Ingileif hlaut heiðursverðlaun Líffræðfélagsins
Ingileif Jónsdóttir, prófessor emerita í ónæmisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu, tók við heiðursviðurkenningu Líffræðifélags Íslands úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á ráðstefnu félagsins nýverið.
Viðurkenninguna hlýtur Ingileif fyrir störf sín á sviði ónæmisfræða sem spanna fjóra áratugi. Rannsóknir Ingileifar snúa að grundvallarþáttum í ónæmissvörum við bólusetningu og að samspili hýsils og sýkils. Hún hefur með rannsóknum sínum sýnt fram á virk áhrif bólusetningar á fjölbreytta sjúkdóma, einkum þá sem hafa tengsl við bólgumyndandi þætti. Þá hefur Ingileif m.a. sýnt fram á áhrif bólusetningar mæðra á meðgöngu og jákvæð áhrif bólusetningar vegna pneumókokka sem valda lungnabólgu og meningókokka sem valda heilahimnubólgu. Vitnað hefur verið til rannsókna hennar yfir 20.000 sinnum.
Ingileif hefur fengið fjölda styrkja til rannsókna sinna og leiðbeint tugum framhaldsnema. Enn fremur hefur hún setið í fjölda vísindanefnda og -ráða bæði hér heima og erlendis. Hún var auk þess óþreytandi að miðla þekkingu sinni á sviði ónæmisfræða og bólusetninga í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og þróun bóluefna gegn COVID-19 í íslenskum fjölmiðlum.
Ingileif hefur stýrt rannsóknum smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2005 ásamt því að starfa sem prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 2006.
Auk heiðursverðlaunanna veitti Líffræðifélagið viðurkenningu til efnislegs ungs vísindamanns. Að þessu sinni féllu þau í skaut Camille Anna-Lisa Leblanc, dósents og deildarforseta fiskeldis- og fiskalíffræðideildar Háskólans á Hólum og doktor frá Háskóla Íslands og Oregon State University árið 2011.
Fjölmargir fulltrúar Háskóla Íslands úr hópi nemenda og starfsfólks tók þátt í ráðstefnu Líffræðifélagsins sem fram fór í Öskju - náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands og húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Hátt í hundrað erindi voru flutt á ráðstefnunni og nærri 90 rannsóknir kynntar með veggspjöldum um allt milli himins og jarðar.
Þá sendi Samfélagið á RÚV beint út frá ráðstefnunni og ræddi við fjölda fyrirlesara. Hægt er að hlusta á þáttinn hér.
Ingileif tekur við heiðursviðurkenningu Líffræðifélags Íslands úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á ráðstefnu félagsins. MYND/Fredrik Holm