Skip to main content
27. ágúst 2021

Við erum öll HÍ

 Við erum öll HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (27. ágúst):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú er starfið í Háskóla Íslands að hefjast af krafti og það er ótrúlega gleðilegt að sjá lífið færast að nýju í allar byggingar á háskólasvæðinu. Það er líka ánægjuefni að sjá hversu afgerandi er að fólk fylgir sóttvarnarreglum. Í þeim efnum skiptir þátttaka hvers og eins miklu en einstaklingsbundnar sóttvarnir geta hreinlega ráðið úrslitum við að hamla dreifingu veirunnar. 

Í raun erum við með þessar meginreglur innan skólans:

  • Nándarmörk eru 1 metri. 
  • Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að hafa 1 metra milli einstaklinga. 
  • Til að minnka smithættu er eindregið mælst til þess að fólk beri grímur á göngum skólans, en gangar eru hluti af ferðarými.
  • Um leið og sest er inn í kennslustofu má taka niður grímuna þótt nánd sé minni en 1 metri.
  • 200 manns mega að hámarki vera í sama rými. 

Nú þegar skólastarfið hefst af krafti er auðvitað námið sjálft í forgrunni. En það er að mörgu að hyggja, ekki síst fyrir þau ykkar sem eru að stíga fyrstu skrefin í háskólanámi. Við viljum taka ykkur opnum örmum enda er Háskóli Íslands opið og fjölbreytt samfélag náms og rannsókna. Nýnemakynningar fara nú fram víða um skólann og nýnemadagar hefjast á mánudag með eins fjölbreyttri dagskrá og kostur er miðað við ástandið í samfélaginu. Ég hvet ykkur, kæru nýnemar, til að skoða nýnemagáttina á vefsvæði skólans, en þjónustueiningarnar eru líka opnar bæði í byggingum og í netspjalli á vefnum. Ekki hika við að spyrja samnemendur eða starfsfólk um leiðbeiningar varðandi húsakynni og starfið í skólanum. Við erum öll boðin og búin að rétta ykkur hjálparhönd. 

Margir hafa verið í óvissu varðandi viðbrögð ef smit koma upp í skólanum. Landlæknir hefur nú gefið út leiðbeiningar um sóttkví í skólastarfi. Samkvæmt þeim munu þau sem voru í sama hólfi og smitaður einstaklingur, t.d. í sömu kennslustofu, ýmist þurfa að sæta sóttkví, smitgát eða einkennavarúð eftir því hversu mikilli nándin var við hinn smitaða. 

Í Háskóla Íslands eru kennslustofur vel loftræstar. Þegar þannig hagar til þurfa því ekki allir sem sótt hafa sama tíma og smitaður einstaklingur að fara í sóttkví. Til að átta okkur á nánd í tímum leggur HÍ nú lokahönd á rafrænt skráningarkerfi þar sem þið, kæru nemendur, getið með einfaldri skönnun QR kóða skráð staðsetningu ykkar í kennslurými. Þetta tilraunarúrræði verður kynnt á allra næstu dögum.

Rannsóknir hafa ítrekað staðfest mikilvægi bólusetninga en með þeim er ekki einungis dregið úr líkum á smiti heldur einnig alvarlegum veikindum og innlögn á sjúkrahús. Ég hvet því öll ykkar sem ekki hafa farið í bólusetningu til að gera það eins skjótt og nokkur er kostur. 

Háskóli Íslands er opinn og alþjóðlegur rannsóknaháskóli sem nýtur virðingar víða um heim. Við eigum í frjóu samstarfi við öflugar menntastofnanir um allan heim og þess vegna eru erlendir vísindamenn og kennarar aufúsugestir sem veita okkur innblástur og styrkja skólann í sókn í alþjóðlegri samkeppni. Nú þegar starfið hefst af krafti eigum við von á slíkum gestum hingað á háskólasvæðið. Mælst er til þess að gestir okkar, sem koma erlendis frá, fari í hraðpróf eða skimun áður en þeir koma á háskólasvæðið. Þetta er til að tryggja öryggi allra.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Horfum björtum augum til vetrarins. Við munum í sameiningu gera allt til að skapa þann einstaka anda sem einkennir hér nám og starf. Andinn er hvorki eins manns verk né myndast hann af sjálfu sér. HÍ-andinn skapast ekki bara í námi og rannsóknum, heldur í samræðu og samstarfi allra sem hér nema og starfa. Saman sköpum við umhverfi í HÍ þar sem mannlífið blómstrar samtímis því sem við sköpum nýja þekkingu. Við erum nefnilega öll HÍ.

Njótið helgarinnar. 

Jón Atli Benediktsson, rektor.“
 

nýnemar við aðalbyggingu