Rómafólk er stærsti minnihlutahópur Evrópu og á rætur að rekja til Indlands segir á Vísindavef Háskóla Íslands. Þar kemur fram að Rómafólk hafi flust búferlum á miðöldum og sest víða að í Evrópu en ekki sé unnt að henda reiður á fjölda þess í álfunni allri. Þó er fullyrt að mögulega búi allt að átta milljónir Rómafólks á meginlandinu.
Í gegnum aldir hefur Rómafólk sætt ofsóknum í álfunni. „Í Englandi á 16. öld ofsótti Hinrik VIII þá sígauna sem ekki vildu gerast bændur og í Rúmeníu voru sígaunar hnepptir í þrældóm af landeigendum og seldir á uppboðum allt til ársins 1856. Á tímum helfararinnar voru allt að 400.000 sígaunar teknir af lífi,“ segir á Vísindavefnum.
Háskóli Íslands tengdist fyrir skemmstu viðamikilli rannsókn á högum Rómafólks í Rúmeníu. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, kom að þessari rannsókn ásamt Lavinia Costea, prófessor við rannsóknastofnun í munnlegri sögu við Babeș-Bolyai háskólann í Cluj-Napoca í Rúmeníu. Costea átti frumkvæðið að rannsóknarverkefninu, en þau Guðmundur störfuðu saman fyrir nokkrum árum í stóru evrópsku rannsóknarneti. Netið fékk þriggja ára styrk úr Uppbyggingasjóði EES til að standa straum af rannsókninni.
„Í rannsókninni voru tekin 600 viðtöl við Rómafólk í Rúmeníu með það í huga að gefa því tækifæri til að greina frá sinni eigin sögu og þá ekki síst af reynslu þess á dögum kommúnistastjórnarinnar á árunum 1948 til 1989,“ segir Guðmundur. „Ætlun okkar sem að rannsókninni stóðum var að gefa Rómafólkinu rödd, en yfirleitt hefur verið horft fram hjá reynslu þess í rúmenskri sagnaritun – það er einfaldlega ekki talið með þegar saga rúmensku þjóðarinnar er skrifuð.“
„Við erum alin upp við þá hugmynd að land, þjóð og tunga myndi sanna og eina þrenningu, en því fer fjarri í Rúmeníu þar sem þjóðin er klofin í hópa sem tala ólík tungumál og telja sig ekki eiga sameiginlega sögu. Ég hef sérhæft mig í rannsóknum á þjóðerni og myndun þjóðríkja í Evrópu og saga Rómafólks í Rúmeníu gefur góða mynd af því hversu erfitt það getur verið fyrir minnihlutahópa að finna sér stað í evrópskum þjóðríkjum nútímans,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði. MYND/Kristinn Ingvarsson
Hvað mótar hugmyndir um þjóðerni?
Guðmundur Hálfdanarson er einn þekktasti fræðimaður landsins á sviði sagnfræði og samfélagslegrar rýni á umbrotatímum enda hefur hann helst einbeitt sér að pólitískri orðræðu í víðum skilningi. Hann hefur því verið talsvert í fjölmiðlum og túlkað viðburði í samtímasögunni, nú síðast í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.
Í rannsóknum sínum hefur Guðmundur skoðað margt sem tengist mótun hugmynda um þjóðerni frá fyrri hluta 19. aldar fram til nútímans og hvernig þær hafa mótað pólitíska vitund fólks bæði á Íslandi og Evrópu. Þetta rannsóknaverkefni fellur því vel að hans helstu áhugasviðum.
Guðmundi fannst verkefnið um hagi Rómafólks strax áhugavert um leið og það barst í tal, „af því að rúmenska þjóðríkið er mjög ólíkt því íslenska. Við erum alin upp við þá hugmynd að land, þjóð og tunga myndi sanna og eina þrenningu, en því fer fjarri í Rúmeníu þar sem þjóðin er klofin í hópa sem tala ólík tungumál og telja sig ekki eiga sameiginlega sögu. Ég hef sérhæft mig í rannsóknum á þjóðerni og myndun þjóðríkja í Evrópu og saga Rómafólks í Rúmeníu gefur góða mynd af því hversu erfitt það getur verið fyrir minnihlutahópa að finna sér stað í evrópskum þjóðríkjum nútímans.“
Guðmundur segir að rannsóknaverkefnið hafi þegar skilað af sér þremur doktorsritgerðum og í undirbúningi sé safn ritgerða eftir þátttakendur í rannsókninni. „Þessar rannsóknir sýna að Rómafólk er mjög fjölbreyttur hópur og þær staðalmyndir sem margir hafa af flakkandi og betlandi sígaunum á aðeins við lítinn hluta þess.“
Guðmundur segir engan vafa leika að rannsóknin muni auka skilning á sögu og menningu evrópsks minnihlutahóps sem þurft hafi að berjast við fordóma og mismunun í aldaraðir.
„Fyrir Íslendinga er hollt að gera sér grein fyrir að þjóðir eru flókin fyrirbæri,“ segir Guðmundur sem starfaði lengi sem forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar um rannsóknaferil Guðmundar er að finna á Vísindavef Háskóla Íslands.