Háhyrningar hafa stundum verið nefndir úlfar hafsins enda veiða þeir skipulega í hópum og tróna efst í fæðukeðju undirdjúpanna. Þeir bera ógnvænlegt nafn á ensku, ´killer whale´eða drápshvalur, og út frá því mætti álykta að fátt í hafinu gæti raskað ró þeirra. En hvernig stendur þá á því að þeir virðast flýja undan áreitni og hrekkjum grindhvala hér við land, eins og vísindamenn hafa tekið eftir? Að því reynir Anna Selbmann að komast í doktorsverkefni sínu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Um er að ræða fyrstu ítarlegu rannsókna á samskiptum grindhvala og háhyrninga hér við land en stutt er síðan grindhvalir fóru að venja komur sínar til Vestmannaeyja með reglubundnum hætti. Þaðan sinnir Anna rannsóknum sínum. „Markmið rannsóknarinnar er ekki síst að kanna hvaða hlutverk hljóð gegna í samskiptum þessara tveggja dýrategunda en rannsóknartilgáta mín er sú að þau skipti miklu máli,“ segir Anna, sem hyggst m.a. kanna hvort breytingar verði á köllum háhyrninga í nánd við grindhvali og hvort munur er á hljóðum og hljóðröðum háhyrninga á ólíkum stöðum í kringum landið.
Tungumál háhyrninga hér ólíkt tungumáli norskra háhyrninga
Anna er alls ekki ókunn slíkum hljóðrannsóknum því í meistaranámi sínu við líffræði við Háskóla Íslands rannsakaði hún köll háhyrninga við Íslandsstrendur og bar þau saman við köll háhyrninga annars staðar í Norður-Atlantshafi. Afrakstur þeirra rannsókna var m.a. nákvæm lýsing á kallaefnisskrá háhyrninga við Ísland. „Við komumst meðal annars að því að háhyrningar hér við land nýta að hluta til sömu köll og tegundarsystkin þeirra við Hjaltland en ekki þau sömu og háhyrningar við Noregsstrendur,“ segir hún og bætir við að meistaraverkefnið hafi kveikt mikinn hjá henni á samskiptakerfi háhyrninga. „Það hversu kerfið er flókið undirstrikar hvað hljóðsamskipti eru mikilvæg þessum dýrum,“ segir Anna sem hefur einnig birt vísindagrein um málið ásamt samstarfsfólki.
Myndin sýnir dæmigerða upptökur af hljóðum háhyrninga sem reynast öðruvísi hér við land en við Noregsstrendur
Það var við þessar rannsóknir sem hún varð fyrst vör við samskipti grindhvala og háhyrninga hér við land. Hún segir þau í senn töfrandi og torskilin. „Það virðist óhugsandi að dýr eins og háhyrningar, sem sitja efst í fæðuvef hafsins, forðist aðra hvali og flýi þá jafnvel á ógnarhraða. Þetta vekur margar spurningar: Hvers vegna eru grindhvalir að áreita háhyrninga? Er þetta samkeppni um fæðu eða einelti? Hvað vekur þessi viðbrögð hjá háhyrningum og hver eru áhrif þessara samskipta á tegundina?“ spyr Anna. Hún bætir jafnframt við að hljóðsamskipti gegni mikilvægu hlutverki hjá báðum tegundum og því sé eðlilegt að spyrja hvaða rullu það spili í samskiptum þeirra í millum og hvort skýra megi hegðun háhyrninganna út frá því.
Rannsóknirnar vinnur Anna undir leiðsögn Filipu Samarra, sem tók nýverið til starfa sem sérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra HÍ í Vestmannaeyjum, Jörundar Svavarssonar, prófessor við Háskóla Íslands, og Paul Wensveen, nýdoktor við skólann. Þá vinnur hún einnig með vísindamönnum frá CEREMA-stofnunni í Strassborg og Háskólanum í St. Andrews í Skotlandi. „Þátttakendur frá samtökunum Earthwatch koma einnig að bæði vettvangsvinnu og gagnaöflun,“ segir Anna sem hlaut doktorastyrk úr Rannsóknasjóði Rannís til verkefnisins.
Anna Selbmann doktorsnemi að störfum í Vestmannaeyjum. „Við fylgjumst með dýrunum bæði af landi og sjó. Við notum hornamæli til þess að fylgjast með hvalahópum frá Stórhöfða í Vestmanaeyjum en þar er afar gott útsýni yfir rannsóknasvæðið. Við nýtum svo báta til þess að komast nær einstökum hvalahópum og kanna t.d. hversu margir þeir eru, aldurssamsetningu hópsins og hverjir taka þátt í samskiptunum,“ segir hún.
Spila upptökur af grindhvalahljóðum fyrir háhyrninga
Rannsóknirnar fara að sögn Önnu fram með athugunum frá landi, úr rannsóknabátum og með nýjasta tækjabúnaði sem völ er á til rannsókna sem þessara. „Til þess að átta okkur á eðli samskipta grindhvala og háhyrninga og hversu tíð þau eru fylgjumst við með dýrunum bæði af landi og sjó. Við notum hornamæli til þess að fylgjast með hvalahópum frá Stórhöfða í Vestmanaeyjum en þar er afar gott útsýni yfir rannsóknasvæðið. Hornamælirinn gefur okkur færi á að fylgjast nákvæmlega með hvar hvalirnir eru og hvert þeir fara. Við nýtum svo báta til þess að komast nær einstökum hvalahópum og kanna t.d. hversu margir þeir eru, aldurssamsetningu hópsins og hverjir taka þátt í samskiptunum,“ segir hún.
Til þess að meta hlutverk hljóða í samskiptum dýrategundanna tveggja styðst hópurinn við upptökur af hljóðum grindhvala sem spilaðar eru neðansjávar nærri háhyrningum. Viðbrögð háhyrninganna eru svo tekin upp með neðansjávarhljóðnemum. „Við styðjumst þar við svokölluð fjölnemamerki sem hafa verið fest á dýrin og nema hljóð, dýpt og hreyfingu þeirra. Út frá þessum ítarlegu mælingum getum við komist að því hvernig háhyrningar hegða sér fyrir, á meðan og eftir að þeir heyra upptökurnar af grindhvalahljóðunum og hvort mikil breyting verður á hegðuninni,“ útskýrir Anna.
Rannsóknarhópurinn að störfum á Stórhöfða. MYND/Anna Selbmann
Hún bætir við að þessar tilraunir gefi þeim jafnframt færi á að kanna hvort breytingar verði á þeim hljóðum sem háhyrningar gefa frá sér nærri grindhvölum. „Ef háhyrningar vilja komast hjá því að grindhvalir taki eftir þeim þá mætti búast við því að þeir breyttu hljóðhegðun sinni þannig að grindhvalir heyrðu síður í þeim, t.d. með því að lækka köllin, breyta þeim eða hætta öllum köllum,“ segir hún.
Sem fyrr segir vinnur hún einnig að því að kanna hvort munur er á kallröðum háhyrninga í kringum landið. Þar styðst hún við gögn sem safnað hefur verið yfir 30 ára tímabil (frá 1986-2016) hér við land. „Þessum gögnum var safnað með neðansjávarhljóðnemum, bæði hljóðnemum sem settir eru niður nærri háhyrningum í skamman tíma og hljóðnemum sem liggja á hafsbotni í nokkrar vikur, og merkjum á hvölunum.
Samskiptin flóknari en áður var talið
Kórónuveirufaraldurinn hefur takmarkað möguleika Önnu og samstarfsfólks til vettvangsrannsókna og því tafið rannsóknina, þar á meðal upptökur á viðbrögðum háhyrninga við grindhvalahljóðum. Anna segir þó bráðabirgðaniðurstöður rannsóknanna benda til að samskipti grindhvala og háhyrninga séu flóknari en áður var talið. „Grindhvalir eru t.d. oft á sama svæði og háhyrningar án þess að vart verði við samskipti þeirra á milli. Stundum láta háhyrningarnir sig bara hverfa og stundum fara grindhvalir að hrella háhyrningana eftir að hafa verið í marga klukkutíma á sama svæði. Þá höfum við líka komist að því að grindhvalir elta bara háhyrninga ef þeir fyrrnefndu eru í stórum hópum. Þetta bendir til þess að samskiptin séu misáköf,“ segir hún.
Grindhvalir á ferð við Vestmannaeyjar. MYND/Sara Tavares
Greining á kallröðum háhyrninga við Íslandsstrendur leiðir enn fremur í ljós að þær eru nánast þær sömu allt í kringum landið. Dýrin halda sig mikið til við Breiðafjörð yfir vetrartímann eins og aðalfæða þeirra, síldin, en við Vestmannaeyjar á sumrin þar sem síldin hrygnir. „Við höfum komist að því að kallaraðir háhyrninga sem teknir hafa verið upp á þessum tveimur stöðum eru nánast þær sömu en þó má finna köll sem aðeins heyrast á öðrum hvorum staðnum. Þetta styður niðurstöður á vöktun á einstökum hvölum (þar sem stuðst er við ljósmyndir af bakuggum dýranna) sem sýna að hluti háhyrningastofnsins við Íslandsstrendur virðist elta síldina árið um kring en annar hluti stofnsins er aðeins hér tímabundið að vetri eða sumri,“ segir hún og bætir við að rannsóknarhópurinn vinni að vísindagrein um niðurstöður þessara rannsókna.
Rannsóknirnar varpa ljósi á möguleg áhrif loftslagsbreytinga
Aðspurð um þýðingu rannsóknanna segir Anna að með þeim verði til ný þekking á því sem knýr áfram samskipti sjávarspendýra og um leið aukinn skilningur á hegðun þessara tveggja tegunda. „Aukin þekking á hljóðsamskiptum tegunda skiptir líka máli út frá hinu víðara samhengi atferlisvistfræðinnar. Rannsóknirnar geta líka nýst fyrir aðrar tegundir sjávarspendýra, sem er sérstaklega mikilvægt í ljósi hlýnunar loftslags. Loftlagsbreytingar geta haft þau áhrif að útbreiðsla tegunda breytist sem þýðir að tegundir sem ekki komust í snertingu hvor við aðra áður fara skyndilega að deila búsvæðum og hafa samskipti. Grindhvalir sáust t.d. ekki reglulega við Vestmannaeyjar hér áður fyrr en eru nú orðnir árvissir gestir þar á sumrin og eiga í samskiptum við háhyrninga. Þessi samskipti geta haft afleiðingar fyrir fæðu- og búsetuval háhyrninga og aukinn skilningur á eðli samskiptanna gefur okkur færi að á meta betur hugsanlegar breytingar í vistkerfinu við Íslandsstrendur.“
Anna bendir jafnframt á að aukin þekking á hvölum hér við land skipti samfélagið máli þar sem bæði löggjöf á Íslandi og alþjóðlegir sáttmálar kveði á um verndun dýra og hafsvæða sem eiga undir högg að sækja vegna ágangs mannsins. „Það er t.d. mjög lítið vitað um það hvernig rándýr efst í fæðuvefnum, eins og háhyrningur, bregst við ógn en upplýsingar um það má líka nýta til þess að skilja betur hvaða áhrif haftengdar athafnir mannsins, t.d. í ferðaþjónusta, skipaflutningar og uppbygging á hafi úti, geta haft á tegundina.“
Hægt er að fylgjast með rannsóknum Önnu og samstarfsfólks hennar á vefnum icelandic-orcas.com