Gabríela tók við viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf á sviði atferlisgreiningar
Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, tók fyrr í sumar við viðurkenningu Society for the Advancement of Behavior Analysis (SABA) fyrir framlag sitt til alþjóðlegrar útbreiðslu atferlisgreiningar.
Tilkynnt var um það fyrir rúmu tveimur og hálfu ári, í miðjum kórónuveirufaraldri, að Gabríelu, eins og hún er kölluð, hlotnaðist þessi heiður. Hún tók formlega við viðurkenningunni á árlegri ráðstefnu Association for Behavior Analysis-International (ABAI), sem er fagfélag þeirra sem stunda og hafa menntun í atferlisgreiningu, í Denver í Colorado-fylki í Bandaríkjunum.
Atferlisgreining er ein af undirgreinum sálfræðinnar. Í greininni er fengist við þau lögmál sem gilda um hegðun og hvernig hún lærist. Eitt aðalsvið atferlisgreiningarinnar er hagnýt atferilsgreining en þar eru lögmál hegðunar nýtt markvisst til að reyna að leysa úr ýmsum vandamálum fólks.
Gabríela kynntist atferlisgreiningu í BA-námi í HÍ hjá Magnúsi Kristjánssyni. Hún lauk meistaranámi í atferlisgreiningu og meðferð í Southern Illinois University í Carbondale í Bandaríkjunum 1989 og síðar doktorsprófi í tilraunalegri atferlisgreiningu frá Northeastern University í Boston árið 1992.
Gabríela ávarpar gesti á árlegri ráðstefnu Association for Behavior Analysis-International (ABAI), sem er fagfélag þeirra sem stunda og hafa menntun í atferlisgreiningu, í Denver í Colorado-fylki í Bandaríkjunum. „Það eru engar ýkjur að þú ert meðal áhrifamestu hegðunarfræðinga Evrópu og faggreininni hefur fleygt fram um allan heim, þökk sé þínum störfum,“ sagði m.a. í fréttatilkynningu þegar greint var frá verðlaununum á sínum tíma.
Í rannsóknum sínum innan HÍ hefur Gabríela lagt áherslu á hagnýta atferlisgreiningu, m.a. í tengslum við hegðunar- og námsvanda í skólum, foreldraþjálfun, meðferð við málstoli og öryggi barna í innkaupakerrum. Gabriela hefur einnig lagt stund á rannsóknir í tilraunalegri atferlisgreiningu. Þá er hún meðal þeirra sem komu að undirbúningi námsleiða í hagnýtri atferlisgreiningu við HÍ sem settar voru á stofn fyrir nokkrum misserum. Námsleiðirnar eru samvinnuverkefni Heilbrigðisvísindasviðs og Menntavísindasviðs. Gabríela er einnig meðal kennara í atferlsigreiningu en í náminu er áhersla lögð á að mennta fólk til að starfa með börnum með sérþarfir.
Verðlaun SABA sem Gabríela hlýtur eru ekki aðeins fyrir útbreiðslu atferlisgreiningar á Íslandi heldur víðar í heiminum, ekki síst í Austur-Evrópu. „Það eru engar ýkjur að þú ert meðal áhrifamestu hegðunarfræðinga Evrópu og faggreininni hefur fleygt fram um allan heim, þökk sé þínum störfum,“ sagði m.a. í fréttatilkynningu þegar greint var frá verðlaununum á sínum tíma. Gabríela hefur m.a. unnið að framgangi greinarinnar í Lettlandi og í Búlgaríu, m.a. í gegnum kennslu og sem forseti Evrópusamtaka um atferlisgreiningu (EABA).
Rætt var við Gabrielu á vef HÍ þegar tilkynnt var um að hún hlyti viðurkenninguna.