Hvað kennir kófið okkur um tækifæri framhaldsskólanema til náms?
„Fræðimenn hafa bent á ákveðin einkenni skólakerfa sem eru líkleg til að vera betur í stakk búin til að takast á við breytingar eins og þær þegar skólahúsum var skyndilega lokað og nám nemenda fluttist heim til þeirra. Meðal einkenna þessara kerfa er jöfnuður. Þó svo að mælingar og alþjóðlegur samanburður bendi almennt til þess að jöfnuður sé mikill í íslensku skólakerfi eru ákveðnir þættir sem þurfa sérstaka skoðun. Ég hef áhuga á að rannsaka þessa þætti,“ segir Ómar Örn Magnússon, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann tekur þátt í viðamiklu rannsóknarverkefni innan sviðsins þar sem skoðað er hvernig skólafólk í framhaldsskólum, nemendur og foreldrar löguðu sig að breyttum veruleika í einu vetfangi vegna kórónuveirufaraldursins.
Verkefnið ber heitið Framhaldsskólinn á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun og fékk Rannísstyrk í janúar 2021 (nr. 217900-051). Í því er ekki bara ætlunin að skoða hvaða áhrif þessi nýi veruleiki hafði á skólafólk, nemendur og foreldra heldur einnig hvaða langtímaafleiðingar hann mun hafa. „Mín rannsókn er hluti af því verkefni,“ bætir Ómar við en hann nýtur leiðsagnar Guðrúnar Ragnarsdóttur, dósents á Menntavísindasviði, sem leiðir verkefnið ásamt Súsönnu Margréti Gestsdóttur, lektor á sviðinu. Auk þeirra þriggja kemur hópur fræðimanna og doktors- og meistaranema að verkefninu ásamt tveimur erlendum fræðimönnum.
Hvaða þættir stýra möguleikum fólks til að nýta námstækifæri?
Verkefni Ómars snýst ekki síst um að rannsaka hvort félagslegt réttlæti í skólakerfum hafi áhrif á það hvernig nemendum tekst að fást við krefjandi ástand faraldursins. „Markmiðið með mínum hluta í rannsókninni er að kafa undir yfirborðið þar sem athygli er beint að því hvernig möguleikar nemenda til að nýta þau tækifæri til náms sem þeim bjóðast eru misjafnir. Í almennri umræðu er jöfnuður í námi oft skilgreindur út frá tækifærum sem öllum eða flestum bjóðast óháð aðstæðum. Mín rannsókn snýst um að nota þau gögn sem þegar hefur verið aflað með spurningalistum og viðtölum til að greina hvort nemendur hafi haft mismunandi möguleika til að nýta þessi tækifæri,“ útskýrir Ómar.
Hann bætir við að gögnin máti hann við kenningar og hugmyndir fræðimannsins Basil Bernstein um rétt allra nemenda til náms. „Bernstein bendir á að til að ná árangri í námi er mikilvægt að nemendur átti sig á því til hvers er ætlast af þeim og séu færir um að framkvæma það sem ætlast er til af þeim. Samkvæmt Bernstein er hin stýrandi orðræða, sem segja má að séu allar óskrifuðu reglurnar í skólastarfinu, til þess fallin að mismuna nemendum og viðhalda stéttaskiptingu. Bernstein benti einnig á að því mætti breyta meðal annars með því að tryggja að skilaboð hinnar stýrandi orðræðu séu sýnileg og skiljanleg öllum og að tryggður sé stuðningur fyrir þá sem hann þurfa. Það er mikilvægt að greina hvaða þættir það eru sem hafa áhrif í þessu samhengi,“ segir Ómar enn fremur og bætir við að þessa þætti nefni hann breytiþætti samkvæmt kenningu Amartya Sen um svokallaða færnisaðferð. „Breytiþáttur er skilgreindur sem mikilvægt atriði sem getur haft áhrif á möguleika nemanda til að nýta sér þau tækifæri til náms sem honum býðst.“Rannsóknaverkefnið stóra hófst í fyrra en Ómar gekk til liðs við rannsóknarhópinn sem doktorsnemi nú á vordögum. „Fyrsta fasa gagnaöflunar er lokið og erum við byrjuð að vinna úr þeim hluta. Í upphafi voru þrír framhaldsskólar valdir til þátttöku og gagna aflað með spurningalistakönnunum meðal starfsfólks framhaldsskóla, nemenda og foreldra og viðtölum við nemendur, foreldra, kennara, náms- og starfsráðgjafa og stjórnendur þessara þriggja skóla. Þau gögn sem ég hef mest skoðað til þessa eru nemendagögn en ég mun nota öll fyrirliggjandi gögn við mína rannsókn og mun að auki afla frekari gagna,“ segir Ómar um doktorsverkefni sitt.
„Þó svo að rannsóknin miði að því að greina og varpa ljósi á félagslegt réttlæti í námi á tímum COVID-19 munu niðurstöðurnar geta nýst almennt í stefnumótun í menntamálum sem miðar að því að allir nemendur hafi sömu möguleikana til að nýta þau tækifæri sem í boði eru. Það er mjög mikilvægt að skólayfirvöld hafi sérstaklega í huga mismunandi stöðu nemenda þegar ákvarðanir eru teknar um skipulag náms og kennslu,“ segir Ómar. MYND/Kristinn Ingvarsson
Nemendur sem eiga ekki foreldri sem talar íslensku standa verst að vígi
Ómar kynnti ásamt samstarfsfólki fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar á hinni árlegu ráðstefnu Menntavísindasviðs, Menntakviku, á dögunum. „Breytiþátturinn sem ég skoðaði í þessari umferð er hversu mikla eða litla aðstoð nemendur fengu heima við heimanámið meðan á fjarnámi stóð. Niðurstöðurnar benda til þess að marktækur munur sé á svörum nemenda eftir bakgrunni en hann var skilgreindur annars vegar út frá menntun foreldra og hins vegar út frá móðurmáli nemenda og foreldra. Báðir þættir hafa áhrif. Sterkari fylgni reyndist þó vera á milli móðurmáls nemenda og foreldra þeirra og hvort þeir þurftu aðstoð við heimanám en á milli menntunar foreldra og þeirrar aðstoðar sem nemendur þurftu við heimanám. Nemendur sem eiga ekki foreldri sem talar íslensku standa verst að vígi og nokkuð mikill munur er á þeim sem eiga eitt foreldri sem talar íslensku og hinum sem eiga ekkert foreldri sem talar íslensku. Þegar tengslanet þeirra er skoðað í gegnum gögnin sést að þeir leita helst til jafningja eftir aðstoð við námið. Það geta verið systkini eða vinir,“ segir Ómar sem segist einnig munu skoða stöðu nemenda sem standa höllum fæti í náminu eða glíma við aðrar áskoranir. „Seinna mun ég horfa til atriða sem virðast hafa áhrif, eins og skipulags skólastarfs og áhrif þess á jafnræði nemenda.“
Niðurstöður nýtast í stefnumótun í menntamálum
Þegar Ómar er inntur eftir þýðingu niðurstaðnanna stendur ekki á svari. „Þó svo að rannsóknin miði að því að greina og varpa ljósi á félagslegt réttlæti í námi á tímum COVID-19 munu niðurstöðurnar geta nýst almennt í stefnumótun í menntamálum sem miðar að því að allir nemendur hafi sömu möguleikana til að nýta þau tækifæri sem í boði eru. Það er mjög mikilvægt að skólayfirvöld hafi sérstaklega í huga mismunandi stöðu nemenda þegar ákvarðanir eru teknar um skipulag náms og kennslu. Ekki er nóg að einblína á að bjóða öllum nemendum jöfn tækifæri heldur þarf einnig að huga að því að útfæra starf skóla þannig að allir nemendur hafi jafna möguleika á að nýta þau tækifæri sem þeim bjóðast,“ segir Ómar að lokum.