Skip to main content
10. desember 2021

Andi aðventunnar í HÍ

Andi aðventunnar í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (10. desember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Núna í hádeginu mun andi aðventunnar taka völdin í Háskóla Íslands þegar söngkonurnar Marína Ósk og Stína Ágústs flytja jólalög ásamt hljómsveit á Litla Torgi. Það verður án vafa ævintýri líkast að njóta tónanna á torginu en þeir verða líka í beinu streymi sem gerir öllum kleift að horfa og hlusta, ekki aðeins beint heldur einnig í upptöku eftir á. Mörg eiga í miklum önnum vegna prófa þessa dagana en vonandi geta sem flest ykkar litið andartak upp úr bókunum og notið lifandi tónlistar. Nám verður sjaldnast tekið með áhlaupi heldur helgast árangur í prófum af allri þeirri góðu vinnu sem þið hafið lagt á ykkur í haust og vetur og af mikilvægum undirbúningi ykkar fyrir prófin sjálf. Ég óska ykkur öllum góðs gengis í vinnu við lokaprófin, kæru nemendur og kennarar.

HÍ er rannsóknaháskóli sem leggur þunga á öflugt og alþjóðlegt doktorsnám enda leikur það mikilvægt hlutverk í þeim framförum sem byggjast á rannsóknum innan skólans. Í nýrri heildarstefnu HÍ er áhersla á að efla enn frekar doktorsnám við skólann. Liður í því átaki er stofnun sérstaks embættis umboðsmanns doktorsnema við skólann sem veita mun hlutlausa ráðgjöf og aðstoð varðandi viðfangsefni sem náminu tengjast. Umboðsmaðurinn mun einnig leita lausna með doktorsnemum varðandi hugsanlegan vanda sem upp kann að koma í framvindu námsins. Þetta eru mikilvæg framfaraspor í anda nýju stefnunnar þar sem markmiðið er að styrkja rannsóknanám og tryggja að skólinn sé góður vinnustaður okkar allra.

Nýstofnaður Menntarannsóknasjóður mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur nú úthlutað styrkjum í fyrsta skipti. Sjóðurinn er vistaður hjá Rannís og styður hann hagnýtar menntarannsóknir á yngri skólastigum og í frístundastarfi. Hann hefur það að markmiði að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og umbóta í skólastarfi. Menntavísindi eru afar mikilvæg fyrir framþróun menntakerfisins. Sjaldan hafa rannsóknir á þessu sviði skipt okkur jafnmiklu enda lifum við mjög örar þjóðfélagsbreytingar og undraverðar tækniframfarir á flestum sviðum sem breyta miklu við kennslu og miðlun. Tveir starfsmenn og tveir doktorsnemar af þremur fræðasviðum Háskóla Íslands hlutu á dögunum styrki í mikilli samkeppni úr Menntarannsóknasjóði til rannsókna sem snerta m.a. nemendur með fjölbreyttan tungumálabakgrunn, brottfall úr framhaldsskólum og styttingu námstíma til stúdentsprófs, allt verulega mikilvægar áskoranir á sviði menntunar. Ég óska styrkþegunum fjórum innilega til hamingju með styrkina sem nema tæplega 73 milljónum króna.

Síðasti fundur háskólaráðs á starfsárinu var haldinn í gær þar sem fjallað var um fjármál, framkvæmdir og skipulagsmál skólans. Endanleg niðurstaða um fjárveitingar til skólans bíður þess að Alþingi samþykki fjárlög. Að þeirri niðurstöðu fenginni mun háskólaráð afgreiða skiptingu fjárframlaga innan skólans á fundi sínum um miðjan janúar.

Mörg sem lagt hafa leið sína á Háskólatorg í vikunni hafa tekið eftir hraðprófsstöð sem þar hefur verið sett upp vegna COVID-19. Starfsemin fer einkar vel af stað en með því að opna stöðina vill HÍ veita góða þjónustu á einhverjum stærsta vinnustað landsins ásamt því að stuðla að enn betri sóttvörnum og auknu öryggi okkar allra. Einfalt er að bóka hraðpróf á covidtest.is eða hradprof.is, en það tekur einungis 15 sekúndur að taka sýni. Munum að fylgja sóttvarnareglum, um leið og við gætum að eigin öryggi hugum við að öryggi allra annarra.

Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Jólahátíðin er í nánd og ljósin vakna eitt af öðru í gluggum og görðum húsanna. Hleypum birtunni að okkur núna þegar skammdegið er hvað ákafast. Hugum hvert að öðru og förum að öllu með gát.

Góða helgi,

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

aðalbygging Hí