Rósa nýr forseti sviðsráðs stúdenta
„Embættið leggst ótrúlega vel í mig. Ég er í samstarfi við öfluga einstaklinga sem hafa ólíkar skoðanir og kröftugar raddir. Einnig höfum við tvo reynslubolta innanbúðar sem hafa áður setið í sviðsráðinu. Það sakar ekki að taka við af forvera mínum, Magdalenu Katrínu Sveinsdóttur, sem vann frábær störf í þágu nemenda,“ segir Rósa Halldórsdóttir, nemi í þroskaþjálfafræði og nýkjörinn forseti sviðsráðs stúdenta á Menntavísindasviði.
Á öllum fimm fræðasviðum Háskólans eru starfrækt sviðsráð sem sinna hagsmunamálum nemenda. Sérhvert sviðsráð kýs forseta og ritara ár hvert en kosning á Menntavísindasviði fór fram á síðasta skiptafundi ráðsins.
Eftirfarandi fulltrúar skipa nýtt sviðsráð Menntavísindasviðs:
- Rósa Halldórsdóttir, nemi í þroskaþjálfafræði, forseti
- Rannveig Klara Guðmundsdóttir, nemi í grunnskólakennarafræði
- Erlingur Sigvaldason, nemi í grunnskólakennarafræði
- Hera Richter, nemi í grunnskólakennarafræði
- Sóley Arna Friðriksdóttir, nemi í leikskólakennarafræði
Helstu verkefni sviðsráðs snúast fyrst og fremst um hagsmunamál stúdenta og vinna að því að bæta aðstöðu á sínu sviði. „Við viljum halda áfram á þeirri vegferð sem fyrrum sviðsráð var á og efla frekar það góða samstarf sem við nemendur höfum átt við starfsfólk Menntavísindasviðs. Þegar skólastarf hefst að nýju í haust eftir langt og erfitt tímabil sem litað var af samkomutakmörkunum, teljum við mikilvægt að skoða hvernig tæknin getur haldið áfram að nýtast okkur í skólastarfi. Þetta á sér í lagi við um fjarnema við Háskólann. Enn fremur viljum við halda áfram að styðja við nemendur í starfstengdu námi fyrir fólk með þroskahömlun og berjast fyrir því að þeir fái að stunda fjölbreyttara nám,“ segir Rósa að endingu.
Þess má geta að forsetar allra sviðsráða Háskólans mynda stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Sviðsráð Menntavísindasviðs á Facebook.