Tvær einingar HÍ stíga græn skref
Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands (RLE) og Félagsvísindasvið skólans fengu nýverið viðurkenningu frá Umhverfisstofnun fyrir að hafa tekið Græn skref í ríkisrekstri sem miða m.a. að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins.
Grænu skrefin eru fimm og við innleiðingu þeirra hjá stofnunum ríkisins er tekið mið af gátlistum sem þarf að uppfylla. Veittar eru viðurkenningar fyrir hvert grænt skref að undangenginni úttekt á vegum Umhverfisstofnunar. Aðalbygging hlaut í upphafi árs viðurkenningu fyrir að hafa lokið þremur skrefum af fimm og RLE og Félagsvísindasvið bætast nú í hópinn þeirra starfsstöðva skólans sem stíga skref í átt að umhverfisvænni rekstri.
Fram kemur á vef Grænna skrefa að starfsfólk RLE hafi staðið sig afar vel í umhverfisstarfi en það megi m.a. þakka því að þar á bæ sé fólk vant að vinna að öryggismálum og fylgja gæðastöðlum af ýmsu tagi. Umhverfis- og öryggismál eigi ýmislegt sameiginlegt en hvort tveggja snúist um gott verklag, góða stefnu og gott utanumhald. Starfsstöðin fékk á dögunum viðurkenningu fyrir að hafa stigið fyrstu tvö Grænu skrefin en þar á bæ stefnir fólk enn hærra, þ.e. á ISO-umhverfisvottun en þess má geta að fimmta Græna skrefið er í raun léttari útgáfa af því gæðakerfi.
Ásdís Elva Aðalsteinsdóttir, skrifstofustjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (til hægri), og Sólveig Sif Halldórsdóttir, náttúrufræðingur við stofuna, glaðbeittar með viðurkenninguna frá Umhverfisstofnun.
Aðstæður á Félagsvísindasviði eru um margt óvenjulegar um þessar mundir enda skemmdist starfsaðstaða fjölmargra starfsmanna töluvert í vatnsflóði á háskólasvæðinu á dögunum. Sviðið var þá í miðri vinnu við að klára 2. og 3. Græna skrefið. Í ljósi fordæmalausra aðstæðna var ákveðið að veita sviðinu viðurkenningu fyrir þau enda þótti ljóst að starfsfólk þess myndi fylgja skrefunum vel eftir þegar húsnæðið yrði aftur klárt til notkunar. „Þó að það hafi vissulega verið skrítið að gera úttekt á stað án starfsstaðar þá er hægt að líta á skrefin sem hvatningu til þess að hafa umhverfismálin í huga strax frá byrjun. Með því erum við viss um að það náist bæði umhverfislegur ávinningur og spari tíma, peninga og fyrirhöfn,“ segir á vef Grænna skrefa.