Langvarandi einkenni kvíða og þunglyndis hjá þeim sem veiktust mest af COVID-19
Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem nær til um 250 þúsund manns í sex löndum, þar á meðal á Íslandi, benda til þess að alvarleiki veikinda af völdum COVID-19-sjúkdómsins sé ákvarðandi þáttur um hættuna á langvarandi sálrænum einkennum meðal þeirra sem sýkjast. Rannsóknin er unnin undir forystu vísindafólks við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands en niðurstöðurnar birtust í gær í vísindatímaritinu The Lancet Public Health.
Rannsóknin er hluti af COVIDMENT-rannsóknarverkefninu en að því kemur vísindafólk frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Eistlandi og Skotlandi auk Íslands. Helsta markmið rannsóknasamstarfsins er að auka þekkingu á langvarandi áhrifum COVID-19-heimsfaraldursins á geðheilsu almennings og þá sérstaklega þeirra sem greinst hafa með sjúkdóminn.
Rannsóknin sem birtist í gær byggist á viðamiklum ferilrannsóknum í löndunum sex, þar á meðal hinni umfangsmiklu rannsókn „Líðan þjóðar á tímum COVID-19“ sem vísindafólk við Miðstöð í lýðheilsuvísindum ýtti af stað í upphafi faraldursins hér á landi. Í þessum ferilrannsóknum svöruðu 250 þúsund manns spurningalistum um sálræn einkenni en af þeim höfðu um 10 þúsund manns greinst með COVID-19 í ágúst 2021.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þunglyndiseinkenni og skert svefngæði voru algengari meðal einstaklinga sem höfðu greinst með COVID-19 en þeirra sem ekki höfðu greinst, en aðallega fyrstu mánuðina eftir greiningu. Hins vegar var algengi sálrænna einkenna mjög breytilegt út frá þeim fjölda daga sem einstaklingar höfðu verið rúmfastir vegna COVID-19-veikindanna. Um 22% einstaklinga sem greinst höfðu með COVID-19 voru rúmfastir í viku eða lengur og var algengi einkenna kvíða og þunglyndis meðal þeirra um 50-60% meira en einstaklinga sem ekki höfðu greinst með sjúkdóminn. Þetta aukna algengi alvarlegra sálrænna einkenna meðal þessa hóps hélst óbreytt allt að 16 mánuðum eftir greiningu.
Unnur A. Valdimarsdóttir, prófessor og ábyrgðarhöfundur greinarinnar, og Ingibjörg Magnúsdóttir, doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og fyrsti höfundur vísindagreinarinnar. Samantekið benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að almennt séu áhrif COVID-19 á andlega líðan skammvinn en að alvarleiki COVID-19-veikinda sé mikilvægur forspárþáttur um hættu á sálrænum einkennum til lengri tíma.
„Fyrri rannsóknir hafa að mestu snúið að sálrænum einkennum einstaklinga eftir innlögn á spítala vegna COVID-19 til skemmri tíma. Þessar niðurstöður benda til þess að alvarleiki COVID-19 veikinda sé ákvarðandi þáttur þegar kemur að sálrænum einkennum, einnig til lengri tíma,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og fyrsti höfundur vísindagreinarinnar.
Á hinn bóginn sýna niðurstöðurnar að algengi þunglyndis- og kvíðaeinkenna hjá þeim höfðu lítil einkenni vegna COVID-19 var minna en hjá þeim sem aldrei höfðu greinst. „Það er hugsanlegt að það verði ákveðinn léttir meðal einkennalítilla einstaklinga eftir að sýkingin er yfirstaðin að geta horfið aftur til fyrra lífs án þess að hafa áhyggjur af áhrifum á lengri tíma líðan. Þetta birtist mögulega í minni tíðni sálrænna einkenna meðal þeirra í samanburði við einstaklinga sem enn hafa áhyggjur af því að smitast og þurfa að takmarka félagsleg samskipti,“ segir Unnur A. Valdimarsdóttir, prófessor og ábyrgðarhöfundur greinarinnar.
Samantekið benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að almennt séu áhrif COVID-19 á andlega líðan skammvinn en að alvarleiki COVID-19-veikinda sé mikilvægur forspárþáttur um hættu á sálrænum einkennum til lengri tíma. Þá benda þessar niðurstöður til þess að mögulega þurfi sérstaka eftirfylgd með einkennum þeirra sem veikjast illa af COVID-19.