Farsæld barna er ný námsleið í fjarnámi við HÍ
Farsæld barna er nýtt diplómanám í Háskóla Íslands í boði við Félagsráðgjafardeild. Námið er allt boðið í fjarnámi og er til eins árs og 30 eininga. Því er ætlað að styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tóku gildi 1. janúar 2022. Það er gert með því að veita þekkingu á barnamiðaðri nálgun, samþættingu þjónustu, hlutverki tengiliða og mælingum á árangri. Þá verður lögð áhersla á færni í teymisvinnu og þverfaglegri samvinnu auk áherslu á mikilvægi fyrsta stigs þjónustu við börn.
„Markmið námsleiðarinnar er að koma til móts við þörf fyrir sérhæfða þekkingu og færni í samræmi við hina nýju löggjöf. Námið er ætlað öllum þeim sem hafa lokið BA/B.Ed./BS-prófi og starfa með börnum í heilbrigðis-, skóla- og velferðarþjónustu eða á öðrum vettvangi,“ segir Ragnheiður Hergeirsdóttir lektor sem er umsjónarkennari í námsleiðinni ásamt Herdísi Steingrímsdóttur sem einnig er lektor.
Þess má geta að í námsnefnd sitja einnig fulltrúar Barna- og fjölskyldustofu en námsleiðin er grundvölluð á samstarfssamningi Háskóla Íslands og Mennta- og barnamálaráðuneytisins um stuðning HÍ við innleiðingu á nýju löggjöfinni sem nefnd var hér að framan.
Spennandi nám í þágu barna
Nýja námsleiðin samanstendur af af þremur 10 ECTS námskeiðum:
Samþætt þjónusta við börn: Löggjöf um farsæld (10ECTS)
Námskeiðið veitir grundvallarþekkingu á löggjöf sem varðar þjónustu við börn með sérstakri áherslu á lög um samþætta þjónustu við börn í þágu farsældar barna, barnasáttmála og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði barnaréttar. Þá verður fjallað um hvernig löggjöfin leggur áherslu á fyrsta stigs þjónustu við börn og hvernig koma megi í veg fyrir aðstæður sem ógna farsæld barna. Í fyrri hluta námskeiðsins er einblínt á að nemendur öðlist þekkingu og skilning á löggjöfinni en í seinni hluta námskeiðs er lögð áhersla á beitingu þekkingar og vinnu með raunhæf dæmi af vettvangi (tilvik). Einnig verður fjallað um matsrannsóknir og hvernig meta megi hvort markmiðum löggjafar er náð, m.a. með áherslu á aðferðir kostnaðar og nytjagreininga.
Börn og farsæld: Réttindi barna og þátttaka þeirra (10ECTS)
Í námskeiðinu er áhersla á að veita grundvallarþekkingu á bernskufræðum og í því samhengi rætt um barnamiðaða nálgun, með sérstakri áherslu á börn í viðkvæmri stöðu. Fjallað verður um hagsmuni barna, verndandi þætti og hættur sem ógna farsæld barna. Áhersla er lögð á að fjalla um hvernig fyrsta stigs þjónusta við börn skapar tækifæri til að grípa fyrr inn í aðstæður og koma í veg fyrir aðstæður sem ógna farsæld barna. Rædd verða hagnýt dæmi þar sem nemendur fá innsýn í að beita gagnreyndu vinnulagi við ákvarðanatöku.
Tengiliðir og þverfaglegt samstarf: Nýtt vinnulag í þágu barna (10ECTS)
Í námskeiðinu er lögð áhersla á grundvallarþekkingu á samvinnu og þverfaglegri teymisvinnu innan og utan stofnana. Fjallað verður um hvað felst í samþættingu þjónustu og hlutverki tengiliða. Nemendur fá tækifæri til að rýna og greina styrkleika sína og hindranir á þessu sviði. Auk þess er lögð áhersla á að nemendur læri að tileinka sér og nýta endurgjöf til faglegs þroska í samvinnu og teymisvinnu. Fjallað verður um félagslegar fjárfestingar, sjálfbærni og heimsmarkmið með áherslu á aðferðir kostnaðar- og nytjagreininga.
Umsóknarfrestur um nýju námsleiðina er til 5. júní 2022. Umsókn um framhaldsnám.