Núvituð samkennd í eigin garð Samkennd í eigin garð (Mindful Self Compassion, MSC) er sex vikna námskeið sem eflir sjálfstraust, kjark og tilfinningalega þrautseigju. Á námskeiðinu eru kenndar aðferðir til að mæta sér á erfiðum augnablikum með mildi, umhyggju og skilningi. Áherslur á námskeiðinu eru: - að sýna sér meiri skilning og mildi. - að mæta betur erfiðum tilfinningum. - að hvetja sig áfram með samkennd frekar en gangrýni. - að þekkja betur sitt innra landslag og sitja betur í sér. - að læra betur inn á eigin þarfir og mæta þeim af umhyggju. Námskeiðið er byggt á gagnreyndum aðferðum Dr. Kristin Neff, prófessors við Háskólans í Austin Texas og Dr. Christopher Germer, sérfræðings og kennara við Harvard. Rannsóknarniðurstöður sýna að samkennd í eigin garð eflir núvitund, bætir skilning á sameiginlegri mennsku og eykur góðvild í eigin garð. Núvitund hjálpar okkur að vera meðvituð um líðandi stund og gangast við því sem er. Sameiginleg mennska hjálpar okkur að vakna til vitundar um hvernig við tengjumst og erum öll á sama báti. Góðvild í eigin garð hjálpar okkur að mæta erfiðleikum og okkur sjálfum út frá því sem við raunverulega þurfum á að halda. Sterk tengsl eru á milli samkenndar í eigin garð og vellíðunnar. Samkenndin eflir einnig heilbrigðar lífsvenjur, styrkir tengsl okkar við okkur sjálf og aðra og dregur úr kvíða, þunglyndi og streitu. Leiðbeinandi er: Eygló Sigmundsdóttir, sálfræðingur, félagsráðgjafi og núvitundarleiðbeinandi. Námskeiðið er á vegum Núvitundarsetursins. Námskeiðið er á þriðjudögum frá 3. febrúar til 10. mars, kl. 16:30 - 18:00 í x Námskeiðsgjald er 4000 kr. Skráning fer einungis fram á Þjónustuborðinu, Háskólatorgi. Sjálfstyrkingarnámskeið Sálfræðiþjónusta NHÍ býður námsmönnum skólans upp á fimm vikna sjálfstyrkingarnámskeið sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Á námskeiðinu verða kenndar aðferðir til að rjúfa vítahring lágs sjálfsmats með því að vinna með óhjálplegar hugsanir (sjálfsgagnrýni) og óhjálplega hegðun (frestun, forðun og fullkomnunaráráttu). Skoðaðar verða gagnlegar leiðir til að takast á við lágt sjálfsmat og bæta þannig líðan okkar. Leiðbeinendur eru Anna Guðrún Guðmundsdóttir, Hrafnkatla Agnarsdóttir og Rakel Davíðsdóttir, sálfræðingar. Námskeiðsgjald er 6000 kr. Aðeins 12 pláss eru í boði og því er nauðsynlegt að skrá sig. Skráning fer einungis fram á Þjónustuborðinu Háskólatorgi. Vinsamlegast athugið að skráning á námskeið er bindandi. Hægt er að óska eftir endurgreiðslu í síðasta lagi tveimur virkum dögum áður en námskeið hefst. Námskeiðið er haldið einu sinni í viku frá kl. 13:00 - 15:00 eftirfarandi fimmtudaga frá 12. febrúar til 12. mars. Námskeiðið 12. og 19. febrúar er haldið í Setberg, stofa 305 (Suðurberg) og allar hinar dagsetningar í stofu 205 (Miðberg). SálFÆÐI - Fræðsla um heilbrigt samband við mat Fimmtudaginn 26. mars, kl. 13:00- 14:30 - Opnað verður fyrir skráningu 12. mars Fræðsla sem fer yfir hvað einkennir óheilbrigt samband við mat, hvað ber að varast í þeim efnum og hvernig hægt sé að efla heilbrigði í mataræði og líkamsmynd. Fyrirlesari: Hrafnkatla Agnarsdóttir, sálfræðingur Fyrirlesturinn fer fram á Íslensku. Prófkvíðanámskeið Nemendaráðgjöf HÍ býður upp á fjögurra vikna prófkvíðanámskeið á vormisseri 2026. Kennt verður á mánudögum frá kl. 13:30 - 15:30 frá 23. febrúar til 16. mars. Markmið námskeiðisins er að nemendur fái fræðslu um hvaða þættir hafi áhrif á tilurð og mótun prófkvíða og læri aðferðir til að takast á við prófkvíða á uppbyggilegan hátt. Námskeiðsgjald er 5000 kr. Skráning fer einungis fram á Þjónustuborðinu, Háskólatorgi. facebooklinkedintwitter