Rösklega 450 brautskrást frá HÍ um helgina
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (18. febrúar 2022):
„Núna um helgina fögnum við af heilum hug þeim rösklega 450 kandídötum sem brautskrást frá Háskóla Íslands. Vegna samkomutakmarkana, sem gilt hafa meira og minna í allan vetur og tekið ítrekuðum breytingum, verður ekki formleg athöfn með gestum en brautskráningarkandídötum býðst að sækja prófskírteini sín í Háskólabíói á laugardag milli kl. 10 og 14. Stefnt er að því að hafa daginn bæði hátíðlegan og eftirminnilegan þrátt fyrir óhefðbundið fyrirkomulag.
Með móttöku prófskírteina lýkur mikilvægum kafla og nýr áfangi hefst; sum hyggja á framhaldsnám, hér heima eða erlendis, en önnur taka langþráð skref út í atvinnulífið. Frá því Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 hafa tæplega 60 þúsund nemendur kvatt skólann með fjölbreyttar prófgráður í farteskinu til að láta að sér kveða á öllum sviðum samfélags og atvinnulífs.
Núna eru rösklega sextán þúsund nemendur við Háskóla Íslands á öllum námsstigum frá tæplega eitt hundrað þjóðlöndum. Með undirstöðu í námi og rannsóknum frá skólanum munu þau móta framtíðina eins og þau öll sem hverfa héðan um helgina með prófgráður sem njóta mikils trausts, ekki bara hér heldur úti um allan heim.
Þrátt fyrir heimsfaraldur, samkomutakmarkanir og alls kyns hömlur á skólastarfi hefur HÍ kappkostað að búa ykkur, kæru nemendur, undir margbreytileg verkefni síkviks samfélags og flóknar áskoranir. Og þið hafið nú þegar glímt við áskoranir tengdar COVID í sex námsmisseri, nokkuð sem engan grunaði fyrir röskum tveimur árum. Það ber ótvírætt vitni um sveigjanleika starfsfólks og nemenda að Háskólinn geti þrátt fyrir allt brautskráð þennan fjölda núna um helgina.
Háskólar eru undirstaða atvinnulífs og framfara enda er þekkingin gjaldmiðill framtíðarinnar. Núna er rösk vika í árvissan háskóladag en hann er gríðarlega mikilvægur samfélaginu öllu þar sem áhugasöm um háskólanám geta leitað upplýsinga um það sem er í boði hjá öllum háskólum landsins. Háskóli Íslands mun kynna allt grunnnám sitt.
Annað árið í röð verður háskóladagurinn stafrænn en vegna þess geta öll, alveg sama hvar þau eru stödd, spjallað við nemendur HÍ, kennara, námsráðgjafa og fulltrúa fjölbreyttra þjónustueininga. Ég er afar þakklátur þeim fjölmenna hópi sem kemur að undirbúningi dagsins, ekki síst á annað hundrað nemendum sem munu kynna af metnaði það nám sem þau stunda við skólann.
Við lifum þá tíma þegar ör tækniþróun umbyltir möguleikum okkar og eykur svo sannarlega kosti í námi og kynningu á því. Þróun háskóla á næstu árum mun skipta sköpum fyrir þróun samfélaga þar sem brýnar áskoranir kalla á lausnir sem byggja á upplýsingatækni, sérfræðiþekkingu, þverfræðilegri nálgun og framsækni.
Í nýrri framtíðarstefnu Háskóla Íslands, HÍ26, hefur skólinn sett sér háleit markmið varðandi þróun námsins. Þar vegur upplýsingtæknivæðing þungt, hvort sem horft er til staðnáms eða fjarnáms. Tæknin veitir mikilvæg tækifæri til þróunar, allt frá miðlun kennsluefnis og samskipta nemenda og kennara til alþjóðavæðingar námsins. Slík þróun mun þó einungis gerð með gæði námsins í huga. Háskóli Íslands hefur skyldum að gegna við íslenskt samfélag og atvinnulíf og kappkostar að allt nám standist strangar alþjóðlegar gæðakröfur. Við vitum að sífelld framþróun starfseminnar með gæði, jafnrétti og metnað að leiðarljósi mun tryggja Háskóla Íslands áframhaldandi traust innan lands sem utan. Þannig rækir hann best skyldur sínar við íslenskt samfélag.
Kæru nemendur og starfsfólk. Förum áfram að öllu með gát. Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor"