Fjölmennt á málþingi til heiðurs Jóni Torfa
Málþingið Samtal um framtíð menntunar til heiðurs Jóni Torfa Jónassyni, prófessors emeritus fór fram í Stakkahlíð þann 16. nóvember síðastliðinn.
Markmið málþingsins var að heiðra Jón Torfa Jónasson, prófessor emeritus og fyrrverandi sviðsforseta Menntavísindasviðs á hans 75. aldursári. Jafnframt var markmiðið að skapa vettvang fyrir umræðu um málefni sem honum er hugleikið, framtíð menntunar.
Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, setti málþingið og þakkaði Jóni Torfa fyrir sitt framlag í þágu menntavísinda og fyrir samstarfið í gegnum tíðina.
Fjöldi áhugaverðra erinda voru flutt þ.á.m. flutti Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands erindið Hörðu málin í framhaldsskólanum. Kristín Dýrfjörð, dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri, flutti erindið Leikskólinn - þar sem framtíðin fæðist.
Ulpukka Isopahkala-Bouret, prófessor við Háskólann í Turku, Finnlandi flutti erindið What does the future look like for recent university graduates? Og Stephen Murgatroyd, President of Futures Leadership for Change Inc flutti erindið Unthawing Frozen Futures - Our Leadership Opportunity in Education.
Fjögur örmyndbönd voru sýnd fyrir umræður þar sem nemendur á ólíkum skólastigum lýstu hvað þeim fyndist skipa máli að menntakerfið gerði til að ungt fólk fyrir framtíðina.
Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor emeritus stýrði sófaspjalli þar sem eftirfarandi tóku þátt:
Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við Menntavísindasvið, Sigurjón Mýrdal, kennari og fyrrv. sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Sif Sindradóttir, grunnskólakennari og nemi í starfstengdri leiðsögn og Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Jón Torfi Jónasson ávarpaði að lokum samkomuna og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs stýrði málþinginu.
Málþingið var vel sótt af samstarfsfólki, fyrrum nemendum, fjölskyldu og vinum Jóns Torfa.