Íslensku menntaverðlaunin 2022 afhent
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Aðalheiði Björt Matthíasdóttur, Guðrúnu Sólveigu og Elínu Guðrúnu Pálsdóttur, fulltrúum leikskólans Rauðhóll, Íslensku menntaverðlaunin á Bessastöðum fimmtudaginn 3. nóvember síðastliðinn. Leikskólinn Rauðhóll hefur áður verið tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna og hlaut verðlaunin fyrir fagmennsku og gæði í leikskólastarfi og öflugt þróunarstarf.
Menntaverðlaununum er ætlað að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á vönduðu skóla- og frístundastarfi. Verðlaunin voru veitt í fjórum aðalflokkum auk hvatningarverðlauna og bárust fjölmargar tilnefningar að þessu sinni. Viðurkenningarráð valdi úr tilnefningum og kynnti forval sitt á alþjóðlegum degi kennara í byrjun október.
Handhafar Íslensku menntaverðlaunanna árið 2022
Verðlaun sem framúrskarandi kennari hlaut Elísabet Ragnarsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Heiðarborg. Í umsögn um hana segir hana hafa sérstakan styrkleika við að grípa áhuga barna og hvetja þau til að rækta hæfileika sína. Hvort sem áhugi barns eða barna fyrir tækjum, tónlist, sögum eða myndefni nær hún að virkja þann áhuga og vinna áfram með hann og skapar tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum.
Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni hlaut þróunarverkefnið Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Í umsögn segir verkefnið tengja nemendur við uppruna sinn og umhverfi sem beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi
Verðlaun fyrir framúrskarandi framlag til iðn- og verkmenntunar hlaut átaksverkefnið #Kvennastarf sem ætlað er að stuðla að jafnrétti til náms. Átakið er hvatning til að skoða alla möguleika í vali og var unnið af Tækniskólanum í samstarfi við iðn- og verkmenntaskóla í landinu.
Hvatningarverðlaun voru veitt Menntaskóla Borgarfjarðar fyrir framsækna endurskoðun á námskrá með það að leiðarljósi að búa nemendur sem best undir áskoranir í lífi og starfi í nútíð og framtíð.
Verðlaunaafhendingin fór fram á Bessastöðum 3. nóvember og var sjónvarpað beint á Rúv. Áhugasöm geta horft á upptöku af viðburðinum í myndbandi hér að neðan.
Horfa á Íslensku menntaverðlaunin 2022 hér
Um Íslensku menntaverðlaunin
Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafa tekið höndum saman um að veita árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum.
Sjá nánari upplýsingar um verðlaunin á vef Samtök áhugafólks um skólaþróun.