Skip to main content
25. júní 2023

Framúrskarandi lokaverkefni verðlaunuð á Menntavísindasviði

Framúrskarandi lokaverkefni verðlaunuð á Menntavísindasviði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Veittar voru tvennar viðurkenningar fyrir framúrskarandi lokaverkefni á Menntavísindasviði við hátíðlega athöfn þann 22. júní í Stakkahlíð húsi Menntavísinda Háskóla Íslands.  

Tvíburasysturnar Birgitta Þóra Birgisdóttir og Steinunn Bára Birgisdóttir, hlutu viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir framúrskarandi lokaverkefni á bakkalárstigi. Lokaverkefnið er til B.S. prófs, ritgerð og fræðslubæklingur, og ber heitið Byltur meðal eldri aldurshópa: Hlutverk þjálfunar í byltuvörnum. Leiðbeinandi var Bergvin Gísli Guðnason, aðjunkt við Menntavísindasvið. 
Í umsögn dómnefndar segir.
„Dómnefndin er sammála um að ritgerðin sé mjög góð og mjög vel skrifuð, að hún byggi á vandaðri heimildavinnu, að úrvinnslan sé bæði fagleg og beri vott um sjálfstæð efnistök, málfar almennt í samræmi við hefðbundin viðmið um fræðilegar ritsmíðar, flæðið gott og skipulag sömuleiðis. Þá þótti bæklingurinn hinn glæsilegasti; vel hugsaður, og ber það með sér að þær Birgitta Þóra og Steinunn Bára hafa hugsað vel um hvernig mætti koma meginskilaboðunum á framfæri. Bæklingurinn er gagnlegt framlag út í samfélagið.“

Heimir F. Viðarsson, formaður sjóðsins hélt tölu og las upp umsögn fyrir hönd dómnefndar. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs afhenti verðlaunin.

Arnar Helgi Magnússon, hlaut viðurkenningu úr Minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tómstunda- og félagsmálafræði á bakkalárstigi. Ritgerð Arnars Helga ber heitið Ávinningur samstarfs ólíkra fagstétta - samstarfsverkefni barnaverndar og félagsmiðstöðvar. Leiðbeinandi var Oddný Sturludóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið.

Samkvæmt dómnefnd: 

„Verðlaunin eru ætluð einstaklingum er ljúka námi með fyrstu einkunn, skila framúrskarandi lokaverkefni, hafa unnið óeigingjarnt starf sem fulltrúar nemenda í stjórn deildar og verið virk í félagslífi.“

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs veitti verðlaun og Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Menntavísindasvið hélt stutta tölu um Guðbjart Hannesson, gildi hans og nálgun í starfi.

Um Minningarsjóð Ásgeirs S. Björnssonar:
Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar var stofnaður til minningar um Ásgeir sem var lektor í íslensku við Kennaraháskólann um árabil. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1989. Markmið sjóðsins er að efla ritsmíð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi B.Ed.-, BS- og BA-verkefni. Stjórn sjóðsins skipa: Heimir F. Viðarsson (MVS), formaður, Ólafur Páll Jónsson (MVS), Sigríður Ólafsdótitir (MVS) og Eiríkur Rögnvaldsson (fulltrúi Hagþenkis)

Um Minningarsjóð Guðbjarts Hannessonar:
Minningarsjóður Guðbjarts Hannessonar var stofnaður til minningar um Guðbjart sem var skólastjórnandi, alþingismaður og frumkvöðull í að tengja félags- og tómstundamenntun við aðra uppeldismenntun en hann var með þeim fyrstu hér á landi sem sóttu sér formlega menntun sem tómstunda- og frístundafræðingur. Minningarverðlaun í hans nafni voru veitt í fyrsta sinn við brautskráningu Háskóla Íslands árið 2019. Stjórn Minningarsjóðsins skipa: Birna Guðbjartsdóttir, Sigurður Arnar Sigurðsson og Ársæll Arnarsson.

Myndir: Gunnar Sverrisson.

Vinningshafarnir.
Bergvin Gísli Guðnason, Ólafur Páll Jónsson, Birgitta Þóra Birgisdóttir, Steinunn Bára Birgisdóttir, Kolbrún Þ. Pálsdóttir og Heimir F. Viðarsson.
Ársæll Már Arnarsson, Oddný Sturludóttir, Arnar Helgi Magnússon og Kolbrún Þ. Pálsdóttir