Skip to main content
16. desember 2021

Viljayfirlýsing undirrituð um að hús Norðslóðar rísi í Vatnsmýri

Viljayfirlýsing undirrituð um að hús Norðslóðar rísi í Vatnsmýri - á vefsíðu Háskóla Íslands

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að lóðinni að Sturlugötu 9 verði ráðstafað til Norðurslóðar, norðurslóðaseturs sem kennt verður við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands. Þar verður jafnframt framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða, Artic Circle. Undirritunin fór fram í Grósku í Vatnsmýri.

Úthlutun lóðarinnar er í samræmi við niðurstöðu nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra og í sátu fulltrúar frá  forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Hringborði norðurslóða. 
 
Lóðin að Sturlugötu 9 er austan Öskju, náttúrufræðahúss Háskóla Íslands. Í heildarsamningi milli Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og stjórnvalda, sem gerður var árið 2014, kom m.a. fram að lóðinni yrði úthlutað til Háskóla Íslands þegar deiliskipulag hefði verið samþykkt og kvaðir verið leystar af lóðinni. Þar er vísað til eldri viljayfirlýsingar vegna lóðarinnar frá 2007 þar sem gert var ráð fyrir að henni yrði úthlutað til Listaháskóla Íslands. Ljóst er að Listaháskólinn hefur ekki lengur þörf fyrir lóðina þar sem ákveðið hefur verið að skólinn muni flytja í Tollhúsið við Tryggvagötu.  

Í viljayfirlýsingunni sem undirrituð var í dag kemur fram að þegar lóðinni að Sturlugötu 9 verður úthlutað til Háskóla Íslands hafi skólinn heimild til að rástafa lóðinni, að hluta til eða öllu leyti, til byggingar áðurnefnds norðurslóðaseturs.

Komi í ljós að norðurslóðasetrið muni ekki að nýta alla lóðina verða þeir hlutar sem ekki heyra undir setrið nýttir fyrir klasa sem hýsa mun vísindafólk, verkefni og fyrirtæki á sviði sjálfbærni-, umhverfis-, auðlinda-, náttúrufars- og loftslagsrannsókna. Gert er ráð fyrir að klasinn verði annaðhvort á forræði Háskóla Íslands eða Vísindagarða Háskóla Íslands og verði í nánum tengslum við þá starfsemi sem nú fer fram í Öskju og aðra starfsemi á svæði Háskóla Íslands og Vísindagarða. 
  
„Það er bæði mikilvægt og spennandi fyrir borgina að Hringborð norðurslóða fái heimili í Vatnsmýrinni. Jafnframt skapast tækifæri til að byggja upp klasa rannsókna og nýsköpunar á sviði sjálfbærrar þróunar í nálægð við Vísindagarða, Öskju og nýja stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Við sjáum mikil tækifæri og samlegð í því að Norðurslóð rísi á svæði Háskóla Íslands í nágrenni við Öskju og Vísindagarða Háskólans. Fyrirhuguð starfsemi fellur einkar vel að starfsemi og stefnu Háskóla Íslands. Um er að ræða vettvang fyrir alþjóðlega og innlenda samræðu og samvinnu um málefni norðurslóða og þýðingu þeirra fyrir framtíð jarðarinnar. Jafnframt verður þetta öflugur vettvangur fyrir alþjóðlegt og innlent vísinda- og nýsköpunarsamstarf í þágu norðurslóða, loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar. Þetta er því í senn bæði áhugavert og spennandi," segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson rektor handsala viljayfirlýsinguna.