Mikill áhugi fyrir raunfærnimati í leikskólakennarafræði
Um áttatíu manns sóttu kynningarfund sem haldinn var á dögunum um raunfærnimat í grunnnámi í leikskólakennarafræði en með því á meðal annars að meta starfsreynslu til styttingar á námi.
Um er að ræða þróunarverkefni við að innleiða raunfærnimat á háskólastigi og er leikskólakennarafræði fyrsta námsleiðin innan skólans sem tekur upp slíkt mat. Námsleiðin varð fyrir valinu þar sem námið býður upp á góða möguleika til raunfærnimats, mikil þörf er á að mennta fleiri leikskólakennara og margir sem starfa við fagið hafa reynslu en skortir menntun.
Raunfærnimat byggist á því að nám og söfnun þekkingar eigi sér ekki eingöngu stað innan hins formlega skólakerfis heldur einnig með starfsreynslu, frístundanámi, félagsstörfum, lífsreynslu, fjölskyldulífi og við alls konar aðstæður og í ýmsu samhengi. Með því að meta raunverulega færni einstaklings er hægt að koma í veg fyrir að hann þurfi að sækja nám í því sem hann þegar kann. Um leið er raunfærnimatið aðferð til að gefa einstaklingum tækifæri til að fá þekkingu sína og færni metna til styttingar á námi. Umsækjendur sem fara í gegnum raunfærnimat þurfa þó að uppfylla sömu hæfniviðmið námskeiða eins og þeir sem sitja námskeiðin og taka skrifleg próf.
Á kynningarfundinum var m.a. fjallað um hvað felst í raunfærnimati, farið yfir matsferlið og hverjir geta sótt um að fara í raunfærnimat. Að þessu sinni stendur nemendum á 1. og 2. ári í grunnnámi í leikskólakennarafræði til boða að fara í raunfærnimat að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hið sama gildir um nemendur á 3. námsári sem eiga eftir námskeið á 2. ári eða á haustmisseri 3. árs.
Nánari upplýsingar um raunfærnimat má finna á vef Menntavísindasviðs
og upptaka af kynningarfundinum er aðgengileg á YouTube.