Skip to main content
7. febrúar 2023

Nýta nýjustu tækni í sameindalíffræði til að fylgjast með afkomu hvalastofna

 Nýta nýjustu tækni í sameindalíffræði til að fylgjast með afkomu hvalastofna - á vefsíðu Háskóla Íslands
  • Almenningur virkjaður í verkefninu sem nefnist eWHALE
  • Verkefnið valið úr hópi 200 rannsóknarverkefna sem sóttu um styrk frá ESB

Vísindamenn við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík eru meðal þátttakenda í samevrópsku rannsóknarverkefni, eWHALE, sem miðar að því að nýta nýjustu tækni í sameindalíffræði og erfðafræði til að fylgjast betur með afkomu hvalastofna í Atlantshafi. Sýnasöfnun fyrir rannsóknina mun m.a. fara fram í hvalaskoðunarferðum hér á landi og þannig er ætlunin að virkja almenning í verkefninu.

Til þess að vernda hvali og aðrar sjávarlífverur í útrýmingarhættu er nauðsynlegt að leggja áherslu á aðgerðir sem ná til stórra svæða frekar en afmarkaðra. Allar slíkar aðgerðir þurfa hins vegar að byggjast á gögnum og markmið eWHALE er einmitt af afla slíkra gagna. 

„Í tilviki sumra hvalategunda er ekki hægt að greina einstaklinga innan tegundarinnar hvern frá öðrum út frá ytri einkennum. Þá er einnig erfitt að safna vefjasýnum úr hvölum og því ekki gott að nýta slíkt til yfirgripsmikillar vöktunar á tegundum,“ segir Bettina Thalinger, vísindamaður við Háskólann í Innsbruck í Austurríki sem leiðir rannsóknahópinn sem kemur að verkefninu. 

Umhverfis-DNA nýtt til að fylgjast með hvölum

Bettina og samstarfsfólk hyggjast nýta nýja og mjög spennandi aðferð í rannsókninni sem gerir þeim kleift að greina skýrar á milli hvalategunda, fjölskylduhópa og jafnvel einstaklinga innan fjölskyldna og fæðu þeirra. Aðferðir sameindalíffræðinnar verða nýttar til að greina svokallað umhverfis-DNA (e. eDNA) úr hvölunum sem finna má í sjávarsýnum. Bettina og fleiri vísindamenn við Innsbruck-háskóla hafa töluverða reynslu af notkun aðferðarinnar og sama má segja um vísindafólk hjá Rannsóknamiðstöð um landbúnað, fæðu og umhverfi í Frakklandi, Hafrannsóknastofnun Noregs og University College Cork á Írlandi sem taka einnig þátt í verkefninu. 

Vísindamenn Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík hafa á móti mikla reynslu af hvalarannsóknum af ýmsu tagi, þar á meðal að greina einstaklinga innan tiltekinna hvalategunda, og hafa unnið náið með hvalaskoðunarfyrirtækjum í bænum. Svipaða sögu er að segja af vísindamönnum við Háskólann á Asoreyjum og Tækniháskólann í Mílanó sem einnig eiga aðild að eWHALE. Hlutverk þessara þriggja þátttakenda verður m.a. að virkja almenning í tengslum við sýnasöfnun í samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtæki. 

Almenningur virkjaður í hvalaskoðunarferðum

„Sýnataka er auðveld og mun m.a. fara fram í hvalaskoðunarferðum. Við viljum í samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækin virkja gesti í hvalaskoðun,” segir Thalinger en virkjun almennings í vísindastarfi (e. citizen science) fer vaxandi um allan heim. Í ferðunum kynnist almenningur því hvernig nýjasta tækni er nýtt til að vakta hvalastofna og um leið skapast aukin vitund um mikilvægi þess að vernda búsvæði hvala.

„Við munum m.a. nýta rannsóknarbát okkar, Arcpath, til að safna sýnum á Skjálfanda fyrir greiningu á umhverfis-DNA ásamt því að taka sýni úr hvölum og ljósmynda þá. Við munum jafnframt vinna með hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu í þeim þætti verkefnisins sem snýr að því að virkja almenning í hvalaskoðunarferðum,“ segir Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík.

Verkefnið hófst í janúar og mun standa í þrjú ár. Ætlunin er að safna miklum fjölda sýna við strendur og í sjónum nærri Evrópu, allt frá Asoreyjum til Íslands. Sýnasöfnun hefst með vorinu og greining sýna fer svo fram næsta haust. Frumniðurstöður rannsóknarinnar verða að sögn Thalinger nýttar til að þróa frekar vöktunaðferðir fyrir næsta ár. „Draumur okkar er að geta fylgst með ferðum einstakra hvala með greiningu á umhverfis-DNA þeirra,“ segir Thalinger. 

Rannsóknir á Skjálfanda og samstarf við Norðursiglingu

Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, segir verkefnið afar spennandi og því fylgi bæði styrkur til tækjakaupa og að ráða inn doktorsnema að verkefninu. „Eins og Bettina bendir á erum við að prófa hvort við getum nýtt sýni úr sjónum til greiningar á umhverfis-DNA og þannig fengið nokkurs konar „skilríki“ hvers hvals sem nýst getur til að fylgjast með viðkomandi einstaklingi og bera saman við aðra hvali. Við munum m.a. nýta rannsóknarbát okkar, Arcpath, til að safna sýnum á Skjálfanda fyrir greiningu á umhverfis-DNA ásamt því að taka sýni úr hvölum og ljósmynda þá. Við munum jafnframt vinna með hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu í þeim þætti verkefnisins sem snýr að því að virkja almenning í hvalaskoðunarferðum,“ segir Marianne. 

eWHALE-verkefnið nýtur stuðnings úr Biodiversa+, sjóði sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setti á laggirnar í tengslum við stefnu ESB um líffræðilegan fjölbreytileika (European Union's Biodiversity Strategy 2030). Markmið Biodiversa+ er ekki síst að brúa bilið á milli vísindanna og stefnumótunar innan Evrópusambandsins með það að augnamiði að verja og endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika í álfunni. Alls bárust 209 umsóknir um styrki úr sjóðnum í umræddum styrkjaflokki en eWHALE er í hópi 36 verkefna sem valin voru til fjármögnunar.

Hægt verður að fylgjast með eWhale-verkefninu á vef þess.

Hvalur