Skip to main content
9. febrúar 2021

Tobias og María ráðin til starfa við rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík

Tobias og María ráðin til starfa við rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tobias Björn Weisenberger hefur verið ráðinn forstöðumaður nýstofnaðs rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík og kemur hann formlega til starfa 1. maí nk. Þá hefur María Helga Guðmundsdóttir verið ráðinn verkefnisstjóri við setrið og hefur hún þegar hafið störf. Fyrst um sinn verður María með starfsaðstöðu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ en mun flytja austur á Breiðdalsvík með vorinu.

Rannsóknasetrið á Breiðdalsvík er byggt á grunni starfsemi Breiðdalsseturs ses. og er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. Síðastliðið haust undirrituðu Háskóli Íslands og Náttúruvísindastofnun Íslands samstarfssamning um að efla rannsóknir í jarðfræði á Austurlandi og er starf verkefnisstjóra við rannsóknasetrið fjármagnað af báðum aðilum. 

„Með stofnun nýs rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík þar sem megináhersla verður lögð á jarðvísindi eflist starfsemi rannsóknasetra háskólans um land allt. Viðfangsefni og áskoranir samtímans krefjast þverfræðilegrar nálgunar og því erum við mjög spennt fyrir frekari eflingu starfsemi rannsóknasetranna. Með stofnun setursins á Breiðdalsvík og þessu öfluga fólki stóreflist starfsemin á Austurlandi,“ segir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Fyrir er starfandi rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi með aðsetur á Egilsstöðum.

Alls bárust þrjár umsóknir um starf forstöðumanns og að loknu dóm- og valnefndarferil var Tobiasi boðið starfið. Hann lauk doktorsgráðu í jarðvísindum frá Albert-Ludwigs háskólanum í Freiburg árið 2009. Doktorsritgerð hans ber titilinn „Zeolites in fissures of crystalline basement rocks“. Frá árinu 2014 hefur hann starfað sem jarðefnafræðingur hjá ÍSOR en áður kenndi hann við jarðvísindadeild Háskólans í Oulu og gegndi nýdoktorsstöðu við Texasháskóla í Austin. 

María er með meistarapróf í jarð- og umhverfisfræðum frá Stanford-háskóla og er einnig með BS-próf í þeim fræðum auk BA-prófs í þýskum fræðum frá sama skóla. Þá hefur hún lagt stund á nám í japönsku máli og menningu við Háskóla Íslands. Hún hefur fjölbreytta rannsóknarreynslu í jarð- og umhverfisvísindum, en síðustu ár hefur hún einkum starfað við þýðingar og prófarkalestur, auk þess að vera karateþjálfari.

Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er meðal annars að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélög setranna. Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Með tilkomu rannsóknarsetursins á Breiðdalsvík eru rannsóknasetur Háskóla Íslands orðin tíu talsins, auk starfsemi í Vestmannaeyjum.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Maríu og Tobias hjartanlega velkomna til starfa.

 

Tobias Weisenberger og María Helga Guðmundsdóttir hafa verið ráðin til starfa við rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. MYNDIR / mynd af Tobiasi: úr einkasafni. Mynd af Maríu: Alda Villiljós