Próflok – Sumarnám og sumarstörf í boði hjá Háskóla Íslands
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (14. maí):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Þrátt fyrir að vorið hafi verið með svalasta lagi er sumar í vændum. Skýrt merki þess eru lokin á almennu prófatímabili vormisseris í Háskóla Íslands. Framkvæmd prófanna tókst afar vel og vil ég nota tækifærið og þakka ykkur öllum, nemendum og starfsfólki, fyrir ótrúlegan sveigjanleika í tengslum við lokaprófin. Samstaða ykkar er ekki sjálfgefin en hún skipti miklu varðandi framkvæmd prófanna við þær flóknu aðstæður sem nú eru uppi. Framundan eru sjúkra- og upptökupróf ásamt júníbrautskráningunni árvissu. Eftir því sem bólusetningum vindur fram aukast líkur á frekari afléttingu samkomutakmarkana. Fari allt að óskum stefnum við að því að brautskráningin fari fram í Laugardalshöll eins og vant er. Munum öll að sóttvarnirnar byrja hjá okkur sjálfum og hugum því stöðugt að einstaklingsbundnum sóttvörnum.
Á morgun verður sett hér í Háskóla Íslands viðamikil ráðstefna norðurslóða. Ráðstefnan, sem stendur yfir frá 15. til 18. maí, er skipulögð af íslenskum háskólastofnunum sem aðild eiga að University of the Arctic (UArctic), alþjóðlegum samtökum háskóla á norðurslóðum. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í Jarðvísindadeild HÍ situr nú í stjórn UArctic, fyrstur Íslendinga. Við setninguna flytja Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Outi Snellman, varaforseti UArctic, ávörp ásamt mér, en Halla Hrund Logadóttir frá Belfer Center, Harvard háskóla og verðandi orkumálastjóri halda lykilerindi. Á þriðja hundrað fyrirlestrar verða fluttir á ráðstefnunni um málefni norðurslóða, með sérstakri áherslu á loftslagsmál, mannlíf og samfélög á norðurslóðum. Ég hvet öll, og ekki síst ykkur kæru nemendur, til að taka þátt í þessum merkisviðburði en nemendur geta skráð sig að kostnaðarlausu.
Sumarnám við Háskóla Íslands hefur nú verið auglýst og má sjá ríkulegt framboð á heimasvæði skólans. Með sumarnámi bregst Háskóli Íslands áfram við aðstæðum í samfélaginu í kjölfar kórónaveirufaraldursins og er boðið upp á sumarnám á öllum fræðasviðum skólans. Mörg námskeiðanna eru öllum opin en sum henta sérstaklega núverandi nemendum og öðrum sem hyggja á háskólanám eða þeim sem vilja efla færni sína. Á heimasvæði skólans má finna fjölbreytt svör við fjölmörgum spurningum um fyrirkomulag sumarnámsins. Það er alveg rakið að nýta sumarið til að styrkja sig í námi en skráning í hefst þann 17. maí.
Háskóli Íslands býður á svipaðan hátt og í fyrra fjölmörg sumarstörf fyrir námsfólk en með því tekur skólinn þátt í átaksverkefni stjórnvalda til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsfólk. Störfin eru boðin í samstarfi við Vinnumálastofnun og er hægt að sækja um þau á heimasvæði stofnunarinnar.
Í ljósi þess að breyting hefur verið gerð á lögum um opinbera háskóla sem snerta inntöku í háskóla vil ég benda á að lagabreytingin hefur ekki áhrif á inntökukröfur í Háskóla Íslands fyrir næsta skólaár, 2021-2022. Háskóli Íslands skoðar nú hvort og þá hvernig endurskoða megi inntökukröfur í einstakar deildir í ljósi nýju laganna. Sú vinna er hluti af viðameiri endurskoðun á inntökuskilyrðum Háskóla Íslands sem gert er ráð fyrir að ljúki á næsta haustmisseri.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Njótum birtunnar og alls þess sem nú vaknar í íslenskri náttúru. Gleði, frelsi, friður, ró – faðmar allt í grænum mó, orti skáldkonan Hulda.
Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor.“