golfara. „Þegar ég starfaði í Englandi vann ég þess konar greiningu á hinum fræga norðurírska golfara Rory McIlroy. Ég vann ásamt samstarfsfólki alla greiningu á sveiflunni hans ásamt stökkgreiningu, styrktarmælingum og orkunotkun en hann gengur á milli 20 og 30 kílómetra á dag á vellinum. Hann þarf að hafa orku í það og hitta boltann vel. Þess vegna er hann einn sá besti í heimi, ekki vegna mín heldur vegna þess hvernig hann nýtir íþróttafræðin í þróun sinni sem golfari,“ útskýrir Milos.
Manchester City er af mörgum talið besta fótboltalið í heimi „Hann breytti algjörlega hugarfari félagsins. Hann hafði þegar unnið Meistaradeildina tvisvar áður en hann kom til Manchester City og hann gerði smávægilegar en mikilvægar breytingar hér og þar hjá liðnu sem skiptu máli. Sjö árum síðar státar Manchester City af fjölmörgum Englandsmeistaratitlum og var að vinna Meistaradeildina í fyrsta sinn,“ bendir Milos á. Hér er hann að kynna hina nýju rannsóknastofu á opnun hennar. MYND/Gunnar Sverrisson
Vann með knattspyrnuliði Manchester City
Milos á afar athyglisverðan bakgrunn og státar af mjög fjölbreyttri reynslu. Hann er fæddur í Serbíu þar sem hann lagði stund á frjálsar íþróttir. „Ég er menntaður íþróttakennari og frjálsíþróttaþjálfari. Ég lauk grunn- og meistaraprófi í Serbíu en fluttist svo til Englands til þess að fara í doktorsnám við Manchester Metropolitan University. Að því loknu vann ég við Institute of Sports sem þjónustar m.a. Manchester City. Svo flutti ég til Malasíu þar sem ég vann með Ólympíunefnd landsins að því að styðja Ólympíuíþróttamenn þar í landi til það ná sem bestum árangri í sínum greinum,“ útskýrir hann.
Manchester City er af mörgum talið besta fótboltalið í heimi. „Ég vann fyrir liðið svipað og ég er að vinna núna hér, að nýta tækni til greiningarvinnu. Við sáum um mælingar á formi leikmanna, ekki síst á undirbúningstímabilinu fyrir leiktíðina, og komum þeim upplýsingum áfram til þjálfarateymis Manchester City sem vann svo áfram að því að bæta form hvers einasta leikmanns út frá sérhönnuðu æfingaprógrammi fyrir hvern og einn þeirra,“ segir Milos.
Hann bendir á að samstarfið hafi hafist þegar Pep Guardiola varð þjálfari liðsins 2016. „Hann breytti algjörlega hugarfari félagsins. Hann hafði þegar unnið Meistaradeildina tvisvar áður en hann kom til Manchester City og hann gerði smávægilegar en mikilvægar breytingar hér og þar hjá liðnu sem skiptu máli. Sjö árum síðar státar Manchester City af fjölmörgum Englandsmeistaratitlum og var að vinna Meistaradeildina í fyrsta sinn,“ bendir Milos á.
Frá Malasíu til Íslands
Eftir að hafa starfað í Malasíu um tíma sótti Milos um nýdoktorastöðu við nokkra háskóla, þar á meðal við Háskóla Íslands þar sem honum var á endanum boðin staða sem hann þáði. „Svo kom COVID og ég var hér áfram og í framhaldinu fékk ég stöðu sem lektor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda,“ segir Milos sem býr hér ásamt konu og þremur börnum. „Við komum hingað með son minn en síðan höfum við eignast tvær stelpur hér með sextán mánaða millibili.“
Tveir fyrrverandi hástökkvarar og nú vísindamenn við HÍ, Þórdís Gísladóttir og Milos Petrovic. MYND/Gunnar Sverrisson
Aðspurður hvernig honum líki að vinna við Háskóla Íslands segir Milos að hann hafi fengið mikið frelsi til sinna starfa frá Þórdísi Gísladóttur deildarforseta. „Hún lét mig hafa lyklana að þessu rými og hvatti mig til að byggja hér upp aðstöðu sem væri eins og best væri á kosið. Stuðningur hennar gerir allt mun auðveldara og ég reyni að gera mitt allra besta en auðvitað er það stundum þannig innan háskóla að hlutirnir ganga aðeins hægar en maður hefði viljað. Ég er útlendingur og ekki vanur hugsunarhættinum „Þetta reddast“, vil keyra hluti áfram, er meira fyrir spretti en maraþon,“ segir Milos og glottir.
Milos deilir fleiru en áhuga á íþróttafræðum með Þórdísi því hann var sjálfur hástökkvari eins og hún. „Hún tók þátt í tveimur Ólympíuleikum en ég ekki neinum en ég var ágætur hástökkvari á landsvísu,“ segir Milos og kímir. „En það hjálpaði mér mjög mikið að vera í frjálsum íþróttum því þær eru grunnur fyrir allar aðrar íþróttir.“
Mælingar styðja við starf þjálfara
Aðspurður hverju hinn nýi mælingabúnaður muni breyta fyrir Ísland sem afreksþjóð í íþróttum bendir Milos á að hann auðveldi m.a. þjálfurum og öðrum að koma fyrr auga á ungt hæfileikafólk í íþróttum, fólk sem eigi möguleika á að komast í fremstu röð.
„Í öðru lagi munu þjálfarar bæði á landsvísu og á heims- og Ólympíuvísu njóta stuðnings okkar íþróttafræðafólksins. Áður voru þeir svolítið einir á báti við þjálfun íþróttafólksins en nú erum við komin með fleiri sjónarhorn á þjálfunina með tækninni sem augað nemur ekki. Við getum t.d. greint hreyfingu íþróttamanna betur með upptökum á þeim, metið styrk einstakra vöðvahópa og fleira í þeim dúr.“
Þá vilji hópurinn að baki rannsóknastofunni styðja íslensk íþróttalið til afreka. „Við viljum hjálpa þeim að komast að því hvað þau þurfa að gera til þess að komast í hóp bestu liða, hvort sem það er í handbolta, fótbolta, körfubolta eða öðrum íþróttum.“
„Hér munum við mennta þjálfara og íþróttafræðinga framtíðar. Það er mikilvægt að við höfum líka réttu tæknina og tækin og ég vona aðl reynsla mín sem hefur ferðast og unnið víða um heim og geti nýst hér á Íslandi,“ segir Milos. MYND/Gunnar Sverrisson
Bætt menntun þjálfara lykill að betri árangri
Óhætt er að segja að Serbía sé ein af fremstu íþróttaþjóðum heims þrátt fyrir smæð en þessi sjö milljóna þjóð hefur getið af sér besta körfuboltamann heims um þessar mundir, Nikola Jokic, og besta tenniskappann, Novak Djokovic. Þá er kvennalandslið Serbíu í blaki heimsmeistari, svo dæmi séu nefnd. Aðspurður hvað í hugarfari Serba útskýri þennan árangur bendir Milos á að, eins og öfugsnúið og það kunni að hljóma, sé það skortur á aðgengi að tækjum eins og þeim sem nú á að fara að nota hér á landi. „Þessi skortur á góðum aðstæðum knýr okkur áfram í að vera betri. Þegar því er náð komumst við til útlanda til betri liða og þá gefst enn meira rými til að þróa sig sem íþróttamaður.“
Annað sem skipti máli er góð þjálfun. „Við eigum frábæra þjálfara og strangar kröfur eru gerðar til þeirra sem vilja verða þjálfarar í Serbíu. Þar þarftu að vera með gráðu í íþróttafræðum eða íþróttakennslu, helst meistaragráðu, en kröfurnar eru ekki eins miklar hér og því getur næstum því hver sem er orðið þjálfari. Þú gætir kannski bent á að Pep Guardiola sé ekki með gráðu í íþróttafræðum og það er rétt en með honum vinna 40 íþróttafræðingar sem sinna ýmsu fyrir hann. Þeir segja honum: Þessir ellefu leikmenn eru í bestu standi í dag og þeir ættu að spila!“
Leiðin fram á við fyrir Ísland sé því að mennta fleiri þjálfara. „Þess vegna erum við hér. Hér munum við mennta þjálfara og íþróttafræðinga framtíðar. Það er mikilvægt að við höfum líka réttu tæknina og tækin og ég vona aðl reynsla mín sem hefur ferðast og unnið víða um heim og geti nýst hér á Íslandi. Það er mikilvægt að hleypa inn nýju blóði reglulega í bæði fyrirtækjum og stofnunum en þannig tryggjum við þróun og nýsköpun hugmynda,“ segir Milos að endingu.