Rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík tekið til starfa
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík var opnað formlega í gær, á þjóðhátíðardaginn. Við sama tækifæri var undirritaður samstarfssamningur milli setursins og Fjarðabyggðar og er markmið samningsins að efla þekkingar- og rannsóknarstarf í sveitarfélaginu, sem og í landsfjórðungnum öllum. Skv. samningnum styrkir Fjarðabyggð rannsóknasetrið um 10 milljónir kr. á næstu fjórum árum, auk þess sem Háskóli Íslands leigir Gamla kaupfélagið á Breiðdalsvík af sveitarfélaginu undir starfsemina.
Jón Björn Hákonarsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Tobias Björn Weisenberger, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík, undirrituðu samstarfssamning á opnunarhátíðinni. MYND: Amel Barich.
Við rannsóknasetrið verður lögð áhersla á rannsóknir í jarðvísindum og málvísindum. Starfsemin byggir á grunni Breiðdalsseturs, sem stofnað var fyrir rúmum áratug, í þeim tilgangi að halda á lofti arfleið breska jarðfræðingsins George Walker og málvísindamannsins Stefáns Einarssonar, sem fæddur var í Breiðdal. George Walker var brautryðjandi í rannsóknum á jarðfræði Austurlands og Stefán var lengi prófsesor í málvísindum við Johns Hopkins háskólann í Boston og stundaði að auki rannsóknir á íslenskum bókmenntum.
Við setrið starfa þau dr. Tobias Björn Weisenberger, forstöðumaður setursins, sem áður starfaði sem jarðefnafræðingur hjá ÍSOR, og María Helga Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri. María Helga er með meistarapróf í jarð- og umhverfisfræðum og mun hún hafa umsjón með borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem varðveitt er hjá rannsóknasetrinu á Breiðdalsvík.
Þá mun Arna Silja Jóhannsdóttir, þjóðfræðingur, starfa við setrið í sumar sem umsjónarkona sumarsýningar rannsóknasetursins, sem jafnframt var opnuð formlega í gær. Á sýningunni má fræðast um jarðfræði Austurlands og er hún opin almenningi frá kl. 12-16 sunnudaga til fimmtudags frá 20. júní. Lokað verður á föstudögum og laugardögum. Stærri hópar geta haft samband, óski þeir eftir að skoða sýningunna utan opnunartíma.
Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er meðal annars að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélög setranna. Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Með tilkomu rannsóknarsetursins á Breiðdalsvík eru rannsóknasetur Háskóla Íslands orðin tíu talsins, auk starfsemi í Vestmannaeyjum.