Skip to main content
13. október 2021

Á annað hundrað þátttakenda frá HÍ á Arctic Circle

Á annað hundrað þátttakenda frá HÍ á Arctic Circle - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á annað hundrað manns frá Háskóla Íslands tekur þátt í hinu árlega þingi Hringborðs norðurslóða eða Arctic Circle sem fram fer í Hörpu dagana 14.-17. október. Þeirra á meðal eru um 80 nemendur sem sótt hafa sérstakt námskeið í Háskóla Íslands sem tengist ráðstefnunni.

Þingið eða ráðstefnan hefur fyrir löngu unnið sér sess sem ein sú stærsta í heiminum á sviði norðurslóða. Hún hefur í gegnum tíðina dregið að sér áhrifafólk úr stjórnmálum, efnahagslífi, háskólum, félagasamtökum og minnihlutahópum úr öllum heimshornum. Upphafsmaður ráðstefnunnar er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og prófessor við Háskóla Íslands, og hefur hún verið haldin í Hörpu allt frá árinu 2013, að undanskildu síðasta ári þegar ráðstefnunni var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. 

Markmiðið Hringborðs norðurslóða og ráðstefnunnar er að stuðla að bæði samtali og samstarfi um framtíð og þróun norðurskautsins, en talið er að mikilvægi norðurslóða muni aukast á næstu áratugum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. 

Dagskráin er þéttskipuð í Hörpu en Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og Verkfræðistofnun Háskólans taka forskot á sæluna með viðburði utan dagskrár ráðstefnunnar þann 13. október í Hátíðasal Háskólans. Þar verður rætt um hreinsun og förgun koltvíoxíðs úr lofti og útblæstri stóriðju- og orkuvera.

Vísindafólk skólans lætur þar mikið að sér kveða og ekki síður á sjálfri ráðstefnunni þar sem boðið verður upp á yfir 100 málstofur með yfir 400 fyrirlesurum. Meðal þess sem fræðafólk Háskólans ræðir á ráðstefnunni eru mikilvægi þverfræðilegs samstarfs í baráttunni við loftsagsbreytingar, jarðhræringar á norðurslóðum, viðhorf Íslendinga til alþjóðasamstarfs, þjóðaröryggi og erlendar risafjárfestingar og nýsköpun á norðurslóðum. Yfirlit yfir þátttöku fræðafólks Háskólans má finna hér.

Áttatíu manna hópur nemenda í námskeiði innan umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands mun einnig taka þátt í ráðstefnunni en boðið hefur verið upp á námskeiðið undanfarin ár og hefur það notið mikilla vinsælda enda er það opið nemendum á öllum fræðasviðum HÍ. 

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í málefni norðurslóða út frá sínu fræðasviði, að nemendur öðlist þekkingu á samspili svæðisbundinna stjórna og ríkisstjórna, frjálsra félagasamtaka og almennings auk mikilvægi efnahagslegra og samfélagslegra þátta í málefnum norðurslóða. Einnig eiga nemendur að loknu námskeiðinu að geta metið hentugleika mismunandi aðferða við greiningu og flókin vísindaleg viðfangsefni fyrir rannsóknir og ákvarðanatöku tengdri málefnum norðurslóða. Með nemendum í för eru svo stór hópur kennara, alls 10 manns, sem undirstrikar þverfræðileika námskeiðsins. 

Háskóli Íslands verður einnig með bás á sýningarsvæði ráðstefnunnar þar sem gestir og gangandi geta m.a. kynnt sér ólíkar hliðar norðurslóðarannsókna í Háskóla Íslands, ýmist í spjalli við starfsfólk og nemendur eða á myndböndum.

Dagskrá Arctic Circle ráðstefnunnar í heild sinni má finna hér.
 

Nemendur í námskeiði tengt Arctic Circle