Vinnusmiðjur og hönnun Sögu fram undan
Á nýju ári heldur undirbúningsvinna fyrir flutning Menntavísindasviðs í Sögu áfram af fullum krafti. Framkvæmdir utanhúss eru langt á veg komnar og framkvæmdum miðar vel innanhúss. Fram undan eru vinnusmiðjur og hönnun rýmis Menntavísindasviðs í Sögu auk þess sem fjármála- og efnahagsráðherra heimsótti Sögu í desember síðastliðnum.
Samstarf við Veldhoen+Company
Háskóli Íslands og Menntavísindasvið starfa með hollenska ráðgjafafyrirtækinu Veldhoen+Company, einu virtasta ráðgjafafyrirtæki heims við hönnun vinnuumhverfis og vinnustaðamenningar. Við upphaf samstarfs við Veldhoen+Company voru þarfagreiningar og drög að húsrýmislýsingum lögð í hendur ráðgjafanna til rýningar. Húsnæðiskönnun var lögð fyrir starfsfólk Menntavísindasviðs í samstarfi við Veldhoen+Company. Ráðgjafar á vegum fyrirtækisins voru á Íslandi vikuna 17.- 21. október og tóku m.a. viðtöl við fulltrúa stjórnenda, deildarstjóra og akademísks starfsfólks sviðsins með það að markmiði að fá frekari upplýsingar við úrvinnslu niðurstaðna könnunarinnar. Misserisþing sviðsins var svo haldið 29. nóvember og helgað flutningi sviðsins í Sögu þar sem starfsfólk vann meðal annars SVÓT greiningu í hópum. Nánari upplýsingar um misserisþingið eru aðgengilegar starfsfólki sviðsins á Uglu undir Menntavísindasvið.
Ferlið fram undan
Ráðgjafar Veldhoen+Company hafa skilgreint fjögur skref í flutningsferlinu fyrir næstu tvö ár og stendur fyrsta skrefið nú yfir. Í því felst gagnasöfnun auk þess sem nálganir eru ræddar og ákveðnar. Forystu er leiðbeint og rætt við fulltrúa deilda og eininga auk annarra hagaðila og þá er unnið að skilgreiningu framtíðarsýnar fyrir Menntavísindasvið í Sögu. Stefnt er á að þeirri vinnu ljúki í febrúar og að eiginleg hönnun hefjist þá. Hún felur í sér skipulagsvinnu sem byggjast mun á á vinnuháttum starfsfólks sviðsins og framtíðarsýn fyrir Menntavísindasvið í Sögu. Nánari upplýsingar um ferlið eru aðgengilegar starfsfólki HÍ á Uglu.
Vinnusmiðjur 16. - 20. janúar
Ráðgjafi hollenska ráðgjafafyrirtækisins Veldhoen+Company fundar og verður með vinnustofur fyrir starfsfólk Menntavísindasviðs vikuna 16. -20. janúar. Dagskráin er þétt en haldnar verða vinnusmiðjur með fulltrúum frá öllum deildum og stjórnsýslueiningum á Menntavísindasviði ásamt stjórnendum á Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands, starfsfólki Menntasmiðju og starfsfólki Kennslusviðs HÍ sem vinnur að þróun framtíðarkennsluhátta. Arkitekt verður einnig á fundum sem varða hönnun og skipulag, uppsetningu og þróun vinnurýma með tilliti til tækniþarfa og samþættingu þeirra við aðrar þarfir akademísks starfsfólks og stjórnsýslu. Auk þess fundar ráðgjafinn með starfsfólki sviðsins til þess að rýna frekar í niðurstöður könnunar og þarfagreiningar sem gerð var meðal starfsfólks sviðsins á síðasta ári. Fulltrúum allra námsleiða innan deilda sviðsins hefur verið boðin þátttaka.
Fjármála- og efnahagsráðherra heimsótti Sögu
Í desember heimsótti fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, Háskóla Íslands og kynnti sér meðal annars framkvæmdir í Sögu. Með Bjarna í för voru Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður ráðherra. Á Facebook síðu rektors HÍ birtist eftirfarandi frétt:
„Við hófum heimsóknina í Sögu en þar munu fyrstu íbúar nemendagarðanna sem þar verða flytja inn á næstu mánuðum. Enn fremur er unnið af kappi að undirbúningi þess að Menntavísindasvið Háskóla Íslands flytji í Sögu. Með flutningnum skapast betri skilyrði til þéttara samstarfs við önnur fræðasvið HÍ. Áhersla er á þverfræðilegar rannsóknir í háskóla- og vísindastarfi í dag og ýtir flutningur Menntavísindasviðs undir rannsóknarsamstarf um viðfangsefni sem fræðafólk sviðsins sinnir.
Svavar Jósefsson, rekstrarstjóri sviðsins, sagði frá aukinni aðsókn í kennaranámið og frá þeim möguleikum sem skapast við flutning Menntavísindasviðs í Sögu. Saga mun einnig hýsa aðra háskólastarfsemi á borð við Vísindasmiðju Háskólans og þá mun upplýsingatæknisvið HÍ verða þar einnig til húsa.“
Framkvæmdum að utan miðar vel
Fréttastofa RÚV kíkti enn fremur með Kristni Jóhannessyni, sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs HÍ, í Sögu á dögunum og skoðaði meðal annars framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs. Líkt og fram kemur í fréttinni eru framkvæmdir í fullum gangi. Áætlað er að fyrstu nemendur flytji inn í stúdentaíbúðir í mars. Verkið er nokkurn veginn á áætlun en leki var bæði í þaki og gluggum. Búið er að skipta um á annað hundrað glugga og á viðgerðum utanhúss að ljúka sumarið 2023.
Fylgjast með fréttum af framvindu flutnings Menntavísindasviðs í Sögu hér